Gagnlegar upplýsingar
og nauðsynleg handbók
BÆKUR
Íþróttir
ÍSLENSK KNATTSPYRNA
1998
Eftir Víði Sigurðsson. Myndvinnsla: Pjetur Sigurðsson, Einar Ólason, Litmyndir. Prentvinnsla: Grafík. 178 bls. Bókaútgáfan Skjaldborg 1998.
KNATTSPYRNAN er vinsælasta íþróttagrein í heimi og er mikil umfjöllun um hana víða um veröld. Fíklarnir eru margir og þeir nærast yfirleitt vel á tölfræði og öðrum upplýsingum úr nánasta knattspyrnuumhverfi sínu. Víðir Sigurðsson hefur sinnt þessum þætti vel, en síðan 1981 hefur hann séð til þess að íslenska knattspyrnusagan hefur verið skráð og gefin út árlega. Frá 1985 og þar til í fyrra var sérstakur kafli helgaður sögunni til 1981. Fyrstu bækurnar voru ekki eins nákvæmar og síðar hefur orðið á raunin og bætir höfundur úr að þessu sinni hvað árið 1981 varðar; telur upp á einni síðu leikmenn 1. deildar karla (efstu deildar) og segir frá leikjafjölda þeirra og mörkum. Ennfremur eru upplýsingar um landsleiki karla og kvenna á árinu. Að öðru leyti er bókin með hefðbundnu sniði. Formáli, lengri viðtöl við landsliðsþjálfara karla og þau sem sköruðu fram úr, viðtal við leikmann úr hverju liði efstu deildar karla, úttekt á Íslandsmótinu í öllum deildum og flokkum karla og kvenna, bikarkeppninni, deildabikarkeppninni og Evrópuleikjum félagsliða. Frásagnir af öllum landsleikjum Íslands í öllum aldursflokkum, upplýsingar um atvinnumenn erlendis, félagaskipti, dómara og störf þeirra, aðsókn og ýmsar tölulegar upplýsingar auk styttri frétta. Svart-hvítar myndir af einstaklingum og liðum prýða bókina og aftast eru litmyndir af öllum meistaraliðum ársins og landsliðinu sem gerði jafntefli við heimsmeistara Frakka auk fimm annarra litmynda af leikmönnum í keppni.
Þetta er fyrst og fremst handbók með öllum upplýsingum sem skipta máli. Uppsetningin er einföld og auðvelt að finna það sem leitað er að hverju sinni. Í því sambandi má nefna að á dögunum hafði norskur blaðamaður samband við undirritaðan og spurðist fyrir um ákveðinn leikmann úr íslensku neðri deildar liði. Hann hafði nafn leikmannsins reyndar ekki rétt eftir en með aðstoð bókarinnar reyndist létt verk að finna út við hvern var átt. Blaðamaðurinn fékk ekki aðeins svar við spurningum sínum heldur mun nákvæmari upplýsingar en hann hafði undir höndum og voru upphaflega komnar frá viðkomandi leikmanni!
Árlega hafa orðið breytingar til batnaðar á bókinni. Að þessu sinni eru fleiri viðtöl en áður og auka þau gildi verksins, ekki síst þegar fram líða stundir. Tölurnar segja sitt en viðmælendurnir skýra hvað á bak við þær stendur. Stuttfréttirnar með frásögnum af gangi mála í hverri umferð efstu deildar karla og kvenna gefa líka gleggri mynd af stöðunni hverju sinni. Tölurnar breytast frá ári til árs og fyrir þá sem þurfa á þeim að halda er þægilegt að geta gengið að þeim vísum.
Bókaflokkurinn Íslensk knattspyrna er þarft verk með gagnlegum upplýsingum og í raun er um nauðsynlega handbók að ræða fyrir þá sem fjalla um íslenska knattspyrnu og aðra sem hafa gaman af henni. Knattspyrnan var svona í ár og miklu skiptir að sagan var skráð um leið og atburðirnir gerðust. Það ætti að koma í veg fyrir rangfærslur.
Steinþór Guðbjartsson
Víðir Sigurðsson