Ellen Kristjáns læðist um. Ellen Kristjánsdóttir syngur þekkt erlend jasslög með íslenskum textum. Ellen Kristjánsdóttir söngur, Guðmundur Pétursson raf- og kassagítar, Tómas R. Einarsson kontrabassi, Guðmundur R. Einarsson strýkur snerilbumbu í tveimur lögum. Auk þeirra koma við sögu Eyþór Gunnarsson sem lemur bongo og konga-trumbur í einu lagi og K.K. sem leikur á kassagítar í tveimur lögum.
Á sokkaleistunum TÓNLIST Geisladiskur ELLEN KRISTJÁNS LÆÐIST UM Ellen Kristjáns læðist um. Ellen Kristjánsdóttir syngur þekkt erlend jasslög með íslenskum textum. Ellen Kristjánsdóttir söngur, Guðmundur Pétursson raf- og kassagítar, Tómas R. Einarsson kontrabassi, Guðmundur R. Einarsson strýkur snerilbumbu í tveimur lögum. Auk þeirra koma við sögu Eyþór Gunnarsson sem lemur bongo og konga-trumbur í einu lagi og K.K. sem leikur á kassagítar í tveimur lögum. Íslenskir textar eru eftir Friðrik Erlingsson en þeir Pétur D. Kristjánsson og Ómar Ragnarsson eiga einn texta hvor. Útsetningar voru í höndum þeirra sem spiluðu hverju sinni. Upptökumenn: Gunnar Smári Helgason og Jón Þór Birgisson. Hljóðblöndun: Gunnar Smári Helgason og Guðmundur Pétursson. Suð gefur út. ELLEN Kristjánsdóttir hefur valið sér erfitt tónlistarform á þessari sólóplötu sinni, viðkvæmt og brothætt. Nafn geisladisksins gefur ágæta mynd af tónlistinni, hér er farið um hægt og hljóðlega, skórnir skildir eftir og læðst um á sokkaleistunum. Plata Ellenar Kristjánsdóttur hefur að geyma 14 erlend lög, sem flest eru þekkt jasslög. Þarna er að finna lög eftir Gerswin, Cole Porter, Irving Berlin og fleiri. Íslensku textarnir við þessi lög hljóma flestir vel og er það lofsvert framtak að fá þá flutta yfir á íslensku. Flest eru lögin rómantísk vel og oftar en ekki er fjallað um ást, söknuð og afbrýði. Ellen Kristjánsdóttir hefur í gegnum tíðina sýnt að hún er fjölhæf söngkona. Rödd hennar er sérstæð, seiðandi og þokkafull. Ellen býr yfir góðri tækni og ofgerir röddinni yfirleitt ekki. Á þessari plötu sinni sýnir hún og sannar að hún er á heimavelli í rólegum, melódískum jassi. Söngur hennar er yfirleitt óaðfinnanlegur en túlkunin ristir vissulega misdjúpt. Þessi tónlist gerir gífurlegar kröfur til raddbeitingar og tækni söngvarans og er alls ekki á allra færi. Lögin umgengst Ellen af tilhlýðilegri virðingu og þegar best lætur svífur prýðileg næturklúbbastemmning yfir vötnunum. Þetta tónlistarform er sem fyrr sagði erfitt og brothætt því nálægðin er mikil og menn þurfa að vera á varðbergi gagnvart tilgerð. Það er einungis á færi afbragðstónlistarmanna að flytja slíka tónlist því hér er ekki treyst á yfirtökur og galdratæki hljóðversins. Auðvelt er að missa tökin á þessu tónlistarformi, það krefst óvenju mikils aga og smekkvísi, hófstillingar og tækni. Hljóðfæraleikurinn á þessum geisladiski er afbragðsgóður. Alkunna er að Guðmundur Pétursson býr yfir óvenjulegum hæfileikum og að hann er gítarleikari í sérflokki. Gítarleikur hans á þessari plötu er hins vegar slíkur að ástæða er til að vekja á honum sérstaka athygli. Jassformið hefur Guðmundur sýnilega fullkomnlega á valdi sínu og unun er að hlusta á leik hans. Tæknin er fullkomin, leikurinn agaður, hljómaskynjun alveg frábær og smekkvísin slík að leitun er að. Slíku verki skilar aðeins yfirtak góður tónlistarmaður. Bassaleikur Tómasar R. Einarssonar er traustur mjög eins og vænta mátti. Hann skapar góða fyllingu, er hófsamur og smekklegur. Guðmundur R. Einarsson strýkur sneriltrumbu í tveimur lögum og hefði að ósekju mátt vera með í fleiri lögum. Upplýsingar vantar um hver leikur á víbrafón í "Búið spil". Þessi diskur Ellenar Kristjánsdóttur er gerður af verulegri íþrótt. Hann er persónulegur og einlægur, svo mjög raunar að farið er að ystu brún í túlkun á stöku stað. Yfir honum er þokki og þroski þess sem fundið hefur sína hillu í tónlistinni og lætur öðrum eftir rembing og hávaða nútímans. Tekist er á við sérlega erfitt tónlistarform en þegar upp er staðið getur Ellen verið ánægð með niðurstöðuna. Söngur hennar er með miklum ágætum og undirleikur vandaður. Hér er á ferðinni fólk sem vandar til verka. Æskilegt hefði verið að sama vandvirkni einkenndi hönnun umslagsins. Ásgeir Sverrisson