ÞRÍR unglingspiltar veittust að jafnaldra sínum í Grafarvogi í gærmorgun og veittu honum áverka svo hann þurfti að leita aðhlynningar á heilsugæslustöðina. Móðir piltsins segir að hann hafi verið lagður í einelti í skóla sínum um þriggja ára skeið. Hann var fluttur yfir í annan skóla í hverfinu í febrúar og virtist sem málið hefði leyst með því.
Þrír unglingspiltar réðust á blaðbera í Grafarvogi í gærmorgun Martröð eineltis hafin á nýjan leik

ÞRÍR unglingspiltar veittust að jafnaldra sínum í Grafarvogi í gærmorgun og veittu honum áverka svo hann þurfti að leita aðhlynningar á heilsugæslustöðina. Móðir piltsins segir að hann hafi verið lagður í einelti í skóla sínum um þriggja ára skeið. Hann var fluttur yfir í annan skóla í hverfinu í febrúar og virtist sem málið hefði leyst með því. Hún segir að martröðin hafi síðan hafist á nýjan leik í gær þegar drengirnir þrír, sem voru með honum í bekk í gamla skólanum, réðust á hann.

Lögreglan í Grafarvogi hefur málið til rannsóknar. Hún staðfestir að ráðist hafi verið á drenginn en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Morgunblaðið náði tali af móður drengsins og var hún fús til að skýra frá hlið mæðginanna en óskaði nafnleyndar.

"Það kvarnaðist úr beini á vinstri fæti hans niðri við ökkla. Einnig sprungu efri og neðri vör hans og hann er bólginn í andliti. Þeir voru þrír sem réðust á hann. Hann var að bera út Morgunblaðið í hverfi eins af piltunum. Þeir földu blaðakerruna og hann sneri sér þá til móður eins þeirra með vandræði sín. Þegar hann kom frá því að tala við hana sátu þeir fyrir honum og réðust á hann. Þeir segja að hann hafi ráðist á sig með vasahnífi en sannleikurinn er sá að í áflogunum rann hnífurinn úr vasa hans í snjóinn. Hann hefur ekki viljað koma nálægt fyrri skóla sínum og hefur ekki samband við nokkurn af fyrri skólafélögum sínum. Hann er algjörlega einangraður og bindur ekki trúss sitt við neinn," sagði móðir piltsins.

Áður þurft að leita aðhlynningar

Tvisvar áður hefur drengurinn leitað aðhlynningar á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi eftir sams konar atvik. Honum hefur hins vegar vegnað vel í nýja skólanum og hefur ekki orðið fyrir aðkasti þar. Fyrir um þremur árum fékk drengurinn, sem er fjórtán ára, tölvu í verðlaun frá Nýsköpunarsjóðnum fyrir hönnun á hlíf fyrir símaskrár og sömuleiðis fékk hann verðlaun í samkeppni sem Lego-kubbaframleiðandinn stóð fyrir. Móðir hans segir að upp úr því hafi eineltið hafist. Að hennar mati hefur þáttur kennara í eineltismálum alls ekki verið skoðaður nægilega vel.

"Ég var búin að fá alveg nóg af þessu í fyrri skiptin og hélt að þessu væri lokið, en þá upphefst martröðin á ný. Núna vil ég að það verði tekið á þessu af festu og af þeim sökum kærði ég málið til lögreglu," sagði móðirin.

Sérstakur forvarnarfulltrúi er hjá lögreglunni í Grafarvogi og starfar hann í tengslum við fjölskylduþjónustuna Miðgarð í Grafarvogi. Hann fylgir m.a. eftir eineltismálum og öðrum málum sem koma upp í skólum í hverfinu. Yfir 14 þúsund íbúar eru í Grafarvogshverfi og á síðasta ári voru um 40% af íbúunum undir 18 ára aldri.