VEIGAMESTI þáttur í verðmyndun áfengis er áfengisgjaldið, sem rennur í ríkissjóð. Innkaupsverð áfengra drykkja er frá 9% upp í 27% af söluverði. Annað rennur til ríkisins í mismunandi formi, segir Katrín Olga Jóhannesdóttir rekstrarhagfræðingur í grein í Frjálsri verzlun. Svört neyzla, brugg og smygl
»Ríkisskattar allt að 90% áfengisverðs

VEIGAMESTI þáttur í verðmyndun áfengis er áfengisgjaldið, sem rennur í ríkissjóð. Innkaupsverð áfengra drykkja er frá 9% upp í 27% af söluverði. Annað rennur til ríkisins í mismunandi formi, segir Katrín Olga Jóhannesdóttir rekstrarhagfræðingur í grein í Frjálsri verzlun.

Svört neyzla, brugg og smygl

KATRÍN Olga Jóhannesdóttir segir m.a. í Frjálsri verzlun:

"Hér [þ.e. með svartri neyzlu] er m.a. átt við þætti eins og smygl og heimabrugg. Hér á landi er lítið vitað um hversu stór hluti neyzlunnar er í þessu formi. Menn tala um að allt að 30-35% af neyzlunni geti fallið hér undir. Í könnun sem framkvæmd var af Gallup árið 1996, kom fram að um 24% aðspurðra neyttu heimabruggaðs áfengis. Þessi tala gæti nálgast magn þessarar neyzlu. Einnig er talað um að neyzla smyglaðs áfengis sé um 10%. Þetta eru tölur sem mjög erfitt er að staðfesta..."

Verðstýring

"LJÓST er að verð og aðgengi eru þau tæki sem notuð eru hér á landi til að hafa áhrif á neyzlu áfengis og hafa m.a. orsakað þá vínmenningu sem hér hefur verið ráðandi. Þá hefur sala áfengis skapað umtalsverðar tekjur fyrir ríkissjóð í gegnum árin, tekjur sem erfitt er að verða af. Sé horft til framtíðar þarf að færa þessa tvo þætti, verð og aðgengi, í átt til nútímans. Það er gert með því að auka aðgengi að áfengi, þannig að auðvelt sé fyrir landsmenn alla að nálgast þessa vöru um leið og aðra neyzluvöru."

Verðlækkun

"EINNIG þarf að lækka áfengisgjald til muna. Það mun leiða til þess að heimabruggun og smygl líði undir lok, ásamt því að markaðurinn stækki með því að ferðamenn geti keypt sér áfengi á viðráðanlegu verði. Þannig mun íslenzka ríkið ekki verða af tekjum og ætla mætti að betri vínmenning myndi skapst hér á landi við þessar breytingar.

Því er spurt: Hvenær munu stjórnendur þessa lands hafa kjark til þess að létta þeirri hafta- og fyrirhyggjustefnu sem ríkir í áfengismálum hér á landi?

Komum á heilbrigðari vínmenningu með auknu frjálsræði, lægra áfengisverði og upplýsandi forvarnarstarfi."