15 mánaða fangelsi
fyrir peningastuld
HÆSTIRÉTTUR staðfesti á
fimmtudag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um fimmtán mánaða óskilorðsbundið fangelsi yfir tollverði sem stal í nóvember 1996 peningasendingu er innihélt 52.000 sterlingspund. Þá var einnig staðfestur dómur um 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi eiginkonu hans fyrir hylmingu.
Peningarnir voru frá A/S Jyske Bank í Danmörku á leið til Landsbanka Íslands. Hurfu þeir í póstmiðstöðinni að Ármúla 25 í Reykjavík. Við rannsókn lögreglu kom fram að öryggisreglur við peningaflutninginn voru mjög fábrotnar og fjöldi manns kom til greina sem hefði getað náð sér í umslagið.
Kvaðst hafa fundið féð í hraungjótu
Komst rannsókn málsins ekki á skrið fyrr en í febrúar 1997 þegar kona hafði samband við lögreglu vegna undarlegrar sögu kunningjakonu sinnar af fundi sterlingspunda í sumarbústað. Leiddi athugun lögreglunnar til þess að böndin bárust að ákærða þar sem hann reyndist hafa mikið magn af pundum í fórum sínum. Vann hann sem tollvörður og hafði verið staddur í póstmiðstöðinni Ármúla 25 umræddan dag. Ákærði játaði stuldinn fyrir lögreglu en dró síðar þá játningu til baka. Fyrir dómi neitaði ákærði sakargiftum og kvaðst hafa fundið féð í hraungjótu. Þótti ekki mark á þeirri frásögn takandi og var dómur héraðsdóms staðfestur.
Vinkona þeirra hjóna, fyrrverandi bankastarfsmaður, sem aðstoðaði við að skipta hluta fjárins í íslenskar krónur, áfrýjaði ekki héraðsdómi þar sem hún hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Málið fluttu Bogi Nilsson ríkissaksóknari af hálfu ákæruvaldsins og Brynjar Níelsson hrl. fyrir hönd dæmdu.