INTIS hf., Internet á Íslandi, hefur sent Samkeppnisstofnun kæru, þar sem gerð er krafa um róttækar aðgerðir í málefnum Landssíma Íslands. "Næstu mánuðir munu skera úr um framtíð í fjarskiptum á Íslandi og til útlanda. Þess vegna fer Internet á Íslandi hf. (INTIS) fram á skjóta afgreiðslu Samkeppnisstofnunar á þessu erindi og að aðgerðir verði tímasettar markvisst.
INTIS sendir kæru í mörgum liðum til Samkeppnisstofnunar

Krafist róttækra aðgerða

í málefnum Landssímans

INTIS hf., Internet á Íslandi, hefur sent Samkeppnisstofnun kæru, þar sem gerð er krafa um róttækar aðgerðir í málefnum Landssíma Íslands. "Næstu mánuðir munu skera úr um framtíð í fjarskiptum á Íslandi og til útlanda. Þess vegna fer Internet á Íslandi hf. (INTIS) fram á skjóta afgreiðslu Samkeppnisstofnunar á þessu erindi og að aðgerðir verði tímasettar markvisst. INTIS mótmælir öllum undanþágum og fresti til að mæta kröfum laga og samninga um kostnaðargreiningu og aðgreiningu í rekstri LÍ," segir í inngangi kærunnar, sem send var Samkeppnisstofnun hinn 7. þessa mánaðar.

Í erindinu, sem undirritað er af Þórði Kristinssyni, stjórnarformanni INTIS, er rakið að óbreytt samkeppnisstaða á markaði hindri að Íslendingum nýtist þeir miklu möguleikar sem búa í Internet-þjónustu hérlendis.

Gerð er krafa um að Landssímanum verði gert að birta opinberlega stofn- og rekstrarkostnað við grunnsambönd í CANTAT-3 sæstrengnum til útlanda og grunnsambönd innanlands í þeim tilgangi að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins og tryggja að verðlagning sé í samræmi við kostnað, en fyrirtækið telur að sambönd þessi séu verðlögð langt yfir kostnaðarverði.

Fjárhagslegur aðskilnaður

Einnig er í erindinu vísað til fyrri ákvörðunar samkeppnisráðs um fjárhagslegan aðskilnað innan Landssímans og sagt að INTIS telji ástæðu til að kanna sérstaklega hvernig fjárhagslegum aðskilnaði hefur verið háttað milli internetþjónustu og annarrar starfsemi Landssímans.

"Internetþjónusta LÍ býður nú nýjum notendum heilu og hálfu árin ókeypis í dýrustu markaðsherferð sem um getur á þessu sviði og önnur fyrirtæki hafa enga burði til að keppa við. LÍ er augljóslega að sölsa undir sig eins stóran hlut og mögulegt er af þessum markaði af fullri hörku, beint og óbeint, án tillits til sérstöðu sinnar á markaðnum," segir í erindinu.

Þar er gerð krafa um fjárhagslegan aðskilnað milli internetþjónustu LÍ og allra annarra þátta í rekstri LÍ og að þess sé "gætt sérstaklega að rekstur internetþjónustu sé ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi LÍ."

Ennfremur er gerð krafa um að internetþjónustu Landssímans verði gert að "greiða þátttöku í yfirstjórn, fasteignum og annarri aðstöðu og stoðþjónustu eins og um óskyldan aðila væri að ræða. Jafnframt verði tryggt að stofnframlög LÍ til internetþjónustu sinnar í formi búnaðar, aðstöðu og annars verði færðar í efnahagsreikning internetþjónustu LÍ á markaðsverði."

Þá gerir INTIS kröfu um að birt verði reikningsskil um afkomu internetþjónustu LÍ frá upphafi og öll viðskipti milli internetþjónustu LÍ og annarra hluta LÍ verði verðlögð á markaðsverði sem öllum standi til boða.

Ennfremur kemur fram krafa um að Landssímanum verði meinað að beita áhrifum sínum innan fyrirtækja sem eru í viðskiptum við INTIS til að þau færi viðskipti sín til internetþjónustu LÍ.

Aðgangur án endabúnaðar

Þar er ennfremur farið fram á að gjaldskrá Landssímans miðist við að fyrirtækinu verði gert skylt að bjóða aðgang að leigulínum án þess að gerð séu skilyrði um tiltekinn endabúnað í eigu Landssímans. "Því er haldið fram að núverandi takmarkanir hindri eðlilega framþróun og vinni gegn hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta," segir í erindinu.

Loks krefst INTIS að Landssímanum verði gert að greiða skaðabætur til þeirra sem leigja línur af fyrirtækinu "vegna síendurtekinna rangra, ófullnægjandi og villandi upplýsinga sem fyrirtækið hefur látið fara frá sér í samtölum um væntanlegar verðbreytingar á leigulínum innanlands".