Í ÁLYKTUN fundar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem haldinn var 11. desember, þar sem annars vegar var fjallað um dóm Hæstaréttar í veiðileyfismáli Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu og hinsvegar um frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða,
FFSÍ vill að Alþingi

endurskoði lög um stjórn fiskveiða

Í ÁLYKTUN fundar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem haldinn var 11. desember, þar sem annars vegar var fjallað um dóm Hæstaréttar í veiðileyfismáli Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu og hinsvegar um frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða, skora samtökin á ríkisstjórn og Alþingi að endurskoða algjörlega að nýju lög um stjórn fiskveiða með það að leiðarljósi að tryggja sem mest frelsi til fiskveiða að því marki að tilveru fiskistofna verði ekki ógnað.

"Samtökin hafa margoft vakið máls á því að með einhliða rétti útgerða til veiðileyfis og aflakvóta væri gengið á atvinnurétt sjómanna og fólks í sjávarbyggðum um allt land sem atvinnu hefði af fiskvinnslu," segir í ályktuninni.

Fundurinn lýsir ennfremur yfir vanþóknun sinni á framkomnu frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Taki lagafrumvarpið ekki á þeim vanda sem blasi við í ljósi dóms Hæstaréttar um jafnan rétt þegnanna til atvinnu í sjávarútvegi, þar sem frumvarpið breyti í engu þeirri mismunun þegnanna til aflaheimilda, sem felst í lögum nr.38/1990 um stjórn fiskveiða.