TÍMARITIÐ Frjáls verslun hefur útnefnt Hörð Sigurgestsson, forstjóra Eimskips, mann ársins 1998 í íslensku viðskiptalífi. Hörður hlýtur tilnefninguna fyrir framúrskarandi árangur og farsælan feril í störfum sínum fyrir Eimskip. Félagið hefur skilað góðum hagnaði flest árin á starfstíma hans, að því er fram kemur í tilkynningu.
Frjáls verslun

Hörður Sigurgestsson maður ársins

í viðskiptalífinu

TÍMARITIÐ Frjáls verslun hefur útnefnt Hörð Sigurgestsson, forstjóra Eimskips, mann ársins 1998 í íslensku viðskiptalífi.

Hörður hlýtur tilnefninguna fyrir framúrskarandi árangur og farsælan feril í störfum sínum fyrir Eimskip. Félagið hefur skilað góðum hagnaði flest árin á starfstíma hans, að því er fram kemur í tilkynningu. Segir að markaðsvirði Eimskipafélagsins hafi hækkað úr rúmum 5 milljörðum í yfir 23 milljarða króna á tæpum fimm árum og að það sé verðmætasta félagið sem er skráð á Verðbréfaþingi.

Hörður sagði í samtali við Morgunblaðið að viðurkenning Frjálsrar verslunar væri viðurkenning á starfsemi Eimskips í heild, eðlilegt væri að deila henni með stjórnarmönnum félagsins og starfsliði öllu.

"Árangur fyrirtækisins hefur fyrst og fremst náðst með eftirfylgni og þýðingarmiklum störfum starfsfólks. Okkur þykir gaman að viðurkenningu þessari, hún gefur okkur tilefni til þess að velta fyrir okkur hvaða árangri við höfum náð og hvetur okkur jafnframt til frekari dáða. Áfram eru miklir möguleikar til að ná betri árangri, enda mikið líf í íslensku viðskiptaumhverfi. Á því hafa orðið miklar breytingar og eiga enn eftir að verða á næstu árum, þótt búast megi við einhverjum samdrætti á næsta ári."

Frjáls verslun útnefnir mann ársins í íslensku viðskiptalífi ellefta árið í röð. "Fram til þessa hefur það meginsjónarmið ráðið ferðinni í vali á manni ársins að líta frekar til frumkvöðla en atvinnustjórnenda. Núna hefur blaðið ákveðið að víkka skilgreininguna og horfa einnig til stjórnenda; þar með varð Hörður fyrir valinu. Þess má geta að Eimskip hóf á undan flestum öðrum félögum að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum ­ og styrkja þar með atvinnulífið. Líta má á þær fjárfestingar sem frumkvöðlastarfsemi í fjárfestingum."

Herði verður afhent viðurkenningin í móttöku sem tímaritið Frjáls verslun heldur honum til heiðurs 29. desember nk. á Hótel Sögu.

Morgunblaðið/Kristinn FRJÁLS verslun hefur útnefnt Hörð Sigurgestsson, forstjóra Eimskips, mann ársins 1998 í íslensku viðskiptalífi.