eftir Fjodor M. Dostoévskí í þýðingu Arnórs Hannibalssonar. Eigin útgáfa. 1998 675 bls. SUMIR höfundar gnæfa þannig upp úr samtíma sínum að rit þeirra eru eins og tindar á flatlendi. Einn þessara höfunda er Fjodor M. Dostoévskí. Líkt og margir höfundar 19.
Djöflar fara á kreik
BÆKUR
Þýdd skáldsaga
HINIR ÓÐUeftir Fjodor M. Dostoévskí í þýðingu Arnórs Hannibalssonar. Eigin útgáfa. 1998 675 bls.
SUMIR höfundar gnæfa þannig upp úr samtíma sínum að rit þeirra eru eins og tindar á flatlendi. Einn þessara höfunda er Fjodor M. Dostoévskí. Líkt og margir höfundar 19. aldar skrifaði hann miklar og langar sögur með fjölmörgum persónum og ólgandi mannlífi og veittu þær ríkulega innsýn í þjóðfélagslega strauma innan Rússaveldis. En jafnframt var hann upptekinn af innra lífi einstaklingsins, var næmur á persónuleg vandamál og viðbrögð manna við þeim. Að auki velti hann að jafnaði fyrir sér spurningum um tilvist mannsins, guðdóminn og fleira þess kyns með þeim hætti að ýmsir telja hann einn af frumkvöðlum módernískrar hugsunar. Nokkur helstu verk Dostoévskís hafa komið út á íslensku að undanförnu og nú bætist eitt við, Hinir óðu, sem Arnór Hannibalsson hefur þýtt úr rússnesku. Hinir óðu bera öll helstu höfundareinkenni seinni verka Dostoévskís, en hún kom út árið 1871. Bókin hefur að sönnu fallið nokkuð í skugga þekktari verka höfundarins, enda ýmislegt í henni sem gerir hana vandlesna. Undirróðursstarfsemi Í sögunni er okkur kastað inn í heim rússneskra góðborgara sem eigra um milli samkvæma í iðju- og gagnleysi í skjóli alræðis keisaradæmisins og ritskoðunar þess. Undir þeim eru kynntir eldar óánægju og neðanjarðar ólga ýmsar uppreisnarhreyfingar. Þennan veruleika skoðar Dostoévskí í bók sinni. Sjálfur hafði höfundurinn fyrr á ævinni tekið þátt í pólitískri neðanjarðarstarfsemi og raunar rétt sloppið við aftöku fyrir þátttöku sína í henni. Síðar gerðist hann mjög fráhverfur hinum róttæku öflum og raunar íhaldssamur í þjóðfélagslegum efnum. Sennilega tekur hann óvíða jafnharkalega á uppreisnaröflunum og í Hinum óðu. Inn í smáborgar- og sveitasælu lágaðalsins brýst hin dýóníska og níhílska ógn að neðan, ekki bara verkamenn í verksmiðju heldur ekki síður og kannski fyrst og fremst menntamenn sem telja sig vera framvarðarsveit í verðandi byltingu. Í sögunni leiðir starfsemi þeirra til pólitískra ódæða og hryðjuverka, morða og svika. Þeir kveikja jafnvel elda í borginni til að valda óreiðu. Orð héraðsstjórans í sögunni sem sögð eru í örvæntingu eftir að upplausnaröflin hafa bugað hann eru kannski ekki svo fjarri hugsun Dostoévskís sjálfs. Alltént eru þau táknræn og undirstrika meginsöguhneigð bókarinnar: "Þetta er íkveikja! Þetta er níhílismi! Hvar sem brennur, þar er níhílismi!" Annars segir sagan frá hjónaleysunum Barböru Petrovna Stavrogrínu og Stepan Trofímovitsj Vérkhovénskí. Hún er auðug ekkja general-lautinants sem gengur um með pilsaþyti og hann menntamaður, fræðimaður og kennari, uppfullur af innantómri og frönskuskotinni skrúðmælgi. Þau eiga hvort sinn soninn, hún Nikolaj Vsévolodovitsj Stavrogrín en hann Pjotr Stephanovitsj Vérkhovénskí. Þau skötuhjú lifa saman og samband þeirra er að vísu nokkuð laustengt en eigi að síður ekki án tilfinninga. Synir þeirra hafa verið fjarri þegar sagan hefst. En um leið og þeir koma fram á sjónarsvið sögunnar hefst upplausnarferlið. Báðir hafa þeir ánetjast níhílskum hugmyndum og róttækum, en hvor með sínum hætti. Hugmyndir Nikolajs leiða ekki einungis hörmungar yfir aðra heldur einnig sjálfstortímingu. Pjotr Stephanovitsj kemur inn í söguna eins og tímasprengja, hann er hið illa og demónska afl hennar. Hann sprengir ekki einungis upp samband þeirra hjónaleysa með yfirlýsingum sínum heldur veldur hann með háttsemi sinni margháttuðum vandræðum. Hann er útsmoginn undirróðursmaður, illkvittinn, hatursfullur og í raun haldinn einhverju djöfulæði.
Hann og ótótlega félaga hans tengir Dostoévskí síðan ýmsum þeim félagshreyfingum róttæklinga og annarra hugmyndasmiða sem honum var illa við, svo sem narodníka, bakúnínista, fourierista, hugmynda hryðjuverkamannsins Tkatsévs um framvarðasveitina, og svo mætti lengi telja. Hann tekur jafnvel skáldið Túrgénév á beinið. Má segja að þessi þáttur sögunnar sé öðrum þræðinum kaldhæðin skopádeila. Iðrunarleysi og guðleysi En þessi bók er með þeim hætti að í henni eru fjölmargar víddir, ástarsögur, glæpasögur og margt fleira. Spurningin um guðdóminn og spurningin um tilveru mannsins gegna mikilvægu hlutverki. Sonur Barböru Petrovnu, Nikolaj Vsévolodovitsj Stavrogrín, hefur lifað fremur syndugu lífi að honum finnst. Hann er álíka upptekinn af umhugsuninni um líferni sitt og nauðsyn yfirbótar og iðrunar og Dostoévskí sjálfur sem taldi þjáningarfulla yfirbót leiðina til sjálfsfrelsunar. Sá er þó munurinn að Stavrogrín er hálfvelgjan uppmáluð. Allar hugleiðingar hans minna raunar á tvístígandahátt Hamlets Danaprins. Svo skefjalaus er efahyggja hans að Dostoévskí lætur aðra mikilvæga persónu, Kírilov, segja um hann: "Ef Stavrogrín trúir, þá trúir hann því ekki. Ef hann trúir ekki, þá trúir hann ekki, að hann trúi ekki." Örlög Stavrogríns mótast af þessari skapgerð hans. Hann hefur öll skilyrði til að verða sannur maður en guggnar á verkefninu og verður svikari við sjálfan sig, ómerkilegur glæpamaður í eigin augum og á ekki skilið annað en að eyðast upp. Í Kírilov birtist annað mikilvægt minni sem oft gægist fram í ritum Dostoévskís, afstaðan til guðdómsins. Hún tengist sjálfsmorðshugleiðingum þessa lífsleiða manns sem alla söguna hefur uppi áform um að drepa sig í nafni guðleysisins. Hans skoðun er sú að ef "Guð er ekki til, þá er ég Guð" ... "Ef Guð er til, þá er allur vilji hans, og undan vilja hans er enginn undankomuleið. Ef Guð er allur vilji minn, og ég er skyldugur til að lýsa yfir eiginvilja." Af þessu dregur hann óvænta niðurstöðu út frá sínum eigin vilja. Í hans huga er einungis ein leið til að sanna guðleysið og öðlast frelsi, en það er með því að drepa sig, því með slíkum verknaði ræður maður yfir lífi og dauða, verður Guð: "Ég drep mig til að sýna sjálfstæði mitt og hið nýja ógnvænlega frelsi mitt." Ljóst hygg ég raunar vera að þetta guðleysishjal hugnaðist Dostoévskí lítt þótt hann væri upptekinn af því. Önnur persóna, Shatov, er látin túlka hugmynd sem er nær guðshugmyndum höfundarins, sem sé þá hugmynd að rétttrúnaðar kristni og rússnesk þjóð sameinuðust í frelsun mannkyns í striti og í gegnum þjáningu: "Þér verðið að ná til guðs með striti; í því er kjarni málsins, eða þá að þér hverfið sem dögg fyrir sólu; með vinnu og erfiði finnið þér hann." Öll umfjöllun um rit Dostoévskís er ófullkomin. Svo margbrotin eru verk hans og Hinir óðu eru þar engin undantekning. Frásagnarháttur hans einkennist af breiðum þjóðfélagslýsingum og mannlýsingum í gegnum sögumann sem oftast er nálægur en flækist samt ekki ýkja mikið fyrir og svo að segja hverfur í skuggann. En þessi sögumaður leyfir kaldhæðni höfundar að njóta sín. Þrátt fyrir hollustu við yfirvöld og að því er virðist fremur íhaldssöm viðhorf til þjóðfélags- og trúmála hin seinni æviár höfundarins var það svo að einn kafli bókarinnar var bannaður í upphafi en birtist hér í þýðingu Arnórs. Seinni tíma mönnum kann að þykja erfitt að skilja hvers vegna hann var bannaður. En raunar er saga Dostoévskí þrátt fyrir meinta íhaldssemi höfundar afar byltingarkennt rit af því að það fjallar um málefni sem reynt var að bæla niður. Ef til vill skýrir staða rithöfundarins í slíku samfélagi að nokkru leyti svonefnda íhaldssemi Dostoévskís. Þýðingin Ljóst er að þýðandi þessa verks, Arnór Hannibalsson, hefur lagt á sig mikla vinnu til að koma anda verksins til skila og það hefur tekist og ber að þakka honum fyrir það. Ég hef ekki tök á að bera þýðinguna saman við frumtextann þar sem ég er ekki læs á rússnesku, en af ýmsu þykir mér sýnt að þýðandi sé nákvæmur í vinnubrögðum. Aftur á móti er texti verksins fremur torlesinn. Að nokkru verður að skrifa það á frumtextann. Texti Dostoévskís er einfaldlega það hlutbundinn og fullur af samtímavísunum og skotum út og suður að hann er vandlesinn. Hinu er ekki að leyna að laginn þýðandi getur, með því að brjóta slíkan texta upp, stytta málsgreinar og fjölga efnisgreinum, gert hann aðgengilegri. Þarna skortir nokkuð á í þessari bók. Enn fremur er sárt til þess að vita að ekkert forlag skuli hafa staðið að útgáfu ritsins. Með vandaðri útgáfu og margháttuðum yfirlestri hefði mátt bæta það töluvert. Hér er þó ekki verið að kasta rýrð á þá vinnu sem unnin hefur verið, því útgáfa þessarar bókar sætir nokkrum tíðindum. Skafti Þ. Halldórsson Dostoévskí Arnór Pálsson