Fyrsti geisladiskur hljómsveitarinnar Lands og sona. Meðlimir sveitarinnar eru Hreimur Ö. Heimsson, Jón Guðfinnsson, Birgir Nielsen, Gunnar Þ. Eggertsson og Njáll Þórðarson. Geislaplatan var hljóðrituð í Grjótnámunni, Sýrlandi, Hljóðsetningu og September frá mars til október. Spor gefur út en Skífan dreifir.
Vatnsþynnt popp TÓNLIST Geisladiskur ALVEG EINS OG ÞÚ

Fyrsti geisladiskur hljómsveitarinnar Lands og sona. Meðlimir sveitarinnar eru Hreimur Ö. Heimsson, Jón Guðfinnsson, Birgir Nielsen, Gunnar Þ. Eggertsson og Njáll Þórðarson. Geislaplatan var hljóðrituð í Grjótnámunni, Sýrlandi, Hljóðsetningu og September frá mars til október. Spor gefur út en Skífan dreifir. ÍSLENSKAR poppsveitir hafa jafnan verið fáar hverju sinni, Land og synir er ein þeirra sveita sem herjar á landann af hvað mestum móð um þessar mundir. Geislaplatan Alveg eins og þú sem kom út fyrir nokkru er þeirra fyrsta breiðskífa. Lögin eru öll eftir liðsmenn sveitarinnar, en Hreimur Ö. Heimisson, söngvari hennar, er hvað iðnastur við að semja, bæði lög og texta. Tónlist Lands og sona er popp af hvað léttastri gerð, byggist upp á gítarstefjum, "riffum" og hljómborðsleik, lögin tólf eru öll frekar svipuð að gerð, í hæfilegri lengd til útvarpsspilunar og með grípandi inngangi. Það sem stingur strax í eyru við hlustun er að hvergi er vikið frá óskráðri formúlu að góðri ballsveit, það sem gleymist er að hljómsveitir, hvers kyns sem þær eru verða að hafa einhver sérkenni. Land og synir hafa fátt sem ekkert nýtt fram að færa og minna þegar best lætur á gamalt efni með Sálinni hans Jóns mín, metnaðarlaus sálar- og fönkgítarleikur hljómar auk orgelleiks Njáls Þórðarsonar líkt og slæm eftirlíking af áðurnefndri sveit. Hljóðfæraleikur er þó allur til fyrirmyndar, sveitarmeðlimir eru ekki í nokkrum vandræðum þegar kemur að tæknilegri hlið þess að vera í hljómsveit, hvergi örlar á hnökrum í hljóðfæraleik eða söng Hreims. Hins vegar er það ekki nóg þegar metnaðinn skortir, ekkert á Alveg eins og þú hefur ekki heyrst áður, hljóðfæraleikurinn flatur og geldur. Textasmíðarnar eru lítt skárri, dæmi skal tekið úr laginu Fullkomin, "Vandi minn er háður þér / Ef ekki þinn, er minn / Bæta skal, þá finn ég þig / Svo allt verði fullkomið" og úr laginu Birtir til, "Eitt annað sorgartár, eitt lítið niður vangann / Ég hugsa um að einhverntíman ég / Ég feta ekki langa leið í mínum draumaheimi / Því ég stend hjá þér, ég hverf þér aldrei frá". Erfitt er að ráða í yrkisefni Hreims auk þess sem prófarkalestri er ábótavant, skárra hefði verið að myndskreyta innsíður bæklingsins en að birta texta. Skástu hlutar plötunnar eru lögin Ástarfár og Vöðvastæltur, þar örlar á innlifun og hæfileikum eða a.m.k. eigin stíl sveitarinnar. Hin tíu lögin hafa því miður fátt sér til ágætis, Terlín, t.d. fyrsta lag plötunnar og Geimflaugin sýna ekkert sem ekki hefur verið gert áður af öðrum, betur. Hljóðfæraleikurinn á þó hrós skilið, sem og hljóðvinnsla, allur hljómur er í heildina ágætur fyrir utan að vera geldur á köflum, kannski er tónlistarmönnunum um að kenna. Umslag geisladisksins er hins vegar hugmyndasnautt og ankannalegt "logo" á framhlið er ljótt.

Land og synir geta kannski vakið upp góða stemningu á dansleikjum og er það vel, tónlist þeirra á hins vegar lítið erindi á geisladisk og óskandi er að sveitin taki sjálfa sig rækilega til endurskoðunar áður en hún hugar að næstu útgáfu. Tónistarunnendur hafa lítið að gera við endurunna tónlist, samsuðu íslensks popps undanfarinna ára, vatnsþynnt. Gísli Árnason