Sveinn Ólafsson kveður æskuárin NÝJASTA verk Friðriks Erlingssonar rithöfundar er skáldsagan Góða ferð, Sveinn Ólafsson, sem komin er út hjá Iðunni. Titill bókarinnar vísar til aðalsögupersónu hennar, sem segir frá í fyrstu persónu.

Sveinn Ólafsson kveður æskuárin

NÝJASTA verk Friðriks Erlingssonar rithöfundar er skáldsagan Góða ferð, Sveinn Ólafsson, sem komin er út hjá Iðunni.

Titill bókarinnar vísar til aðalsögupersónu hennar, sem segir frá í fyrstu persónu. Sveinn Ólafsson er 13 ára gamall og býr hjá einstæðri móður sinni, en faðir hans er vélstjóri á varðskipinu Tý og hefur takmarkaðan tíma til að sinna syni sínum, m.a. vegna langrar útivistar. Sveinn þarf að takast á við söknuðinn vegna fjarvista pabba síns, sektarkenndina vegna fjarveru í skóla, viðkvæmt kynþroskaskeiðið, samband sitt við móður sína, skilningslausa kennara og truflandi kynnánd sautján ára frænku sinnar.

Friðrik fékk hugmyndina að sögunni skömmu eftir að hann lauk við Benjamín dúfu fyrir sex árum og segir að sagan af Sveini Ólafssyni sé annar hlutinn af þrennu, sem sé uppvaxtar- og þroskasögukenndur sagnabálkur, þótt persónurnar séu aldrei hinar sömu og ekki megi líta á sögurnar sem framhaldssögur. Bálkurinn verður fullgerður í næstu bók Friðriks, sem hann er að skrifa núna.

"Efnislega eru sögurnar ekki tengdar, en það má segja að þær séu fyrst og fremst hugmyndafræðilega tengdar. Þetta eru þroskasögur, sem leggja áherslu á innra líf aðalpersónanna, en annað eiga þær fátt sameiginlegt," segir Friðrik um sagnabálkinn.

­ Hví er sagan látin gerast árið 1976, eins og gefið er til kynna með samtímaatburðum?

"Mér fannst þægilegt að nota tíma, sem ég þekki vel sjálfur. Einnig gef ég frásögninni meira frelsi með því að tímasetja hana í ákveðinni fortíð. Þó gegnir fortíðin ekki öðru hlutverki en því, að vera rammi utan um söguna sem felur í sér ýmsa atburði, sem eiga að styðja við reynsluheim Sveins Ólafssonar."

­ Sagan hefur líka hárfínan erótískan undirtón, enda væri það svindl að sleppa kynferðishugleiðingum úr þegar þrettán ára strákur tjáir hugarheim sinn, eða hvað?

"Vissulega, því það er ekki síst kynhvötin sem er að vakna á þessum aldri, en hins vegar fylgir kynferðisþroski fólki fram eftir öllum aldri."

­ Tíminn, sem líður innan sögunnar á 240 síðum hennar er ekki nema örfáar vikur í lífi Sveins. Hins vegar kemur það þannig út að lesandi fær mikinn tíma til að skoða líf Sveins á nákvæman hátt og kynnist honum þar af leiðandi vel. Var þetta kannski tilgangurinn?

"Ja, mér fannst þetta eina leiðin til að tjá hina sterku upplifun Sveins á umhverfi sínu. Mér fannst þessi aðferð taka vel utan um kraftinn í upplifuninni í stað þess að vera með lengri sögutíma.

Í sögunni er fjallað um það hvernig er að breytast úr barni í fullorðinn og það er alls ekki bara eitt þrep, heldur gerist það á mörgum plönum og á mismunandi tímum. Þannig getur maður verið afskaplega þroskaður á einu plani og vanþroskaður á öðru."

­ Sautján ára frænka Sveins kemur snögglega inn í líf hans án þess að hann hafi óskað eftir því og þeim kemur illa saman í upphafi. Er henni ekki stillt upp sem einskonar prófi í tilfinningalegri karlmennsku Sveins?

"Tilkoma hennar verður til þess að hann þarf að takast á við eitt og annað, því hún setur af stað áður óþekktar tilfinningar hjá honum, sem hann þarf engu að síður að læra á. Frænka hans gegnir í raun sama hlutverki í lífi Sveins og aðrar aukapersónur, þ.e. að reyna á hann og fá hann til að draga ályktanir og þroskast af því. Það gengur hins vegar ekki alltaf átakalaust."

Friðrik Erlingsson

ÞAÐ er stór ljósmynd á forsíðu Moggans. Það er mynd af litlu svörtu barni í faðmi hvítrar hjúkrunarkonu. Við hliðina á hjúkrunarkonunni er móðir barnsins, hún er svört og grindhoruð eins og barnið og krýpur í sandinum við hliðina á hjúkrunarkonunni og heldur utan um smáa, máttlausa fingur. Hvíta hjúkrunakonan vefur barnið örmum og þrýstir því að barmi sínum. Hjúkrunarkonan er sorgbitin vegna þess að barnið er að deyja á meðan ljósmyndarinn smellir af. Börnin í Afríku svelta og ég vildi að ég gæti gert eitthvað til að hjálpa þeim. En það eru börn hér á landi, sem svelta líka, kannski ekki úr hungri, ekki vegna uppskerubrests og þurrka eða flóða eða styrjalda. Þó svo að hungurdauði sé hryllilegur þá deyja börnin í Afríku þrátt fyrir allt fallega, vegna þess að þau deyja í faðmi einhvers. Hér deyja börn án þess að nokkur taki eftir því, og þau deyja án þess að gefa frá sér minnsta hljóð. Þau deyja inni í sér, en líkaminn lifir áfram, dæmdur til vaxa og þroskast, neyddur til að láta líta út fyrir að allt sé í lagi á meðan rykfallið lík sálarinnar þornar upp hið innra einsog múmía í grafhýsi sem sandur eyðimerkurinnar hefur hulið fyrir löngu síðan. Og allir brosa og láta sem þeir sjái ekki neitt, einsog allt sé eðlilegt og sjálfsagt. Og börnin fá það sem hugurinn girnist. Nema þetta eina sem skiptir öllu máli. Hvers vegna þorir enginn að mola grafhýsið niður og taka barnið sitt í fangið? Ég vildi að ég gæti látið alla foreldra heimsins taka börnin sín í fangið og segja: Ég er hjá þér meðan þú ert lítill og ég er hjá þér meðan þú verður stór, ég er alltaf hjá þér, dag og nótt, í svefni og vöku, vegna þess að þú ert hluti af mér, þú ert barnið mitt. Og þegar sá tími kemur að ég verð ekki lengur hjá þér þá skaltu vita að ég hef elskað þig hvað sem þú gerir og segir, og ég mun elska þig svo lengi sem jörðin snýst.

Úr Góða ferð, Sveinn Ólafsson