SINDRI Sindrason, stjórnarformaður Genís hf., segir það alrangt hjá Jakobi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Íslenskra hveraörvera, að Genís hafi hætt allri starfsemi með hveraörverur, en Jakob sagði á blaðamannafundi í gær að eina hveraörveruverkefnið sem Genís stæði fyrir væri að "vera leppur fyrir bandaríska fyrirtækið Diversa við að safna hér sýnum úr hverum og senda óunnin úr landi.
Sindri Sindrason stjórnarformaður Genís

Genís ekki horfið

af sviði hveraörverurannsókna

SINDRI Sindrason, stjórnarformaður Genís hf., segir það alrangt hjá Jakobi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Íslenskra hveraörvera, að Genís hafi hætt allri starfsemi með hveraörverur, en Jakob sagði á blaðamannafundi í gær að eina hveraörveruverkefnið sem Genís stæði fyrir væri að "vera leppur fyrir bandaríska fyrirtækið Diversa við að safna hér sýnum úr hverum og senda óunnin úr landi. Markmið ÍH er einmitt að hindra slíka starfsemi."

Fótunum kippt undan starfsemi Genís

Segir Sindri að Jakob hafi sjálfur komið þessu verkefni við Diversa á fót og því hafi lokið snemma á þessu ári. Það sé því ótrúlegt að verða vitni að því hvernig Jakob breyti um skoðun eftir hentugleikum og sér finnist það heldur ósmekklegt.

Sindri segir jafnframt að ef ÍH yrði veitt sérleyfi til hveraörverurannsókna yrði fótunum kippt undan starfsemi Genís á þessum vettvangi. "Við myndum ekki lengur hafa leyfi til að starfa á þessum vettvangi og við gætum ekki unnið að þeim verkefnum sem við höfum verið að vinna að og ætlum að vinna að," segir Sindri.

Hann tekur þó undir með Jakobi að starfsemi fyrirtækjanna skarist að mjög litlu leyti, en fyrirtækið þurfi engu að síður að hafa aðgang að þessum markaði. Segir hann að þótt Genís hafi breytt um áherslur undanfarin ár hafi fyrirtækið ekki horfið af sviði hveraörverurannsókna.

Fjárkúgun út í hött

"Genís hefur eingöngu farið fram á að starfa á þessu sviði áfram eins og við höfum gert hingað til. Við höfum aldrei haft neitt út á það að setja að Íslenskar hveraörverur fengu að starfa á þessu sviði, en við viljum auðvitað ekki að þeir komi og eigni sér þetta svið og útiloki okkur.

Aftur á móti kom til tals samstarf og þátttaka okkar í Íslenskum hveraörverum. ÍH fór fram á að við legðum fram öll okkar gögn, eins og stofnasöfn og stöðu á markaði, og í staðinn myndum við fá hlut í fyrirtækinu sem þeir myndu síðar ákveða hve stór hann yrði. Við vildum ekki sæta því að ákveðið yrði eftir á hver hlutur okkar yrði og vildum við að það yrði ákveðið fyrirfram, eða þá að við myndum starfa áfram sjálfstætt á þessu sviði. Þar við sat og þetta er sú fjárkúgun sem Jakob er að tala um," segir Sindri.

Sindri Sindrason