DAVID Platt, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri ítalska liðsins Sampdoria að sögn ítölsku fréttastofunnar ANSA. Samkvæmt frétt stofunnar verður þetta tilkynnt í dag eða á morgun. Platt tekur við starfinu af Luciano Spalletti, sem var rekinn á mánudaginn eftir fjögurra mánaða starf hjá Sampdoria.


KNATTSPYRNA

Platt til

Sampdoria Marcello Lippi hættir með Juve í vor DAVID Platt, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri ítalska liðsins Sampdoria að sögn ítölsku fréttastofunnar ANSA. Samkvæmt frétt stofunnar verður þetta tilkynnt í dag eða á morgun. Platt tekur við starfinu af Luciano Spalletti, sem var rekinn á mánudaginn eftir fjögurra mánaða starf hjá Sampdoria. Hann náði mjög góðum árangri með Empoli á árunum 1993 til 1998 og kom liðinu úr þriðju deild í þá fyrstu, en hefur ekki náð að fylgja þeim árangri eftir hjá Sampdoria.

Platt, sem er 32 ára, hætti að leika knattspyrnu í júlí og hefur síðan stefnt að því ljóst og leynt að gerast knattspyrnustjóri. Hann hóf ferilinn 17 ára unglingur hjá Manchester United fór þaðan til Crewe Alexandra og til Aston Villa árið 1988. Þaðan fór hann til Bari á Ítalíu árið 1991. Eitt ár lék hann með Juventus, tvö með Sampdoria og snéri síðan til Englands í júlí 1995 og gekk til liðs við Arsenal.

Fyrsta landsleikinn lék Platt 1989 en alls lék hann 62 landsleiki fyrir England og er dýrasti leikmaður í sögu enska landsliðsins, hefur verið seldur fyrir ríflega tvo og hálfan milljarð króna, enda skipti hann nokkrum sinnum um félag.

Lippi hættir með Juve

Marcello Lippi, þjálfari Ítalíumeistara Juventus, hefur tilkynnt að hann hyggist láta af þjálfun liðsins eftir þetta keppnistímabil. t"Ég lét framkvæmdastjórnina vita af þessu í sumar og leikmennirnir vita þetta sömuleiðis. Ég hef verið hér við stjórnvölinn í fimm ár og þarf á tilbreytingu að halda. Ég gæti jafnvel hugsað mér árshvíld," sagði Lippi.

Lippi hefur sem þjálfari Juventus unnið til þriggja meistaratitla á fjórum árum sínum með liðið. Síðustu þrjú ár hefur hann einnig leitt liðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, unnið Ajax 1996 og tapað fyrir Dortmund (1997) og Real Madrid (1998).

Í vetur hefur hins vegar ekki gengið sem skyldi hjá Juve og þeir eru sem stendur í 9. sæti deildarinnar. Á dögunum tókst liðinu þó að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar. Brotthvarf Lippis er þó ekki í tengslum við slæmt gengi, hann nýtur gríðarlegrar hylli í Tórínóborg og forráðamenn liðsins vilja halda honum fyrir alla muni.

Ekki er ljóst hvað Lippi hyggst fyrir í vor, en þegar hafa mörg stórlið verið nefnd til sögunnar, m.a. Lazio í Rómaborg og Real Madrid á Spáni.