FYRIR nokkrum árum var Finnur Ingólfsson ungur maður og reiður í stjórnarandstöðu á Alþingi. Þá hafði hann stór orð um það að ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks væri að undirbúa að afhenda hinum gráðugu fjármálaöflum landsins ríkiseignirnar á silfurfati. Þá m.ö.o.
Þjóðin
græðir á sjálfri sérFramsóknarflokkurinn gengur nú erinda harðsvíruðustu frjálshyggju- og einkavæðingaraflanna í því, segir Steingrímur J. Sigfússon , að einkavæða og einkafjármagna opinberar framkvæmdir og rekstur.
FYRIR nokkrum árum var Finnur Ingólfsson ungur maður og reiður í stjórnarandstöðu á Alþingi. Þá hafði hann stór orð um það að ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks væri að undirbúa að afhenda hinum gráðugu fjármálaöflum landsins ríkiseignirnar á silfurfati. Þá m.ö.o. var Finnur Ingólfsson í stjórnarandstöðu, þá var hann á móti einkavæðingu og alveg sérstaklega ef sú einkavæðing þýddi að afhenda sameignir landsmanna einhverjum óverðskulduðum á silfurfati. Nú er öldin önnur. Nú er Finnur Ingólfsson, eins og reyndar fleiri framsóknarráðherrar, kolamokari á eimreið einkavæðingarinnar og nýfrjálshyggjunnar á Íslandi. Finnur Ingólfsson og þeir framsóknarmenn spiluðu út hugmyndum á sl. sumri um að selja ráðandi hlut í stærsta banka landsins til útlanda. Nú veður Finnur Ingólfsson einkavæðingarflórinn upp að hnjám og baksar við einkavæðingu ríkisbankanna og fjárfestingarbanka í eigu ríkisins. Hlýtur einn og einn frjálshyggjuhaukurinn í Sjálfstæðisflokknum að brosa með sjálfum sér og fagna því láni að þeir á höfuðbólinu skuli eiga svo duglegum vinnumönnum á að skipa á hjáleigunni.
Kennitölufárið
Nýjustu afrekin á þessu sviði hafa verið mjög til umræðu á síðustu sólarhringum og þ.á m. á Alþingi þar sem viðskiptaráðherra varð fyrir svörum hvað varðaði kennitölufárið. Við horfum upp á skrípaleik þessa dagana þegar fjármálastofnanir landsins, margar hverjar í opinberri eigu, fljúgast á um bréfin sem losna hver í annarri. Augljóst mál er að markmið um dreift eignarhald í fjármálastofnunum sem farið er út í að einkavæða á annað borð eru skotin niður strax í byrjun og jafnvel fyrirfram. Allt stefnir í að sá eignarhlutur ríkisins sem að nafninu til á að gefa almenningi kost á að fá í sínar hendur safnist með firnahraða saman á fáar hendur. Afleiðingin verður enn frekari samþjöppun fjármálalegs valds í landinu og þjóðin horfir upp á sameignir sínar afhentar á undirverði. Við í þingflokki óháðra höfum krafist þess að tafarlaust verði hætt við frekari einkavæðingaráform og útboð á nýju hlutafé í ríkisfyrirtækjum eins og Búnaðarbankanum stöðvuð.
Málsvörn viðskiptaráðherra
Í vandræðum sínum í umræðum á Alþingi á dögunum greip viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson til þess ráðs að tefla því fram að þjóðin væri þó altént að græða á því að selja kennitölurnar sínar. Lítum nánar á slíkar fullyrðingar. Jú, vissulega virðast einhverjir tugir þúsunda landsmanna ætla að taka þátt í kapphlaupinu og selja kennitölurnar sínar fyrr eða síðar og trúlega flestir fyrr. Samanber nýyrðið framvirkur eftirmarkaður sem einhverjir snillingar í verðbréfaheiminum hafa búið sér til yfir þetta fyrirbæri. Segjum svo að 75 þúsund manns selji nú kennitölurnar sínar og fái fyrir það einhver hundruð króna eða þess vegna þúsundkalla. En hvað með hin 200.000 sem ekki taka þátt í kapphlaupinu? Hver er þeirra gróði? Það sem blasir þá við er að hluti landsmanna, e.t.v. 25-30%, tekur þátt í vitleysunni og hefur hugsanlega út úr því einhvern þúsundkall en afgangur þjóðarinnar sem á bankann í dag horfir upp á eignir sínar seldar á undirverði. Og hugleiðum aðeins hvort þeir sem væru í mestri þörf fyrir svolítinn jólaglaðning þessa dagana séu hinir sömu og taka þátt í kapphlaupinu. Ætli það séu mjög margir öryrkjar, aldraðir eða hve mikið af lágtekjufólki, atvinnulausum og öðrum slíkum tekur þátt í þessu? Ætli menn fyrst og fremst að hugsa um hag þjóðarinnar og alls almennings í landinu ætti að horfa á það að fá sem mest fyrir eignir þess sama almennings en ekki skýla sér á bak við málamyndaröksemdir af þessu tagi.
Munchhausen togaði sig upp úr á hárinu forðum daga í sögunni góðu. Hugmyndir Finns Ingólfssonar um það hvernig þjóðin eigi að græða á sjálfri sér eru af heimi Munchhausens.
Einkaframkvæmd heilbrigðisráðherrans
Það er víðar en í viðskiptaráðuneytinu sem Framsókn er að einkavæða þessa dagana. Í Morgunblaðinu sl. sunnudag birtist afar athyglisverð auglýsing. Þar auglýstu Ríkiskaup fyrir hönd heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins eftir tilboði í að reisa í einkaframkvæmd hjúkrunarheimili í Reykjavík. Það þýðir m.ö.o. að leitað er eftir tilboðum frá einkaaðilum um að fjármagna, byggja og reka gegn árlegum greiðslum frá ríkinu hjúkrunarheimili í 25 ár, 60 stk. gamalmenni boðin upp. Hér er haldið út á thatcherískar einkavæðingarbrautir sem reyndar hafa verið með hörmulegum árangri og afleiðingum í Bretlandi og reyndar Svíþjóð og víðar. Niðurstaðan hefur alls staðar orðið sú að slík framkvæmd er þegar upp er staðið dýrari, einkaaðilarnir þurfa eitthvað fyrir sinn snúð. Þeir draga sér arð út úr verkefninu, þeir þurfa oftast að taka fé að láni á lakari kjörum en opinberum aðilum standa til boða. Síðast en ekki síst er í aðferðinni fólgin sú viðvarandi hætta að einkaaðilinn reyni að ná endum saman eða auka hagnað sinn með því að skerða þjónustuna. Til marks um þetta eru grátleg dæmi frá einkareknum hjúkrunarheimilum bæði í Bretlandi og Svíþjóð þar sem svo langt hefur gengið að vikum saman var ekki skipt á rúmum hjá fólki, það komst ekki í bað o.s.frv.
Einkafjármögnunaraðferðin hefur einnig reynst mjög illa vegna þess að hún bindur hendur hins opinbera, hvað allar breytingar varðar, áratugi fram í tímann. Það gera hinir löngu samningar. Fagleg stefnumótun og breyttar áherslur ná því ekki fram að ganga því ríki eða sveitarfélög eru bundin á klafa langtímasamninga við einkaaðila, sem ekki ljá máls á neinum breytingum nema fyrir borgun.
Miðjan færð til hægri
Framsóknarflokkurinn auglýsir þessar vikurnar kjörorðið vertu með á miðjunni. Mér virðist ljóst af þeim dæmum sem hér hafa verið rakin, og mætti tína mörg fleiri til, að þessa svokölluðu miðju íslenskra stjórnmála er Framsóknarflokkurinn að reyna að færa í risaskrefum til hægri. Framsóknarflokkurinn gengur nú erinda harðsvíruðustu frjálshyggju- og einkavæðingaraflanna í því að einkavæða og einkafjármagna opinberar framkvæmdir og rekstur, jafnvel viðkvæma þætti velferðarþjónustunnar eins og dæmið um útboð á hjúkrunarheimili í Reykjavík sannar. Framsóknarflokkurinn hefur opnað gáttir hvað varðar mögulega umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu og er hér fátt eitt talið. Ef þetta er miðja í íslenskum stjórnmálum, er þá nokkuð með hægri flokk að gera?
Höfundur er alþingismaður í Norðurlandskjördæmi eystra og liðsmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Steingrímur J. Sigfússon