Vaðbrekku, Jökuldal-Guðmundur Ólason loðdýrabóndi á Hrólfsstöðum segir að ekki þýði að elta verðsveiflurnar í loðdýraræktinni, annaðhvort sé maður loðdýrabóndi eða ekki. Guðmundur segist verða að standa af sér niðursveiflurnar til að vera með góðan stofn þegar uppsveiflurnar koma og lánastofnanirnar séu farnar að skilja þetta sjónarmið.
Þýðir ekki að elta
sveiflur í loðdýraræktinni
Vaðbrekku, Jökuldal - Guðmundur Ólason loðdýrabóndi á Hrólfsstöðum segir að ekki þýði að elta verðsveiflurnar í loðdýraræktinni, annaðhvort sé maður loðdýrabóndi eða ekki.
Guðmundur segist verða að standa af sér niðursveiflurnar til að vera með góðan stofn þegar uppsveiflurnar koma og lánastofnanirnar séu farnar að skilja þetta sjónarmið. "Þar hefur stundum vantað á skilning þau sextán ár sem ég hef verið í loðdýraræktinni," segir Guðmundur.
Skilar ekki miklum virðisauka að selja á lágmarksverði"Það er dýrast að setja á lífdýr þegar verð er í hámarki, það tekur út úr rekstrinum, heppilegra er að bæta við sig lífdýrum þegar verð á skinnum er lágt, bæta stofninn þá og vera tilbúinn með stóran og góðan stofn þegar verðið hækkar." Guðmundur tekur sem dæmi að það hafi verið dýrt fyrir þá sem byrjuðu loðdýrabúskap í annað skiptið fyrir tveimur árum að kaupa lífdýr þegar skinnaverð var í hámarki og verða nú að selja öll sín skinn á lágmarksverði, það skili ekki miklum virðisauka. Guðmundur segist halda sínu striki hvað reksturinn varðar og ekki elta þessar sveiflur mikið, þær komi alltaf annað veifið. "Ég verð að búa við sveiflurnar og laga mig að þeim. Skinnaverkunin á þessu hausti hefur gengið vel. Nú er skinnaverð í lágmarki og þegar það er í lágmarki segir reynslan mér að það fari hækkandi í framtíðinni," segir Guðmundur. Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson ALLT að sex manns vinna við skinnaverkunina á Hrólfsstöðum þegar flest er á haustin, hér sést hluti starfsfólksins vinna við refaskinn á þönum.
GUÐMUNDUR Ólason bóndi á Hrólfsstöðum og Guðmundur Óli sonur hans við þönuvagn þegar stund gafst milli stríða.