Talin leiða til mismununar
MARGIR áfengisheildsalar eru
ósáttir við viðbrögð Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í kjölfar dóms Samkeppnisstofnunar þess efnis að bjórflöskur skuli í framtíðinni seldar í lausasölu. Vegna plássleysis í verslunum hafa forsvarsmenn ÁTVR ákveðið að bregðast við áliti Samkeppnisstofnunar með þeim hætti að frá og með næstu áramótum verða stakar bjórflöskur seldar beint úr bjórkippum eða kössum. Þannig telur fyrirtækið sig geta uppfyllt skilyrði samkeppnisyfirvalda um lausasölu án þess að gera sérstakar ráðstafnir um aukið rými í verslunum sínum. Fyrir liggur að stórir erlendir bjórframleiðendur eru ekki reiðubúnir að breyta umbúðum sínum fyrir svo lítið markaðssvæði sem hér um ræðir og munu því að óbreyttu hugsanlega taka vörur sínar af íslenskum markaði.
Ýmsir áfengisheildsalar telja ákvörðun ÁTVR mismuna innflytjendum eftir umbúðum vörunnar. Í þeim hópi er Birgir Hrafnsson, framkvæmdastjóri Lindar ehf., sem flytur inn þýska bjórinn Holsten Premium. Hann segir engan vafa leika á um að það sölufyrirkomulag sem ÁTVR hyggst taka upp í næsta mánuði leiði til mismununar. "Staðhæfingin felst í því að þær bjórtegundir sem liggja lausar í umbúðunum falla betur að nýja sölufyrirkomulaginu en t.a.m. okkar vara sem er föst." Birgir telur bæði mun meiri hættu á óhöppum ef viðskiptavinir þurfa að losa glerflöskur úr umbúðum, auk þess sem því fylgi talsverður óþrifnaður af rifnum pakkningum. Þar að auki segir Birgir að fyrirkomulagið stangist á við markaðsstefnu Holsten fyrirtækisins sem selur Holsten Premium eingöngu í heilum kössum og sex flösku pakkningum til allra annarra landa. Hann leggur áherslu á að krafa Lindar sé ekki að fá sérstakt rými undir stakar flöskur, heldur vill fyrirtækið að bjórinn verði áfram seldur með óbreyttu sniði, þ.e. eingöngu í heilum kössum eða sex saman.
Hentugasta lausnin
Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, segist gera sér fulla grein fyrir þeim vandkvæðum sem nýja sölufyrirkomulaginu fylgja. Hann segir það liggja í augum uppi að breytingin henti umbúðum sumra framleiðenda betur en annarra en bendir jafnframt á að húsrými verslana ÁTVR bjóði ekki upp á hentugri lausn en þá sem valin hefur verið. "Það er í sjálfu sér ekkert í úrskurði samkeppnisyfirvalda sem bannar birgjum eins og Lind að selja bjór með óbreyttum hætti, þ.e. eingöngu í heilum kössum eða kippum. Vandamálið snýst um það hvernig á að réttlæta og skýra fyrir neytendum að sumar bjórtegundir séu seldar í einstökum flöskum og aðrar ekki. Eins og málin standa þá hefur sú ákvörðun verið tekin að selja allt í stökum flöskum nema þær tegundir sem eru í alveg lokuðum umbúðum," segir Höskuldur.
Morgunblaðið/Golli TIL að mæta ákvæðum samkeppnisyfirvalda mun ÁTVR hefja lausasölu á bjórflöskum í byrjun næsta árs. Vegna plássleysis verða flöskurnar seldar beint úr bjórkippum, sem sumir áfengisbirgjar telja leiða til mismununar.