SUND
Eðlilegt framhald af
árangri Arnar á EM
"Árangur Arnar er frábær og sýnir
hvað er hægt að gera hafi menn kjark til þess að gera það sem þeir hugsa," segir Guðmundur Harðarson, fyrrverandi sundþjálfari og Íslandsmeistari í sundi. "Með þessum árangri sendir Örn jafnöldrum sínum þau skilaboð að allt sé hægt með ástundun og kjarki hafi menn til þess andlegan þroska. Örn hefur hann greinilega. Sigur Arnar verður vonandi til þess að hvetja aðra yngri sundmenn til dáða og um leið hleypa kjarki í sundforystuna í heild."
Guðmundur segir mótið í Sheffield vera sterkt og það sjáist best á því að á mótinu hafi verið sett sjö heimsmet og þrettán Evrópumet. "Aldrei hafa fleiri sterkir sundmenn keppt á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug og því var þetta mót mjög sterkt. Eftir að meiri peningar komu inn í sundíþróttina hefur vegur móta í 25 metra laug aukist mikið og keppni á þeim mótum mjög marktæk."
Guðmundur segir framfarir þær sem Örn hefur sýnt í 25 metra lauginni vera eðlilegt framhald af þeim árangri sem hann náði í 50 metra laug á Evrópumeistaramóti unglinga sl. sumar. "Þar framfarir sem hann náði þar eru að skila sér í styttri brautinni núna. Ef eitthvað er eru þessir tímar líklega litið eitt betri en tímarnir á EM séu þeir reiknaðir upp í 50 metra braut, miðað við að það munar 2,5 sekúndum á hverja eitt hundrað metra.
Örn á hins vegar eftir að fá enn meiri reynslu og styrkjast enn frekar líkamlega. Það kom e.t.v. best fram í úrslitasundinu í 100 m baksundinu að hann vantar enn meiri líkamlegan styrk. Þar vann Þjóðverji sem er mun sterkari líkamlega og vann á því. Til þess að ná enn meiri framförum þarf Örn að æfa meira, auka reynslu sína og taka út líkamlegan þroska. Mér líst vel á þjálfara hans, Brian Marshall. Hann er jarðbundinn, yfirvegaður og rólegur náungi og á mikinn þátt í árangri Arnar, enginn skyldi vanmeta hans hlut í þessum árangri."
»Hefur alltaf/C2