Patreks Jóhannessonar
Mjög þungt
kjaftshögg
PATREKUR Jóhannesson, landsliðsmaður í handknattleik, sem leikur með Essen í Þýskalandi, sleit
krossbönd í hné um helgina, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Hann verður frá keppni í sex til átta mánuði. Það er því ljóst að hann leikur ekki meira með liðinu á þessu keppnistímabili.
Hann dvelur nú á sjúkrahúsi í Essen og fór þar í aðgerð í gær. Að sögn Páls Þórólfssonar, félaga hans hjá Essen, sem heimsótti hann á sjúkrahúsið, voru meiðslin mun alvarlegri en talið var í fyrstu. "Það voru ekki bara krossböndin sem fóru, heldur sleit hann einnig liðband og liðþófa. Þetta er því mjög þungt kjaftshögg fyrir hann og eins fyrir liðið," sagði Páll.
Essen vann Nettelsted 23:22 á útivelli um helgina og gerði Patrekur sex mörk í leiknum þar sem hann varð fyrir óhappinu. Hann leikur ekki með landsliðinu í heimsbikarkeppninni í Svíþjóð í mars og eins er talið ólíklegt að hann verði orðinn leikhæfur í maí þegar Ísland leikur við Sviss og Kýpur í forkeppni Evrópumóts landsliða.
PATREKUR Jóhannesson, landsliðsmaður í handknattleik, verður frá keppni vegna meiðsla í sex til átta mánuði.