RÁÐHERRAR, útgerðarmenn og bankastjóri Landsbankans tala í kór um að Hæstiréttur hafi skapað réttaróvissu með dómi sínum í Valdimarsmálinu. Hvernig í ósköpunum má það vera? Setti Hæstiréttur lög? Nei hann dæmdi eftir lögum. Alþingi setti lögin og þetta voru vond lög, þau stóðust ekki stjórnarskrárpróf. Alþingi skapaði réttaróvissuna 1984, ekki Hæstiréttur 1998. Húrra fyrir Valdimari.
Kvótaþegar og
bótaþegarAflahlutdeildin er fæðingarréttur allra Íslendinga, segir Stefán Benediktsson , en ekki bara þeirra sem fæddust inn í kvótafjölskyldu.
RÁÐHERRAR, útgerðarmenn og bankastjóri Landsbankans tala í kór um að Hæstiréttur hafi skapað réttaróvissu með dómi sínum í Valdimarsmálinu. Hvernig í ósköpunum má það vera? Setti Hæstiréttur lög? Nei hann dæmdi eftir lögum. Alþingi setti lögin og þetta voru vond lög, þau stóðust ekki stjórnarskrárpróf. Alþingi skapaði réttaróvissuna 1984, ekki Hæstiréttur 1998.
Húrra fyrir Valdimari. Það þarf áræði og þor til að ákæra stjórnvöld fyrir vond lög, jafnt á Íslandi sem annars staðar. Ætla mætti að menn sem leggja á sig slíkt erfiði og lyfta Grettistökum í undirstöður mannréttinda á Íslandi væru þjóðhetjur. Öðru nær. Hvort sem menn heita Jón, Þorgeir eða Valdimar er það ekki til vinsælda fallið að flengja stjórnvöld með lögum, síst af öllu stjórnarskránni. Það er áræði Valdimars í kvótamálinu að þakka, að við stöndum í dag með einn merkilegasta dóm Hæstaréttar í höndunum. Hæstiréttur dæmdi einstaklingi í hag og ríkisvaldi í óhag, á grundvelli stjórnarskrárvarins réttar einstaklingsins. Húrra fyrir Hæstarétti. Þessi dómur er hressandi gróðrarskúr og vekur almennan áhuga á umræðu um réttlæti.
Spurningar vakna eins og um skerðingu réttindabóta öryrkja og fatlaðra. Umfjöllun um réttarbætur færist á annað plan þegar stjórnarskráin er loksins komin á dagskrá. Hvernig ríkisstjórn lætur þá hneisu spyrjast um sig, að það séu sértæk mannréttindi öryrkja á Íslandi að vera öreigar? Er það virkilega rétt að þola þann órétt?
Fimmta greinin
Ríkisstjórnin vill gjarna, að það mál sem nú ber hæst snúist bara um "fimmtu greinina", og trúlega tekst henni að telja þingheim á það. En það er bara stundarfró. Misréttið er leiðrétt að hluta en verður um leið enn augljósara en áður.
Ef niðurstaða ríkisstjórnar er sú að Valdimar má kaupa skip en verður að kaupa kvóta til að mega veiða þorsk, t.d. af einhverjum ráðherra sem á kvóta en ekki klofstígvél, þá eru ráðherrarnir ekki að gera rétt heldur verður enn augljósara en áður að þeir vilja viðhalda órétti. Varanlegar aflaheimildir eru ekkert annað en afkomutryggingar án iðgjalda, öðru nafni tryggingabætur. Ríkisstjórn okkar virðist þeirrar skoðunar að bótaréttur fámenns hóps útgerðarmanna sé öllum öðrum bótarétti æðri og megi ekki skerða með nokkru móti. Fræðilega er þetta svo fáránlega marxískt í fjölbreyttri merkingu að maður fer að hlæja.
Lögin um stjórnun fiskveiða snúast fyrst og fremst um að vernda auðlindina í sjónum, yfirlýsta eign allra landsmanna, og hámarka hagnýtingu hennar með takmörkun afla.
Lög um stjórnun fiskveiða snúast ekki um brýna þjóðhagslega nauðsyn þess að gefa nokkrum útvöldum Íslendingum hlut í afla. Lögin snúast ekki um þjóðhagslega nauðsyn þess að búa til aðalstétt og aukastétt. Þetta eru ekki lög um mismunun. Það er bannað segir Hæstiréttur. Lögin snúast um þjóðhagslega nauðsyn takmörkunar heildarafla. Heildaraflinn er sú hagstærð sem stjórnvöld ákveða.
Hvað stjórnvöld gera síðan ræðst af því hvað þau telja réttlæti. Í einn og hálfan áratug hafa stjórnvöld mulið undir örfáa með mjög sértækum afkomutryggingum án iðgjalds eins og áður sagði. Þau segjast gera það vegna þjóðarhags.
Það er sjálfsagt rétt. Það dregur trúlega ekki úr þjóðarhag að nokkrir einstaklingar og jafnvel ráðherrar hafi einkarétt á "mið"lægum aflagrunni, en samt þarf að skerða örorkubætur.
Kvótasala
Hvað er það sem hvetur til hagræðingar í núverandi fiskveiðistjórnun? Það er ekki takmörkun heildarafla. Sömu menn stjórna útgerð núna og fyrir tuttugu árum. Þá var löngu ljóst að fiskarnir í sjónum voru takmörkuð auðlind og samt var útgerðin alltaf á hausnum. Það er ekki aflahlutdeildin því þá væru menn ekki að selja hana frá sér. Það eina sem hefur jákvæð hagstjórnaráhrif í núverandi fiskveiðistjórnun er kvótasala.
Verslun með kvóta greinir þá sem geta gert út frá þeim sem ekki geta gert út. Það "besta" við kerfið er að þeir sem ekki geta, vilja eða nenna að gera út græða meira en þeir sem geta, vilja og nenna. Óréttlætið er, að það er fámennur hópur sem má selja kvóta og hann fær söluvarninginn gefins og sá sami hópur hefur einkarétt á að kaupa kvóta. Hvers vegna ekki að gera þetta þannig að sem flestir geti orðið sáttir? Tryggja verður Íslendingum öllum, ótvíræðum eigendum auðlindarinnar, sanngjarna hlutdeild í afrakstri hennar. Sanngjörn hlutdeild fæst ekki nema í frjálsum viðskiptum.
Frjáls kvótaviðskipti ákveða verðmæti auðlindarinnar og viðskiptin eiga með réttu að byrja hjá hinum löglega yfirlýstu eigendum. Það er einfalt mál að senda öllum Íslendingum, ungum sem öldnum, samkvæmt manntali 1. september næstkomandi og síðan árlega, tilkynningu um hlut sinn í heildarafla. Hlutdeild sem ekki erfist. Íbúafjöldi ákvarðar hlut hvers landsmanns.
Viðskiptabankar eða verðbréfafyrirtæki miðla hlutabréfum umbjóðenda sinna. Umboðin auglýsa það magn, sem þeir hafa umboð fyrir, taka við tilboðum og þannig skapast einingaverð kvóta. Að loknu fyrsta útboði skapast eftirmarkaður rétt eins og í dag.
Aflahlutdeildin er fæðingarréttur allra Íslendinga en ekki bara þeirra sem fæddust inn í kvótafjölskyldu.
Ef menn meina það sem þeir segja um holl áhrif frjálsrar verðmyndunar á hagkvæmni rekstrar og ef menn meina það sem þeir segja um þjóðhagslega nauðsyn þess að hagkvæmni ráði hverjir róa, þá ættu verðmyndunaráhrif þessarar verslunar að vera besta tæki sem völ er á í dag til að tryggja mestu hagkvæmni rekstrar.
Eðlileg athugasemd við þetta fyrirkomulag er að það er þægilegra fyrir útgerðina og bankana að gera út á varanlegar veiðiheimildir, afkomutryggingar. Auðvitað er það rétt en hvað kemur þá næst, úthlutun varanlegra sjúklingahópa fyrir lækna, varanlegra viðskiptavina fyrir Bónus eða úthlutun varanlegra kjósenda fyrir þingmenn?
Opinber gjafaúthlutun varanlegs afkomugrundvallar eru forréttindi sem ekki einu sinni öryrkjum standa til boða, að minnsta kosti ekki í dag. Varla vilja útgerðarmenn forréttindi fram yfir öryrkja.
Að lokum í framhjáhlaupi. Kostur þess að viðurkenna eignarrétt landsmanna á auðlindinni með þessum hætti er að ef einhver dytti nú á það heillaráð að ganga í Evrópusambandið, þá væru hendur stjórnvalda bundnar í ráðstöfun sjávarfangs. Evrópusambandið yrði að eiga stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum undir Íslendingum hverjum og einum.
Höfundur er þjóðgarðsvörður.
Stefán Benediktsson