HAFT var eftir Mesut Yilmaz, forsætisráðherra Tyrklands, í gær, að stjórnvöld í Tyrklandi og á Ítalíu væru að semja um að senda kúrdíska skæruliðaforingjann Abdullah Öcalan til þriðja ríkis, hugsanlega Albaníu. Hafa NATO-ríkin tvö deilt hart um þetta mál, en ítalska stjórnarskráin bannar að menn séu framseldir til ríkja sem beita dauðarefsingu. Yilmaz segir, að Tyrkir hafi stungið upp á Pakistan, en Ítalir hafnað því, en lagt til, að N-Kórea yrði fyrir valinu. Það vildu Tyrkir ekki. Nú væri rætt um Albaníu og hefðu Tyrkir ekkert á móti því. Albönsk stjórnvöld gáfu til kynna í gær að ekki hefði verið leitað til þeirra um framsal á Öcalan þangað, en ef slík beiðni bærist yrði henni hafnað.
Lávarðadómari vanhæfur?
EINN lögfræðinga Augustos Pinochets, fyrrverandi einræðisherra í Chile, reyndi í gær að fá æðsta dómstól Bretlands til að falla frá dómsúrskurði sínum í máli Pinochets, þar sem einn dómaranna hefði ekki getað hreinsað sig af ásökun um vanhæfi. Lávarðadeild brezka þingsins úrskurðaði hinn 25. nóvember með þremur atkvæðum gegn tveimur að Pinochet nyti ekki friðhelgi frá saksókn. Lögmaðurinn, Clare Montgomery, bar upp mótmæli vegna þess að einn þeirra þriggja sem úrskurðuðu gegn Pinochet, Hoffmann lávarður, er yfirmaður mannúðarsamtaka á vegum Amnesty International. Hún sagði í gær að lávarðurinn hefði átt að gera kunnug tengsl sín við mannréttindasamtökin áður en hann tók sæti í dómstólnum sem fjallaði um Pinochet-málið. Fyrst hann gerði það ekki yrði hann að teljast vanhæfur og úrskurðurinn ógildur.
Jeltsín lofar áframhaldandi umbótum
BORÍS Jeltsín, forseti Rússlands, sagði í gær að umbótum yrði haldið til streitu í Rússlandi og stjórn þess myndi halda áfram uppi virkri utanríkisstefnu þrátt fyrir hina alvarlegu fjármálakreppu sem landið á við að etja. Skrifaði Jevgení Prímakov forsætisráðherra undir fyrirskipun í gær um breytingu á fyrirkomulagi greiðslu skulda Rússlands.