LOKAGENGI evrópskra hlutabréfa hækkaði í gær um leið og hækkanir urðu í Wall Street og hækkuðu helgísk og hollenzk bréf mest. Dalurinn stóð í stað á sama tíma og uggs gætti vegna útlitsins á verðbréfamörkuðum í Bandaríkjunum og Brasilíu og óvissa ríkti vegna Clintonmálsins.


Evrópsk hlutabréf hækka í verði

London. Reuters.

LOKAGENGI evrópskra hlutabréfa hækkaði í gær um leið og hækkanir urðu í Wall Street og hækkuðu helgísk og hollenzk bréf mest. Dalurinn stóð í stað á sama tíma og uggs gætti vegna útlitsins á verðbréfamörkuðum í Bandaríkjunum og Brasilíu og óvissa ríkti vegna Clintonmálsins. Litlar breytingar urðu á gengi evrópskra verðbréfa mestallan daginn, þar eð stórir evrópskir fjárfestar búa sig undir að mæta breytingum sem verða þegar ný evrópsk evra verður tekin upp 1. janúar. Lokagengi evrópskra hlutabréfavísitalna hækkaði um 0,5-0,9% vegna hækkana í Wall Street. Þegar viðskiptum lauk í London hafði Dow hækkað um 0,6%, aðallega vegna bjartsýni forstjóra General Electric á framtíð fyrirtækisins. Í London hækkaði FTSE 100 um 0,4% og hækkuðu bréf í farsímafyrirtækinu Vodafone mest, um 5,3%, vegna fyrirmæla eftirlitsyfirvalda um minni lækkun farsímagjalda en búizt hafði verið við. Í Frankfurt hækkuðu hlutabréf um 0,1% og í París um 0,3%, en í Belgíu hækkaði Bel-20 vísitalan um 2,1% Mest hækkuðu bréf í rafmagnsfyrirtækinu Electrabel, um 4,3%, vegna orðróms um sameiningu þess og móðurfyrirtæksins Tractebel. Hollenzka AEX vísitalan hækkaði um 1,7% og hækkuðu bréf í fjarskiptafyrirtækinu KPN um 5,1%. Microsoft hyggst leggja 200 milljónir dollara í bandaríska fjarskiptafyrirtækið Qwest, sem er aðalsamstarfsaðili KPN á alþjóðavettvangi.