Íslensk kona meðal
framsæknustu
frumkvöðla Evrópu
ÞÓRA Guðmundsdóttir, sem stofnaði Flugfélagið Atlanta ásamt
manni sínum, Arngrími Jóhannssyni, hefur verið valin framsæknasti frumkvöðull meðal evrópskra kvenna af samtökunum Europe's 500. Atlanta er í 20. sæti lista samtakanna yfir 500 framsæknustu fyrirtæki Evrópu og efst íslenskra fyrirtækja.
Samtökin velja nú framsæknustu fyrirtæki Evrópu í þriðja sinn en iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið ásamt Samtökum iðnaðarins standa að gerð listans hérlendis. Í frétt frá þeim kemur fram að eitt íslenskt fyrirtæki, stoðtækjafyrirtækið Össur, komst á listann þegar hann var birtur í fyrsta sinn árið 1995. Nú er Össur í þriðja sinn á listanum eða eitt af rúmlega áttatíu fyrirtækjum sem nær þeim árangri.
Auk Össurar, Þóru og Arngríms eru sex aðrir íslenskir frumkvöðlar með fimm önnur íslensk fyrirtæki á listanum; Friðrik Sigurðsson með fyrirtækið Tölvumyndir, Helga Gísladóttir og Eiríkur Sigurðsson með 10-11 verslanirnar, Rúnar Sigurðsson með Tæknival, Einar Jónsson með Nóatún og Ásgeir Bolli Kristinsson með NTC sem rekur tískuvöruverslanirnar Sautján, Morgan, Deres og Smash.
Ör vöxtur íslensku fyrirtækjanna
Íslensk fyrirtæki á umræddum lista vaxa hraðar en önnur. "Heildarfjölgun starfa í íslensku fyrirtækjunum var að meðaltali 40% á ári á tímabilinu 19921997, samanborið við 22% fyrir öll fyrirtækin 500 á listanum. Íslensku fyrirtækin eru í efsta sæti hvað þetta varðar, en næst koma þau finnsku. Veltuaukning í íslensku fyrirtækjunum var einnig framúrskarandi, 37% að meðaltali á ári, samanborið við 24% fyrir öll fyrirtækin á listanum. Íslensku fyrirtækin eru einnig efst hvað þetta varðar en næst koma þau bresku," segir í fréttinni.
Valið lýtur ströngum skilyrðum um vöxt og tilurð hans, s.s. eignaraðild frumkvöðuls, sjálfstæði, veltuaukningu, arðsemi, stærð og aldur fyrirtækisins. "Telja má að það sé til vitnis um gróskumikið atvinnulíf og framsækna frumkvöðla í íslensku efnahagslífi að á listanum skulu vera svo mörg íslensk fyrirtæki. Á listann var valið úr hópi átján þúsund fyrirtækja sem voru svo aftur valin úr milljónum fyrirtækja í Evrópu," segir í fréttinni.