MÉR datt í hug að senda inn smá hugleiðingu. Hvað gerist ef barn á aldrinum 14 ára er ekki komið heim á réttum tíma? Og hvað þá heldur ef sama barn kemur ekki heim daginn eftir heldur? Ég þekki til fólks sem fékk þessum spurningum svarað og ætla að segja frá því hér, svo við getum velt vöngum yfir því saman. "Þegar 14 ára dóttir hér í borg var búin að vera týnd í ca.
Hugleiðing
DíönuFrá Díönu Ósk Óskarsdóttur:
MÉR datt í hug að senda inn smá hugleiðingu. Hvað gerist ef barn á aldrinum 14 ára er ekki komið heim á réttum tíma? Og hvað þá heldur ef sama barn kemur ekki heim daginn eftir heldur? Ég þekki til fólks sem fékk þessum spurningum svarað og ætla að segja frá því hér, svo við getum velt vöngum yfir því saman. "Þegar 14 ára dóttir hér í borg var búin að vera týnd í ca. tvo sólarhringa fengu foreldrar hennar fréttir af henni, að hún væri stödd í ákveðnu húsi með einhverjum 18 ára gæjum. Þegar foreldrarnir komu á staðinn var þeim ekki ansað, hvað þá hleypt inn, þannig að þau leituðu aðstoðar lögreglu borgarinnar.
Jafnframt því að tilkynna það að stúlkan væri fundin. Viðbrögð lögreglu voru (mjög skrítin að mínu áliti) að upplýsa foreldrana um það að stúlkan væri á þeirra ábyrgð og þar sem þau vissu nú hvar hún væri ættu þau að ná í hana. Þeir gætu ekkert aðhafst vegna friðhelgi heimilis. Og punktur. Eftir ítrekaðar tilraunir til að fá inngang í húsið til þess að nálgast dóttur sína urðu þau að gefast upp þar sem þau vildu engan veginn brjóta lögin með því að brjótast inn. Við fáum stöðugt upplýsingar um það, að fíkniefnaneysla barna og unglinga sé í örum vexti hér í borg og heyrum reynslusögur barna (og fyrrum barna) um það sem veldur því að þau fari í neyslu og eins því sem kann að koma fyrir meðan á neyslu stendur. Við sjáum líka meðferðarheimilin byggjast upp og fyllast af börnum, alls kyns safnanir hafa farið í gang og umræður á Alþingi varðandi þetta vandamál. Foreldrar eru á foreldravakt í hverfum og við fáum upplýsingar um það að við eigum öll að bera ábyrgð. Eitt af því sem er mikið fjallað um er útivistartími barna og eru foreldrar beðnir um að fylgja lögum um hann. Samt sjáum við börn og unglinga á vappi seint um kvöld og nætur og mig skal ekki undra, því ef barn fer í fýlu við foreldra sína þá er bara að finna næsta partý og koma sér inn, þá nýtur barnið friðhelgi þess heimilis. Halló!! Ég verð að segja að viðbrögð lögreglu í þessu dæmi sem ég tiltók eru ekki til fyrirmyndar og vil ég gjarnan sjá breytingu á þessum starfsreglum. Getur það verið að foreldrar, sem leita til lögreglu vegna týnds barns og svo aðstoðar við að nálgast það þegar það finnst, séu ekki meðvituð um eigin ábyrgð og þurfi því að vera upplýst um þá ábyrgð, eða þarf kannski að upplýsa foreldra sem ekkert gera í málum sem þessum um ábyrgð? Eða er kannski rétt að grípa til frumskógarlögmálsins og láta hendur standa fram úr ermun og brjóta upp hurðir, snarast inn og draga barnið sitt út og ef einhver reynir að stöðva mann þá bara kýla hann kaldan? Hvert eigum við sem viljum bera ábyrgð og viljum ekki grípa til lögbrots að snúa okkur? Ég veit vel að ef um alkaholisma er að ræða þá fer sá sjúkdómur ekki í manngreinarálit og engu máli skiptir frá hvernig heimili alki kemur en ég veit líka að þróun sjúkdóms þarf ekki að byrja fyrr en eftir sjálfræðisaldur, það er að segja ef foreldrar, lögregla og samfélagið í heild hafa einhver völd. Sem er greinilega spurning. Er kannski bara best að fara einföldustu leiðina og lækka sjálfræðisaldur svo við þurfum ekki að standa í öllu þessu veseni sem fylgir því að halda aga og sýna ábyrgð. Ég vil enda þetta á því að segja ykkur niðurlög þessarar sögu. "Á þriðja degi finnst stúlkan af lögreglu sem pikkar hana upp og eru foreldrar kallaðir niður á stöð til að nálgast hana. Ekkert nema gott um það að segja sem betur fer. En varðstjórinn sem var þarna á vakt þurfti endilega að koma því á framfæri við foreldrana, fyrir framan stúlkuna, að þessi stúlka ætti sér ekki viðreisnar von, hún væri bara Stuðlamatur; hann vissi allt um það, hefði séð þetta svo oft áður." Er þetta uppgjafarviðmót? Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að auka reynslu og/eða menntun fyrir þá sem vinna sem lögreglumenn eða varðstjórar.
DÍANA ÓSK ÓSKARSDÓTTIR,
Kleppsvegi 70, Reykjavík.