JAKOB Kristjánsson, framkvæmdastjóri Íslenskra hveraörvera segir að fyrirtækið sé í molum og framtíð þess sé óráðin, vegna ummæla Sindra Sindrasonar, stjórnarformanns Genís hf., í fjölmiðlum, og tilkynningar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um að ekki hafi staðið til að veita fyrirtækinu sérleyfi til rannsókna.
Jakob Kristjánsson framkvæmdastjóri Íslenskra hveraörvera

Reynt að þvinga fram

hlut í fyrirtækinu

JAKOB Kristjánsson, framkvæmdastjóri Íslenskra hveraörvera segir að fyrirtækið sé í molum og framtíð þess sé óráðin, vegna ummæla Sindra Sindrasonar, stjórnarformanns Genís hf., í fjölmiðlum, og tilkynningar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um að ekki hafi staðið til að veita fyrirtækinu sérleyfi til rannsókna.

Jakob greindi frá stöðu Íslenskra hveraörvera og sjónarmiði fyrirtækisins á þeim ágreiningi sem upp hefur komið milli ÍH og Genís á blaðamannafundi í gær. Starfsmenn líftæknideildar Iðntæknistofnunar sendu einnig frá sér yfirlýsingu, þar sem þeir segjast telja að vegið sé gróflega að starfsheiðri þeirra og framtíðaratvinnumöguleikum.

Genís hætt öllum hveraörveruverkefnum

Jakob greindi frá því að Genís hefði hætt hveraörverurannsóknum fyrir tveimur árum, og benti, máli sínu til stuðnings, á bréf frá Iðntæknistofnun dagsett 4.4. 1997, þar sem samningi Genís um einkarétt á nýtingu hveraörverurannsókna stofnunarinnar er sagt upp.

Jakob sagði jafnframt að þau verkefni sem Genís vinnur að væru ekki tengd hveraörverum. "Eina hveraörveruverkefnið sem Genís hefur sjálft staðið fyrir er að vera leppur fyrir bandaríska fyrirtækið Diversa við að safna hér sýnum úr hverum og senda óunnin úr landi. Markmið ÍH er að einmitt hindra slíka starfsemi," sagði Jakob.

Sagðist hann telja athugavert að þrátt fyrir að iðnaðarráðuneytið hefði snemma á þessu ári unnið að reglugerðarsetningu um söfnun og nýtingu hveraörvera, þar sem Genís hefði verið meðal fjölmargra umsagnaraðila um reglurnar, hefði fyrirtækið ekki gert neinar athugasemdir fyrr en skyndilega nú.

Miklir fjármunir í húfi

"Legið hefur fyrir í u.þ.b. hálft ár að iðnaðarráðuneytið ynni að útgáfu leyfa til rannsókna og nýtingar á hveraörverum og jafnframt hefur það verið rækilega kynnt í fjölmiðlum að umsókn ÍH um slíkt leyfi lægi fyrir. Samt hefur Genís ekki sótt um slíkt leyfi né mótmælt því á nokkurn hátt, þar til nú."

Jakob benti á að undirrituð sameiginleg skýrsla framkvæmdastjóra bæði ÍH og Genís, og útboðslýsing Genís fyrir hlutafjárútboð sl. vor, sýndu að starfsemi fyrirtækjanna skaraðist ekki. Auk þess sem Genís hefði hafnað samkomulagi við ÍH sem tryggði aðgang þess að hveraörverum ef starfsemi fyrirtækisins krefðist þess í framtíðinni.

"ÍH hafði frumkvæði að því að bjóða Genís þátttöku í félaginu. Í þeim viðræðum hefur eina innlegg Genís verið að hóta ÍH að ef þeir fengju ekki gefins stóran hlut í ÍH myndu þeir bregða fæti fyrir starfsemi okkar með því að koma í veg fyrir að við fengjum umrætt sérleyfi. Þeirri hótun hefur Genís nú fylgt eftir," sagði Jakob í gær.

Jakob sagði mikla fjármuni vera í húfi, en í umsókn sinni um sérleyfi á nýtingu hveraörvera skuldbindur ÍH sig til þes að verja sem nemur 350 milljónum króna til rannsókna- og þróunarstarfsemi á afurðum hveraörvera næstu fimm ár. Sagði hann jafnframt að sérleyfi væri lykilatriði að fjármögnun slíkra verkefna og án þess myndu fjárfestar ekki hætta sér út í fjárfestingu í fyrirtækinu vegna mikillar áhættu.

Morgunblaðið/Þorkell JAKOB Kristjánsson, framkvæmdastjóri Íslenskra hveraörvera og starfsmenn líftæknideildar Iðntæknistofnunar sendu frá sér yfirlýsingu á blaðamannafundi í gær. Við hlið Jakobs eru Guðmundur Óli Hreggviðsson, Sólveig K. Pétursdóttir, Viggó Þór Marteinsson og Sigurlaug Skírnisdóttir.