ÞAÐ er mikið fagnaðarefni öllum læsum Íslendingum að Thor Vilhjálmsson skuli hafa sent frá sér nýja bók: Morgunþulu í stráum. Kynni okkar Thors ná svo langt aftur sem nokkur önd hefur hikst í mínu brjósti þannig að líf mitt hefur alltaf verið upplýst eða tvílýst af hans stóra anda og sterku nærveru.
Meistari
ThorSagan er fagur vitnisburður, segir Gísli Sigurðsson, um kynngi höfundar sem ruddi nútíma eftirstríðsáranna braut inn í íslenskar bókmenntir.
ÞAÐ er mikið fagnaðarefni öllum læsum Íslendingum að Thor Vilhjálmsson skuli hafa sent frá sér nýja bók: Morgunþulu í stráum. Kynni okkar Thors ná svo langt aftur sem nokkur önd hefur hikst í mínu brjósti þannig að líf mitt hefur alltaf verið upplýst eða tvílýst af hans stóra anda og sterku nærveru. Ég ólst upp í raðhúsi inni í Karfavogi þar sem hann skar sig úr hópi borgaralegra nágranna sem héldu til vinnu sinnar á morgnana og skildu okkur strákana í götunni eftir í fótbolta og tindátaleik án þess við sæjum fullorðinn karlmann allan daginn nema póstburðarmanninn og Thor. "Hvað gerir hann?" "Hann skrifar bækur." "Já, en vinnur hann ekki eitthvað?" var spurt. Einhvers staðar inni á milli heimuglegra bókastafla, undir skini furðumynda á vegg sat þessi eldmóðugi maður og lagði út net sín til að fanga hugsun og drauma nútímamannsins á fljúgandi ferð um heiminn allan og skila honum til okkar eftir aðgerð með sínum litskrúðuga, myndræna og tilfinningaheita stíl sem íslenskar bókmenntir hafa ekki séð annan slíkan.
Rannsakar mannshugann
Menn vissu ekki hvað þetta var. "Þetta er engin saga," var sagt. "Hvar byrjar þetta?" "Er enginn söguþráður?" "Fer ekki allt vel að lokum?" "Hvað verður um elskendurna?" "Ná þau saman í sælu hjónasængur?" Viðmið Íslendinga um hvað væru bókmenntir dugðu ekki til að nema þessi verk. Einn maður og myndir bruna hjá og inn í huga hans sjálfs, jafnt í svefni sem í vöku, sífelld rannsókn á manninum og hlutskipti hans á okkar öld, miðlað með sprengikrafti málsköpunar sem færði mörk hins mögulega í okkar bókmenntum langt út í óvissuna að berja á nátttröllum hinnar almæltu stöðnunar eins og Þór sjálfur þrumuguðinn, verndari menningarinnar, gerir jafnan í austurvegi þangað sem enginn hefur enn getað fylgt Thor á stílfluginu þó að hann hafi með öræfaferðum sínum um jötunheima styrkt varnir okkar, bægt háskanum frá um sinn og búið til andrými og numið víðáttur sem gera okkur hinum lífið bærilegra og ríkara.
Í skáldsögunum hefur Thor farið víða um lendur mannshugans, skoðað okkur í blíðu og stríðu og lýst því óræða, hraðanum, angistinni og einsemdinni. Þrátt fyrir alla mannmergðina hafa persónur hans farið um í örvæntingu og oft ekki náð sambandi við aðrar manneskjur nema í örskotsblossa ástarlostans. Um skeið var íslenska þjóðin eins og mannmergðin í þessum sögum, hún náði ekki sambandi við þær gjafir sem henni voru gefnar. Í kringum 1960 þýddi Thor dálítið af leikritum og á 9. áratugnum gerðist hann helsti miðill stórvirkja utan úr hinum víða heimi bókmenntanna, færði okkur til dæmis Hlutskipti manns eftir André Malraux, Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco og Hús andanna eftir Isabel Allende. Mitt í þessari stórskotahríð kom hann svo með Grámosann þar sem hann söng sig loks inn í hjörtu landsmanna. Enda höfðu eldri sögur hans þá skotið frjóöngum og búið jarðveginn undir að taka við hinu nýja stórvirki.
Af eldri bókum skar Folda sig úr í viðtökum. Þar kom Thor heim og skrifaði söguþætti, bæði klassískan svaðilfaraþátt um lífsháska í íslensku óveðri á heiði, og ferðaþætti um nútímalegri svaðilfarir meðaljónsins: Í verkalýðssendinefnd í austurveg og á sólarströnd. Í þessum þáttum sá þjóðin sig í hetjulegri fortíð og spéspegli nútíðar og gat notað sem lykil að sagnaheimi Thors til að feta sig utar á djúpmiðin. Sams konar lykil fundu menn í styttri ferðaþáttum hans og syrpuskrifum í tímaritinu Birtingi forðum tíð. Og þegar Grámosinn kom var eins og allir væru nú loksins tilbúnir. Kannski var það líka sú hugmynd að kanna sögulegan atburð, sögulega persónu og gera henni skil með aðferðum nútímaskáldsögu sem höfðaði til söguþjóðarinnar. Fornsöguþjóðarinnar.
Eys úr gnægtabrunni fornsagnanna
Og nú hefur hann endurtekið leikinn, kafað að uppsprettulindum vorrar tungu í fornsagnaarfinum og komið upp með persónu Sturlu Sighvatssonar, höfðingjann ættstóra og metnaðarfulla sem var blóðugur upp fyrir axlir í átökum Sturlungaaldar, manninn sem sá á eftir Tuma stóra bróður sínum undir öxi biskupsmanna á Hólum og elti menn Guðmundar góða biskups allt út í Grímsey til hefndar, þar sem æskuvinur hans Aron Hjörleifsson slapp naumlega, manninn sem náði Solveigu Sæmundsdóttur úr Odda áður en Snorri föðurbróðir hans Sturluson hafði ráðrúm til þess, manninn sem var niðurlægður ógurlega af ungum sveinum úr Vatnsfirði sem réðust á heimakonur á Sauðafelli þegar Sturla hafði brugðið sér af bæ eftir að hann sjálfur hafði staðið á bak við víg föður þeirra, manninn sem gekk suður til Róms að leita sér sáluhjálpar eftir óhæfuverk og grimmilegar hefndir, manninn sem féll loks með Sighvati föður sínum á Örlygsstöðum í ráðleysi fyrir ofurefli óvinaliðs. Þessi maður er þegar orðinn ódauðlegur í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar en þeir Sturlungar voru bræðrasynir.
Þennan mann rannsakar Thor í Morgunþulu í stráum og leiðir hann fram úr myrkri aldanna með uppsafnaðri kynngi orða sinna og yfirvegaðri snilld meistarans sem hefur náð svo algjöru taki á listforminu að hann getur lagt fyrir okkur að því er virðist með áreynslulausu flæði og meitlaðri djúphygli vandlega slípaða gimsteina í stuttum köflum sem lýsa upp andrána og hlutskipti manns í návígi við náttúru, dauða, Guð og aðrar manneskjur á þeirri öld sem þekkti ekki hraða nútímans og angur okkar tíma en lagðist engu að síður þungt á fólk, líf þess og limi.
Og færir okkur lifandi mann
Nálægðin er mikil í þessu verki, bæði milli okkar og persónanna en líka milli þeirra sjálfra. Það er ekki horft á mannlífið í gegnum gler heldur finnum við fyrir lífinu, hitanum, kuldanum, veðrinu, manneskjunum, hugmyndunum, og göngum inn í þann miðaldaheim sem Thor hefur smíðað okkur utan um Sturlu og þá veröld sem hann hrærðist í, bæði hinn holdlega og jarðneska þátt en líka hugmyndirnar sem voru á sveimi meðal trúfræðinga og menntamanna á hans dögum. Þetta er saga einstaklings sem mætir miklum örlögum og er jafnvel stundum eins og stefnulaust rekald sem öldur mannlífsins brotna á. Við lesum hægar lýsingar á óhaminni náttúru þar sem mennirnir feykjast til og frá, jafnt í ofviðri á sjó sem í hríðarbyl á heiðum uppi, við finnum lyktina og hina hægu framvindu ferðarinnar miklu sem Sturla tekst á hendur með suðurgöngu sinni, allt til Rómar þar sem hraðinn eykst í mannmergðinni og borgarmenningunni og saga Sturlu verður að sögu okkar og nútímans í verkum Thors sjálfs þar sem tilveran þyrlast í kringum persónurnar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Thor sendir persónu í skáldverki í langt ferðalag suður um Evrópu og til Rómar. Hér hefur allt þó annan róm, annan hraða, en við hljótum að hugsa um það í sömu andrá og ferðalög annarra persóna Thors um sömu slóðir. Og það er kannski í Róm, borginni eilífu, sem við tengjumst lífi og persónu Sturlu best. Þessi borg laðar fram nútímamanninn í honum, og um leið fornmanninn í okkur.
Thor lætur Sturlu hitta menntamenn og trúfræðinga álfunnar á viðkomustöðum hans og opnar þannig hugmyndaheim kirkjunnar sem má ætla að hafi verið á margra vitorði um þessar mundir. Sturla svelgir í sig fræði um Frans frá Assisi, krossferðirnar og Parísarskólann í heimspeki en segja má að almennir Íslendingar hafi miklu veraldlegri lífssýn og fornlegri hugmyndir um Sturlunga og þeirra veraldlegu samtímamenn, að þeir hafi fremur hrærst í dróttkvæðum, goðsögum og fornum fræðum um landnámsmenn og konunga en í nýjustu trúmálum sunnan úr álfu eins og Guðmundur góði sem tók upp hugmyndir betlimunka og gerði litla lukku hjá þeim sem studdu hann til embættis, þar á meðal ættmennum Sturlu. Með þessari áherslu á trúmálin blandar Thor sér í umræðu miðaldafræðinga um hugmyndaheim Íslendinga á miðöldum, leggur skáldverk sitt fram til fræðanna á sambærilegan hátt og Umberto Eco gerði með Nafni rósarinnar.
Meginhluti Sturlungu, Íslendinga saga, er skráð af Sturlu Þórðarsyni, ættingja þátttakenda í valdabaráttu og pólitík sturlungaaldar. Hann segir sögu samtíðar sinnar og lætur hana hnitast um helstu persónur og stóratburði sem honum þykir vera. Nú hefur Thor samið nútímasögu um forna atburði, skoðað og rannsakað þann hugarheim og aðstæður sem gætu hafa búið að baki því sem Sturla Þórðarson segir um frænda sinn Sturlu Sighvatsson í sögu sinni. Thor reynir að skilja hvað knýr Sturlu Sighvatsson áfram og af hverju hann bilar að lokum ef hann þá gerir það. Þetta er nútímasaga um persónu í fornri sögu þar sem Thor beitir sínu mikla innsæi til að nálgast mann úr annarri menningu og skilja lífsgrundvöll hans. Hann segir sögu einstaklings sem verður okkur nákominn og snertir okkur með svo beinum hætti að þekking á sjálfri Sturlungu verður óþarfur milliliður. Sturla var virkur þátttakandi í valdabaráttu aldar sinnar en í Morgunþulu í stráum hverfum við inn í huga hans og fylgjumst með angist og átökum í óblíðum heimi þar sem líf og dauði stóðu mönnum miklu nær en nú er tíðast. Sagan er fagur vitnisburður um kynngi og töfrabrögð þess meistara sem ruddi nútíma eftirstríðsáranna braut inn í íslenskar bókmenntir og hefur alla tíð síðan staðið í orrustunni miðri þar sem hríðin er hörðust.
Höfundur er íslenskufræðingur
Gísli Sigurðsson