Í MENNTASKÓLANUM við Hamrahlíð stunda rúmlega þúsund nemendur nám. Þar af rúmlega 600 í dagskóla. Öllum nemendum í dagskóla sem ekki eiga við líkamlega fötlun að glíma er gert að stunda líkamsrækt einu sinni í viku, á hverri önn sem þeir eru í skólanum. Vissulega er það af hinu góða, fyrir utan það að ekkert íþróttahús er við skólann.
Íþróttahús við MH

Ég skora á stjórnvöld að klára verkið, segir Heimir Gunnlaugsson , svo að nemendur skólans fái mannsæmandi líkamsræktarkennslu eins og tíðkast í öðrum skólum.

Í MENNTASKÓLANUM við Hamrahlíð stunda rúmlega þúsund nemendur nám. Þar af rúmlega 600 í dagskóla. Öllum nemendum í dagskóla sem ekki eiga við líkamlega fötlun að glíma er gert að stunda líkamsrækt einu sinni í viku, á hverri önn sem þeir eru í skólanum. Vissulega er það af hinu góða, fyrir utan það að ekkert íþróttahús er við skólann.

Fyrstu vikur skólaársins er nemendum gert að hlaupa úti, oft í köldu veðri. Við slíka líkamlega áreynslu er eðlilegt að nemendur svitni og þarf þá að vera böðunaraðstaða. Slík aðstaða er fyrir hendi í íþróttahúsi Hlíðarskóla og oft hefur verið brugðið á það ráð að ryðjast þar inn við lítinn fögnuð grunnskólanema og umsjónarmanna þeirra. Þann hluta vetrar sem kaldast er sjá íþróttakennarar og forráðamenn skólans sér ekki annað fært en að kaupa tíma fyrir nemendur á líkamsræktarstöðvum. Slíkir tímar eru dýrir og eins verða nemendur sjálfir að koma sér á staðinn sem oft er í öðrum borgarhluta. Það verður til þess að nemendur sem ekki hafa aðgang að bílum komast ekki á staðinn á þeim nauma tíma sem er fyrir hendi (u.þ.b. 10 mín.). Oft lækkar mætingareinkunn nemenda í líkamsrækt verulega þegar þessir tímar standa yfir. Þegar líða tekur nær lokum annar fá íþróttakennararnir svo sundtíma í Kópavogslaug. Þar er þó meira hugsað um að koma nemendum á staðinn. Rútur eru leigðar yfir allan daginn til þess að koma nemendum til og frá áfangastað. Oftast eru þetta á milli átta og tíu rútuferðir á dag. Í blálokin á önninni eru svo oftast fengnir kennarar utan úr bæ til þess að kenna dans eða jóga í hátíðarsal skólans. Nemendur þurfa að reyna svolítið á sig við að stíga dansinn eða beygja skrokkinn auk þess sem að mikill hiti myndast í illa loftræstum salnum. Margir eru því allsveittir þegar tímunum lýkur. Þeir þurfa síðan að vera illa lyktandi í svitablautum fötum það sem eftir lifir skóladagsins. Því að fyrir þessa tíma er engin aðstaða veitt til þess að skipta um föt eða fara í sturtu.

Á austanverðri lóð skólans er gert ráð fyrir íþróttahúsi og hafa verið teknar fjölmargar skóflustungur að því, en aldrei verið ráðist í framkvæmdir. Það er víðs fjarri að ekki sé þörf á íþróttahúsi þarna og hrein fásinna að ætla að leysa megi þetta vandamál áfram á þann hátt sem nú er gert. Ljóst er að ef byggt yrði íþróttahús á þessum stað yrði það samstundis uppbókað. Ekki nóg með að það gæti þjónað Hamrahlíðingum fyllilega og veitt þeim þá líkamsræktarkennslu sem þeim ber að fá samkvæmt lögum heldur gæti húsið einnig þjónað öðrum aðilum í hverfinu utan venjulegs skólatíma.

Að lokum vil ég skora á stjórnvöld að taka eina skóflustungu í viðbót, en ekki sitja þar við heldur klára verkið svo að nemendur skólans fái mannsæmandi líkamsræktarkennslu eins og tíðkast í öðrum skólum. Vissulega geri ég mér grein fyrir því að við slíka byggingu er mikill kostnaður. En þeim peningum er vel varið og örugglega betur varið en þeim peningum sem nú er kastað í líkamsræktarstöðvar og rútuferðir.

Höfundur er nemi við MH.

Heimir Gunnlaugsson