Breytingar á skattalegri meðferð aflaheimilda og meðferð félagsforma Torvelda samruna einkarekinna útgerða Hagnaður af sölu aflahlutdeildar er ekki lengur fyrnanlegur nema keyptar séu aflaheimildir á móti samkvæmt breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt sem gerðar voru undir lok síðasta árs.
Breytingar á skattalegri meðferð aflaheimilda og meðferð félagsforma
Torvelda samrunaeinkarekinna útgerða
Hagnaður af sölu aflahlutdeildar er ekki lengur fyrnanlegur nema keyptar séu aflaheimildir á móti samkvæmt breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt sem gerðar voru undir lok síðasta árs. Breytingarnar hafa hinsvegar ekki leitt til lækkunar á verði aflaheimilda eins og búist hafði verið við. Þá hafa einnig verið gerðar breytingar á meðferð félagsforma sem torvelda breytingu einkarekstrar í hlutafélagsform að mati formanns LÍÚ. Helgi Mar Árnason kynnti sér skattalega meðferð aflaheimilda.
SAMKVÆMT breytingum sem gerðar voru á lögum um tekju- og eignaskatt undir lok síðasta árs er söluhagnaður af aflaheimildum nú skattskyldur og ekki heimilt að ráðstafa honum til kaupa á öðrum eignum nema keyptar séu aflaheimildir á móti. Þetta hefur haft áhrif á söluhagnað þeirra sem vilja fara út úr greininni.
Útgerðum hefur fyrir lagabreytinguna verið heimilt að færa keypta aflahlutdeild til gjalda eins og um fyrnanlega eign væri að ræða, samkvæmt lögum um tekju- og eignaskatt. Hefur verið litið svo á að gjaldfærsla stofnkostnaðar vegna kaupa á aflaheimild væri heimil en ágreiningur hefur verið um á hve löngum tíma væri heimilt að dreifa gjaldfærslunni. Hefur það m.a. komið til kasta dómstóla sem litu svo á að ekki væri í lögunum að finna ákvæði sem kveða berum orðum á um skattalega meðferð veiðiheimilda. Komst Hæstiréttur þannig að þeirri niðurstöðu að kvóta skyldi eignfæra og afskrifa á fimm árum.
Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar hefur verið ágreiningur um niðurstöðuna og bent á þá meginreglu skattalaga að til rekstrarkostnaðar skuli aðeins telja þann kostnað sem lagt er í vegna viðkomandi atvinnustarfsemi. Samkvæmt þeirri reglu skal aðeins gjaldfæra stofnkostnað eigna í samræmi við þá verðmætarýrnun sem hlýst af notkun þeirra við framleiðslu. Í þessu samhengi hafa menn þannig bent á að verðmæti aflahlutdeilda rýrni ekki við notkun, heldur þvert á móti aukist verðmæti þeirra. Aðrir hafa hinsvegar talið að óvissa um varanleika fiskveiðistjórnunarkerfisins réttlæti afskrift keyptrar aflahlutdeildar. Óvissa í þessum efnum komi væntanlega fram í verði aflahlutdeildanna.
Fjármálaráðherra skipaði nefnd í upphafi árs 1997 til að fjalla um skattalega meðferð keyptra aflaheimilda og voru breytingar á lögum um tekju- og eignaskatt samþykktar á Alþingi í lok ársins að fengnum tillögum frá nefndinni. Lögin eiga aðeins við um kaup og sölu á varanlegum aflaheimildum eða aflahlutdeild. Þau kveða nú á um að keypt aflahlutdeild sé ekki frádráttarbær frá rekstrartekjum og fara eigi með hana að mestu leyti eins og ófyrnanlegar eignir, s.s. lönd og lóðir. Þá er hagnaður af sölu aflahlutdeildar skattskyldur nema um sé að ræða skipti á aflaheimildum eða breytingu á samsetningu þeirra.
Ekki má afskrifa kvóta
Aðili sem þannig kaupir varanlegan kvóta getur samvæmt lagabreytingunum ekki afskrifað kaupin líkt og ef hann kaupir skip eða húsnæði og því ekki gjaldfært heimildirnar á rekstrarreikningi. Kvótinn verður þessum aðila því dýrari sem tekjuskattinum nemur. Ef hinsvegar væri um skip að ræða en ekki kvóta, er hægt að afskrifa skipið á ákveðnum líftíma og þannig næst fram gjaldfærsla. Ekki er heimilt að gjaldfæra á móti kvótakaupunum og því þarf á hverju ári að borga meiri skatt og skatturinn leggst því í raun ofan á hið upprunalega kvótaverð.
Á sama hátt getur sá sem selur varanlegan kvóta sem hann hefur fengið úthlutað ekki keypt aðra rekstrarfjármuni til að afskrifa á móti söluhagnaði. Viðkomandi getur hinsvegar afskrifað söluhagnaðinn á móti kaupum í öðrum fiskveiðiheimildum.
Þorvarður Gunnarsson, formaður félags löggiltra endurskoðenda, segir að í fyrstu hefðu menn ætlað að verð á varanlegum aflaheimildum myndi lækka við þessar skattalegu breytingar. Sú hafi hinsvegar ekki orðið raunin. "Ég tel að það kunni að stafa af því að það er spenna á markaðnum og menn eru tilbúnir að kaupa aflaheimildir án tillits til þessara skattalegu afleiðinga," segir Þorvarður.
Meðferð félagsforma með ólíkum hætti
Samkvæmt nýlegum vinnureglum ríkisskattstjóra er einnig óheimilt að breyta einkarekstri í hlutafélag án þess að eignir séu færðar á markaðsvirði. Ef útgerðarmaður, sem er þannig með skip og aflaheimildir á sinni eigin kennitölu, vill breyta rekstrinum í hlutafélagsform, verður að meta markaðsvirði eignanna og verður útgerðarmaðurinn að greiða skatt af mismun bókfærðs verðs og markaðsverðs í einkarekstrinum. Ef útgerðarmaðurinn hefði hinsvegar verið í sameignarfélagsrekstri gæti hann breytt rekstrinum í hlutafélagsform án þess að það hefði skattalegar afleiðingar fyrir hann.
Þorvarður segir að hann telji að hér sé um mismunun á milli félagsforma að ræða. "Við höfum bent á að ef menn geta ekki fært sinn rekstur yfir í hlutafélagsform á einfaldan hátt geti það skapað ákveðin vandamál. Það er hinsvegar mun auðveldara fyrir aðila sem rekur sína útgerð í einkahlutafélagi að breyta rekstrarforminu, til dæmis að sameinast öðrum. Þá fær hann hlutabréf í staðinn en söluhagnaður er ekki skattlagður fyrr en hann selur hlutabréfin. Ef útgerðarmaður í einkarekstri sameinast annarri útgerð verður að meta hans hluta á markaðsvirði og hann þarf þá að greiða skattinn strax, jafnvel þó hann eigi hlutabréfin áfram og sé þannig áfram aðili að rekstrinum."
Þorvarður segir að þannig sé útgerðarmönnum sem vilji hætta rekstri gert erfiðara fyrir og um leið verði því erfiðara fyrir næstu kynslóð að komast inn í greinina. Algengara er að smærri rekstur sé í einkarekstri.
Hindrar hagræði
Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, fagnar því að skilmerkilega sé greint frá skattalegri meðferð aflaheimilda eins og gert sé í lögunum. Hann óttast hinsvegar að vegna ónógra upplýsinga hafi skattalagabreytingin sem gerð var fyrir ári ekki haft nægileg áhrif til lækkunar á verði aflaheimilda. Telur Kristján að eðlilegt hafi verið að breyta skattalegri meðferð aflaheimilda miðað við að auðlindin sé endurnýjanleg. Ef vafi geti leikið á tilvist aflahlutdeildar til lengri tíma vandist málið og augljóst hvaða fjármunir séu í húfi. Þessar skattalegu breytingar eigi því að tryggja kvótakerfið í sessi.
"Það atriði, að ekki er unnt að færa einkarekstur inn í hlutafélagaform nema meta eignir á markaðsvirði og þá veiðiheimildir meðtaldar, veldur miklu misræmi við þá sem fyrir eru með hlutfélagsform á sínum rekstri. Ekki aðeins að einstaklingar greiða 3946% í skatt eftir því hve hátekjuskattur hefur mikil áhrif en hlutafélög greiða 30% af hagnaði. Aðalatriðið er að nánast er útilokað að færa einkarekstur tveggja eða fleiri einstaklinga saman í hlutafélag nema óheyrileg skattgreiðsla komi til. Þetta skattalega atriði er því hrein hindrun fyrir augljósu hagræði sem margir myndu sækjast eftir."
Kristján segir að í þessu tilliti bætist nýtt óhagræði við með tilkomu Kvótaþings. "Einyrkjum er skylt að fara með aflamark í gegnum Kvótaþing þegar útgerð með tvö skip eða fleiri er heimilað að færa aflamark milli eigin skipa að vild. Þessi umrædda skattalega hindrun veldur því að ekki er unnt að færa saman einkarekin útgerðarfyrirtæki til þess að njóta hagræðis," segir Kristján Ragnarsson.
Morgunblaðið/Árni Sæberg