ÞEGAR afmælisdagar renna upp vilja vinir og vandamenn gleðja afmælisbarnið með óvæntum gjöfum eða uppákomum. Þegar Tómas Ríkharðsson varð hálfníræður vildi eiginkona hans, Steinunn Arnórsdóttir, gera honum daginn eftirminnilegan. Go-go dans í stofunni
Óvænt uppákoma íhálfníræðisafmæli
ÞEGAR afmælisdagar renna upp vilja vinir og vandamenn gleðja afmælisbarnið með óvæntum gjöfum eða uppákomum. Þegar Tómas Ríkharðsson varð hálfníræður vildi eiginkona hans, Steinunn Arnórsdóttir, gera honum daginn eftirminnilegan.
Go-go dans í stofunni
"Ég var búin að spá í marga hluti fyrir afmælið, en sú fyrsta var að setja upp svona "vegas"- stöng í stofuna og dansa go-go dans fyrir hann og syngja. Hins vegar tolldi stöngin ekki í loftinu og ég var ekki alveg með go-go danssporin á hreinu og kannski komin framúr go-go-þyngdinni líka," segir Steinunn og skellihlær. "Svo var uppáhaldslagið okkar "Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum" ekki beinlínis í stíl við stöngina, svo ég hætti við þessa hugmynd."
Nú voru góð ráð dýr og dagurinn að renna upp. Þegar vinkona Steinunnar var að fara á kóræfingu datt henni í hug að kanna hvort hægt væri að fá kórinn í veisluna og syngja ástarlög fyrir eiginmanninn. Það gekk vonum framar og þegar dagurinn rann upp var eiginmaðurinn leiddur til stofu með bundið fyrir augun og Kór eldri borgara söng lög fyrir hann.
Unglömb í kórnum
"Ég vil nú kalla kórinn Kór heldri borgara, því þau stóðu sig frábærlega vel," segir Steinunn. Eiginmanninum brá þegar tónarnir fylltu stofuna, en víst var uppátækið skemmtilegt á þessum tímamótum.
Pétur H. Ólafsson, formaður Kórs eldri borgara, segir að söngurinn í afmælinu hafi verið óvenjulegt verkefni hjá kórnum, en skemmtilegt. "Við syngjum yfirleitt fyrir fólk á sjúkrahúsum og hópa, því við erum 34 í kórnum og gætu verið vandkvæði á að koma öllum fyrir í venjulegri íbúð." Pétur segir að kórstarfið sé mjög gefandi og félagar virkir, en vill láta þess getið að karlmenn með góðar bassaraddir eru velkomnir í kórinn. Meðalaldur kórfélaga er 77 ár, "þannig að við erum algjör unglömb", segir Pétur.
Lyktaði yndislega
Steinunn segir afmælisveisluna hafa tekist með eindæmum þó ekki hafi allar gjafirnar virkað sem skyldi. "Systur mínar gáfu honum skemmtilegan pakka sem í voru flott rúmföt, geislaplata, rómantískt kertaljós, og rakspíri. Í pakkanum voru einnig tvær viagra-töflur og fylgdi kúbein með herlegheitunum, en þær töldu að það myndi þurfa til að ná eiginkonunni upp úr rúminu daginn eftir. Hins vegar var svo erfitt að ná í viagra- lyfið, að óvart læddust tvær svefntöflur í pakkann, svo hann steinsofnaði í rúminu með kúbeinið við hliðina á sér. "En hann var afskaplega sætur í svefninum og lyktaði yndislega," segir Steinunn og hlær.
Morgunblaðið/Halldór AFMÆLISBARNIÐ veit ekkert á hverju hann á von, enda með bundið fyrir augun ...
BANDIÐ tekið frá augunum ...
OG MIKIÐ gaman að sjá kunnuglegt andlit ...
OG HLÝÐA á kórinn syngja ástarlög af innlifun.