FLESTIR, ef ekki allir þeir, sem hugleitt hafa fiskveiðistjórn á Íslandi í alvöru í anda þeirra sjónarmiða um jafnræði og atvinnufrelsi, sem Hæstiréttur gerði að höfuðatriðum í nýgengnum dómi sínum um þessi mál, hafa komist að þeirri niðurstöðu, að útboð í þeim anda, sem lýst er fyrr í þessum skrifum, sé eina viðunandi lausnin.
Hvað á að
koma í staðinn?
Hvernig verður með lágmarksfórnum komist héðan og þangað, segir Jón Sigurðsson í fjórðu grein sinni af fimm, til hins fyrirheitna lands sanngirni og réttlætis í þessum efnum? FLESTIR, ef ekki allir þeir, sem hugleitt hafa fiskveiðistjórn á Íslandi í alvöru í anda þeirra sjónarmiða um jafnræði og atvinnufrelsi, sem Hæstiréttur gerði að höfuðatriðum í nýgengnum dómi sínum um þessi mál, hafa komist að þeirri niðurstöðu, að útboð í þeim anda, sem lýst er fyrr í þessum skrifum, sé eina viðunandi lausnin. Sú er tillagan, sem gerð er fyrr í þessum skrifum og við hana er miðað í framhaldinu. En leiðin út úr núgildandi ruglumhverfi er ekki auðfundin og enn hefur hún verið flækt með mjög afdráttarlausum dómi Hæstaréttar, sem ýmsir menn hafa reynt að gera lítið úr með vafasamri lögfræðilegri þrætubókarlist í því hefðbundna skjóli, að rétturinn getur ekki svarað fyrir sig. Stóra spurningin, sem fyrir liggur er, hvernig verður með lágmarksfórnum komist héðan og þangað, til hins fyrirheitna lands sanngirni og réttlætis í þessum efnum? Niðurstaða þessa höfundar er, að það verði einungis gert með því að koma útgerðinni um hríð, í tvö eða þrjú ár, eins nálægt og kostur er þeirri stöðu, sem útgerðin var í síðustu árin áður en þetta gildandi fiskveiðistjórnarkerfi var tekið upp. M.ö.o. að komast eins nálægt frjálsum veiðum og við treystum okkur til við ríkjandi aðstæður. Gerð er tillaga um tvö ár, kannski þrjú, þar sem veiðar væru í grundvallaratriðum frjálsar, en með ýmsum takmörkunum. Gert væri ráð fyrir, að veiðar bátaflotans, eins og hann væri nánar skilgreindur, væru frjálsar þessi tvö eða þrjú ár með handfæri og línu. Veiði bátaflotans með net og dragnót yrðu sömuleiðis frjálsar á grunnslóð á öðrum svæðum en þeim, sem ástæða þætti að loka af fiskverndarástæðum eða vegna hefðbundinna línu- og handfæraslóða. Togskip ættu sömuleiðis frjálsar veiðar en utan 30 sjómílna frá grunnlínum, nema að því er tæki til vasa innan þeirra marka, þar sem vera mun þeirra hefðbundin ufsa- og ýsuslóð. Með veiðunum yrði að sjálfsögðu vandlega fylgst og þegar þorskveiði hefði náð 400 þúsund tonna markinu, yrðu allar veiðar með togskipum, dragnót og netum stöðvaðar, en veiðar með línu og handfæri fengju að halda áfram til loka fiskveiðiársins. Með þessu væri að sönnu nokkur áhætta tekin, bæði að því er varðar þorskinn og aðrar tegundir nytjafiska. Sá fórnarkostnaður teldist hins vegar innan áhættumarka og færandi fyrir nýtt og sanngjarnara fiskveiðistjórnarkerfi og sömuleiðis fyrir betri upplýsingar fyrir sjávarlíffræðinga um raunverulegan afla við eðlilega sókn. Eins og vel er kunnugt, hefur mikið af sókn íslenska veiðiflotans undangengin ár miðast við að forðast þorskveiðar eins og frekast hefur verið kostur til að freista þess að nýta heildarfiskveiðiheimildir betur. Höfuðatriði þessarar tillögu er, að útgerðir ættu ekki að óska eftir neinu frekar en geta í aðalatriðum sótt eftir fiski að vild sinni á umþóttunartímanum. Þyrftu þær að stöðva veiðar í ótíma, væri það vegna þess hversu mikið þær hefðu veitt og stöðvun veiða af þeim sökum ætti þess vegna ekki að vera þeim mjög þungbær. Útgerðum er heldur ekki ætlandi að stunda neinar óðagotsveiðar, því að það mundi óðara stórlækka markaðsverð á fiski. Lokagrein þessa greinaflokks mun fjalla um stöðu hinna ýmsu aðila í útgerð á umþóttunartímanum og við upptöku hins almenna útboðs veiðiréttar. Tekið saman að beiðni Frjálslynda flokksins.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Jón Sigurðsson