ENSKA úrvalsdeildarliðið Newcastle United segist hafa átt í undirbúningsviðræðum, sem geti leitt til 160 milljóna punda tilboðs um yfirtöku. Að sögn Newcastle verður ekkert tilboð lagt fram fyrr en brezka einokunar- og samrunanefndin, MMC, hefur gefið skýrslu um milljarðs dollara tilboð sjónvarpsrisans BSkyB í Manchester United Plc. MMC hefur frest til 12.


Býður Sony í Newcastle United?



London. Reuters.

ENSKA úrvalsdeildarliðið Newcastle United segist hafa átt í undirbúningsviðræðum, sem geti leitt til 160 milljóna punda tilboðs um yfirtöku.

Að sögn Newcastle verður ekkert tilboð lagt fram fyrr en brezka einokunar- og samrunanefndin, MMC, hefur gefið skýrslu um milljarðs dollara tilboð sjónvarpsrisans BSkyB í Manchester United Plc.

MMC hefur frest til 12. marz til að gefa skýrslu um það tilboð, sem er talinn prófsteinn á afstöðu eftirlitsyfirvalda til tilrauna fjölmiðlahópa til að yfirtaka brezk knattspyrnulið.

160 pens á bréf?

Yfirlýsing Newcastle kom í kjölfar fréttar í Daily Mail um að japanski rafeindatækjarisinn Sony Corp hafi boðið 160 pens á hlutabréf í viðræðum við fulltrúa Newcastle í síðustu viku.

Talsmaður Sony sagði að tal um áhuga fyrirtækisins á liðinu væri hreinar bollaleggingar."

Verð hlutabréfa í Newcastle lækkaði um 6% eftir yfirlýsingu liðsins, en hafði komizt í 125 pens. Ef boðin verða að minnsta kosti 110 pens á hlutabréf, eins og talað er um, er liðið um 160 milljóna punda virði.

Fjölmiðlar herma að bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Time Warner kunni einnig að bjóða í Newcastle.