Brjóta ekki í bága
við samkeppnislög
KÆRUM frá Samtökum um þjóðareign og Sigurgeiri Jónssyni í Sandgerði til Samkeppnisstofnunar
vegna auglýsinga Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem birtust í Morgunblaðinu í september, október og nóvember hefur verið vísað frá. Telur stofnunin auglýsingarnar ekki brjóta í bága við samkeppnislög og mun því ekki hafa af þeim frekari afskipti.
Í erindi frá Samtökum um þjóðareign til Samkeppnisstofnunar 2. nóvember er því haldið fram að með auglýsingunum hafi LÍÚ brotið gegn ákvæðum 20., 21. og 22. greinar samkeppnislaga. Þær fjalla m.a. um góða viðskiptahætti, að óheimilt sé að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar, að þær skuli þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða og að sýna verði sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga.
Í bréfi Sigurjóns Heiðarssonar, lögfræðings Samkeppnisstofnunar, til kæranda segir að LÍÚ hafi ekki verið að auglýsa vöru eða þjónustu, auglýsingarnar séu gerðar í tilefni fræðsluátaks tengdu ári hafsins og beri merki upplýsingar og fræðslu. "Þó svo að kvartandi telji fullyrðingarnar sem fram koma í auglýsingunum rangar er að mati Samkeppnisstofnunar ekki um að ræða skaðleg áhrif í skilningi samkeppnislaga, neytendum eða keppinautum til skaða," segir m.a. í bréfinu. Þá er því einnig vísað á bug að ekki sé auðvelt að átta sig á að um auglýsingar sé að ræða og sömuleiðis er það niðurstaða lögfræðingsins að ekki verði séð að auglýsingarnar geti valdið skelfingu hjá börnum né að þær sýni hættulegt fordæmi.
Sigurgeir Jónsson í Sandgerði kærði vegna auglýsingar með titlinum "velkomin um borð" og birt var í nafni íslenskra útvegsmanna sem hann telur villandi þar sem ekki standi allir útvegsmenn að henni. Fær Samkeppnisstofnun ekki séð hvernig samkeppnislög geti átt við í þessu tilviki, auglýsingin sé ekki birt með viðskiptahagsmuni í huga heldur sem þáttur í fræðsluátaki.