BIRGÐIR hlaðast upp hjá framleiðendum sjávarafurða í Vestur-Evrópu um þessar mundir vegna lítillar sölu til Rússlands og Asíulanda. Hrun rússnesku rúblunnar og veik staða gjaldmiðla í Asíu hefur dregið mjög úr sölu sjávarafurða á mörkuðum í austurvegi á þessu ári. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Fishing News International.

Birgðir af sjávarafurðum

hlaðast nú upp í Evrópu

Dræm sala frystra

sjávarafurða í

Asíu og Rússlandi

BIRGÐIR hlaðast upp hjá framleiðendum sjávarafurða í Vestur-Evrópu um þessar mundir vegna lítillar sölu til Rússlands og Asíulanda. Hrun rússnesku rúblunnar og veik staða gjaldmiðla í Asíu hefur dregið mjög úr sölu sjávarafurða á mörkuðum í austurvegi á þessu ári. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Fishing News International .

"Kæligeymslur okkar eru fullar og því hefur reynst nauðsynlegt að leigja meira geymslurými," segir Kim Binnidsin, hjá Nöfrost á Skagen í Danmörku, en hjá fyrirtækinu eru mestar birgðir í makríl, rækju, síld og ufsa. Rækjuna hefur Nöfrost venjulega selt til Rússlands á þessum árstíma en nú hreyfist hún ekki úr kæligeymslunni.

Svipað ástand virðist vera hjá framleiðendum í Þýskalandi, sem leita nú geymslurýmis til leigu í Danmörku. Hjá mörgum dönskum fyrirtækjum er þó ekki hægt að taka við meiri birgðum, t.d. í kæligeymslum Klaus Sörensens á Skagen sem rúma 45.000 tonn, en þar eru birgðir 5-10.000 tonnum umfram venjubundið magn og þannig hefur það verið frá því í ágúst á þessu ári. Um 40% birgðanna átti að selja á markaði í Japan. Fyrirtækið Klooster Bore í Álasundi í Noregi ætlar að bæta við 28.000 rúmmetra geymslurými þannig að heildarrými fyrirtækisins verði orðið 83.000 rúmmetrar um miðjan janúar.

Rússar flytja mikið magn síldar til Kína á mjög lágu verði. Hollenskir framleiðendur saka þá um undirboð á markaðnum, en tonnið af síld hefur farið á jafnvirði rúmlega 15 þúsunda íslenskra króna Kína á þessu ári. Hið lága verð hefur einnig haft áhrif á verð skyldrar tegundar, sardínellu, sem hollenskir frystitogarar hafa verið að veiða undan ströndum Vestur-Afríku, en markaður er fyrir sardínelluna í Kína. Rússneskum útflytjendum hefur hins vegar tekist að halda síldar- og sardínuverði niðri á Kínamarkaði með því að selja undir kostnaðarverði, að því er Hans van den Brink hjá The Group, hollenskum sölusamtökum frystra sjávarafurða, heldur fram.