UM næstkomandi áramót taka gildi reglur um landamæraeftirlit hér á landi fyrir Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ísland mun samkvæmt reglunum taka að sér að annast heilbrigðisskoðun á öllu fiskmeti sem hingað til lands berst frá ríkjum utan EES.
Landamæraeftirlit EES

hefst um næstu áramót

Ágreiningur ríkir um

meðferð "Rússafisks"

UM næstkomandi áramót taka gildi reglur um landamæraeftirlit hér á landi fyrir Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ísland mun samkvæmt reglunum taka að sér að annast heilbrigðisskoðun á öllu fiskmeti sem hingað til lands berst frá ríkjum utan EES.

Um er að ræða heilbrigðiseftirlit með innfluttum sjávarafurðum frá svokölluðum þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum utan EES, hvort heldur sem er sjávarafurðir til neyslu hérlendis, hráefni til vinnslustöðva eða sjávarafurðir sem hér koma á land á leið til annarra EES-ríkja. Þetta þýðir m.a. að frá nk. áramótum má ekki flytja inn fisk eða sjávarafurðir nema frá löndum sem Evrópusambandið (ESB) hefur samþykkt og þá einungis frá framleiðendum, vinnslustöðvum eða vinnsluskipum sem sambandið hefur samþykkt.

Meðal þriðju ríkja teljast til dæmis Bandaríkin, Kanada og Rússland. Færeyjar og Grænland tilheyra einnig þriðju ríkjunum í þessu sambandi.

6 landamærastöðvar til að byrja með

Innflutningur verður einungis heimill þar sem Fiskistofa starfrækir landamærastöðvar. Nú er verið að undirbúa landamærastöðvar á 6 höfnum á landinu. Þær eru í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavíkurflugvelli, Eskifirði, Akureyri og Ísafirði. Össur Kristinsson hjá Fiskistofu segir ekki útilokað að stöðvunum verði fjölgað þegar fram líði stundir. "Það veltur meðal annars á því hvort landanir á svonefndum rússafiski þurfi að takmarka við staði þar sem starfræktar eru landamærastöðvar. Um það atriði er ágreiningur, jafnvel innan ESB. Íslenskir embættismenn styðja þá túlkun á reglum ESB að afla fiskiskipa sem aðeins er slægður, hausaður og frystur um borð, eins og rússafiskurinn, eigi að skoða sem hráefni eins og afla ísfiskskipa. Því eigi að vera heimilt að landa honum á höfnum sem ekki hafa landamærastöðvar. Rússnesku heilfrystiskipin teljist ekki vera vinnsluskip og því sé ekki hægt að gera þá kröfu að þau séu viðurkennd af ESB og sett á lista með fiskvinnslu og vinnsluskipum. Embættismenn ESB og ESA, eftirlitsstofnun EFTA, halda öðru fram og hefur þetta mál ekki verið endanlega útkljáð," segir Össur.