HÁSKÓLI Íslands hefur selt Reykjavíkurapótek, sem er á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Kaupandinn er Eignarhaldsfélag Karls Steingrímssonar, sem kenndur er við Pelsinn. Kaupverðið fæst ekki uppgefið, en Ragnar Ingimarsson, forstjóri Happdrættis Háskólans, segir það vel viðunandi.

Háskólinn selur

Reykjavíkurapótek

HÁSKÓLI Íslands hefur selt Reykjavíkurapótek, sem er á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Kaupandinn er Eignarhaldsfélag Karls Steingrímssonar, sem kenndur er við Pelsinn. Kaupverðið fæst ekki uppgefið, en Ragnar Ingimarsson, forstjóri Happdrættis Háskólans, segir það vel viðunandi. Í frétt Morgunblaðsins um fyrirhugaða sölu hússins í síðustu viku kom fram að verðhugmyndir væru um 290 milljónir króna.

Húsið verður afhent nýjum eiganda um áramótin. Karl Steingrímsson sagði í gær að húsnæðið væri í leigu og fyrst um sinn væru ekki áformaðar breytingar á notkun þess. Húsið væri fallegt og á góðum stað og því góð eign, en að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um kaupin.

Háskólinn keypti Reykjavíkurapótek fyrir 2­3 árum. Ragnar sagði að ástæðan fyrir kaupunum hefði verið sú að eigandi húsnæðisins hefði viljað selja og því hefði rekstur apóteksins, sem var í höndum Háskólans, verið í uppnámi. Á þeim tíma hefði það verið mat Háskólans að það væri nauðsynlegt fyrir kennslu í lyfjafræði að eiga aðild að rekstri apóteks. Síðan hefðu orðið breytingar á lyfjamarkaði hér á landi og viðhorf hefðu því breyst innan Háskólans. Rekstrargrundvöllur fyrir apótekum hefði versnað og ekki virtist lengur nægilega mikill vilji innan Háskólans til að halda honum áfram. Sömuleiðis virtust menn ekki telja eins nauðsynlegt nú og fyrir 2­3 árum, að Háskólinn ætti aðild að rekstri lyfjabúðar.

Ragnar tók fram að engin ákvörðun hefði verið tekin um að Háskólinn hætti rekstri Reykjavíkurapóteks. Engin breyting yrði á rekstri apóteksins á næstunni.

Ragnar sagði að þeir fjármunir sem Háskólinn fengi fyrir söluna á húsinu færu í framkvæmdir á vegum Háskólans. Samkvæmt samningi væri Háskólanum ekki heimilt að verja fénu til reksturs.