HINN 22. ágúst sl. birtist grein eftir mig í Lesbókinni, sem svargrein til Sæbjarnar Valdimarssonar, kvikmyndagagnrýnanda Mbl., vegna greinar hans í sama blaði 11. júlí sl. sem hann nefnir Hellnar í hálfa öld. Nú 1. des. sl. fæ ég sendingu í Mbl. frá SV sem mér finnst nokkuð síðborin og meðgöngutíminn æði langur, miðað við alvöru málsins að hans mati.

Hrekkjusvín undir Jökli

Jú, víst var þetta sparðatíningur, segir Kristinn Kristjánsson , en það voru hans eigin spörð sem hann skildi eftir sig á síðum Lesbókar sem ég var að tína til.

HINN 22. ágúst sl. birtist grein eftir mig í Lesbókinni, sem svargrein til Sæbjarnar Valdimarssonar, kvikmyndagagnrýnanda Mbl., vegna greinar hans í sama blaði 11. júlí sl. sem hann nefnir Hellnar í hálfa öld. Nú 1. des. sl. fæ ég sendingu í Mbl. frá SV sem mér finnst nokkuð síðborin og meðgöngutíminn æði langur, miðað við alvöru málsins að hans mati.

SV upphefur raust sína með þessum orðum: "Þá fékk ég einnig undarleg skilaboð að vestan í e.k. svargrein frá Kristni Kristjánssyni, kenndum við Bárðarbúð, sem var mestmegnis sparðatíningur, rangfærslur, misskilningur og skætingur í minn garð, sem ekki er svaraverður. Einfaldara hefði verið fyrir KK að lyfta símanum." Það hefðu fleiri mátt gera.

Ef einhver lesenda Mbl. hefur áhuga á að kynna sér hvað okkur SV fór í milli bendi ég þeim á að lesa greinar okkar frá í sumar og geta menn þá dæmt um "skætinginn" í grein minni.

Ég taldi mig skrifa greinina á vinsamlegum nótum og hafði hvorki ástæður né vilja til að troða illsakir við SV en hann virðist vilja veita umræðunni í annan farveg. Hann um það. Upphaf greinar hans lýsir miklum hroka og telur hann ekki sér sæmandi að svara slíkum sparðatíningi. Já, víst var þetta sparðatíningur en það voru hans eigin spörð sem hann skildi eftir sig á síðum Lesbókar frá 11. júlí sl. sem ég var að tína til. Eitt af sínum spörðum vill hann þó taka til frekari skoðunar en það er "Lífslindin", sem virðist vera orðin að þráhyggju hjá honum. Í grein sinni frá í sumar segir hann: "Aldrei heyrði ég talað um Lífslind á mínu heimili, var þó sjötti ættliðurinn á jörðinni, faðir minn hafsjór af þjóðlegum fróðleik, líkt og amma mín, strangtrúuð, glögg og samviskusöm kona, sem hafði búið á Skjaldartröð frá því á ofanverðri nítjándu öld. Aldrei nokkurn tíma eitt einasta aukatekið orð um Lífslind." Nú í síðari grein SV virðist hann heldur betur draga í land, eftir að ég benti honum á grein Helgu Halldórsdóttur í bókinni "Öll erum við menn". Það þýðir lítið fyrir hann að hengja hatt sinn á hvort orðið lífslind sé notað sem sérnafn eða samnafn. Hann virðist alls ekki hafa lesið þennan kafla í bók Helgu sem ber yfirskriftina Lífslind Hellnamanna, fyrr en ég vitna til hennar í grein minni. Nú keppist SV við að viðurkenna komu Guðmundar góða til Hellna, sem hann dró mjög í efa í fyrri grein sinni. Lesendur hljóta að sjá óheilindin í skrifum hans um þessa blessuðu lind. SV segir í grein sinni að ég sé að halla réttu máli til styrkingar ambögunni Lífslind/Maríulind. Ég get sagt mínum ágæta SV það að mér er hjartanlega sama hvað fólk nefnir þessa lind, í mínum huga er nafnið Gvendarbrunnur það nafn sem mér nægir og ég er ánægður með að SV skuli vera búinn að átta sig á því að Guðmundur biskup hafi komið til Hellna og vígt þessa lind.

SV gerir orð Helgu að mínum orðum þar sem sagt er að býlið Brekka hafi síðan verið nefnt Lindarbrekka. Ekki hefur lesning hans verið ýtarlegri en svo að hann skuli láta sér sæmandi að viðhafa rangfærslur. Ekki er mér kunnugt um hvenær býlið Lindarbrekka verður til en þar var búið í kringum árið 1920. Það var ekkjan Sigríður Pálsdóttir sem síðar flutti til Hellissands, sonardóttir hennar býr nú þar (Valdís Magnúsdóttir) og er kona Sigurðar Kristjónssonar skipstjóra á Hellissandi. Árið 1847 er býlið ekki nefnt við manntal það ár en býlin Efri-Yxnakelda og Neðri-Yxnakelda eru þá til og nefnd grashús, en Skjaldartröð nefnd forsvarsjörð ásamt fleiri grashúsum sem nú tilheyra Skjaldartröð. Voru það Þrengslabúð, grashús, Ormsbær, grashús, og Arabúð, tómthús. Grashús voru býli sem höfðu grasnytjar. Þetta ár býr á Skjaldartröð Ólafur Illugason, forveri okkar SV, en systir hans var Melabúðar-Kristín, sem giftist alþýðuskáldinu Sigurði Breiðfjörð og mikil málaferli urðu út af. Ég sagði í fyrri grein minni, að mér fyndist Gvendarbrunni hafa verið sómi sýndur, m.a. vegna þess góða aðgengis sem nú er að honum. Ég minntist þess, sem ungur drengur í heyskap með fjölskyldu minni á jörð föður míns Neðri-Keldu, hve erfitt var fyrir þyrstan og illa skóaðan dreng að komast að lindinni vegna vatnsagans sem var kringum hana.

Eitt er það sem ég hef ekki fengið svör við hjá SV en nú vil ég krefja hann um þau. Hvað meinar SV með því að segja: "Síðan kemur maður sem er aðkomumaður að Hellnum og sér með gestsaugum breytingarnar sem linnulaust halda áfram. Útræðið var að flytjast á Stapa, búskapur stóð höllum fæti, hver jörðin af annarri fór í eyði, eða var seld hrossamönnnum eða félagasamtökum. LÍÚ keypti Skjaldartröðina og var það vel." Ég gat þess að ég hefði ekki verið sáttur við LÍÚ-menn. Þeir munu hafa lofað því að halda jörðinni í byggð, þrátt fyrir sín sumarhús, sem ég hef alltaf talið af hinu góða. En nú er jörðin komin í eyði. Það er hinum dugmikla bónda Reyni á Laugarbrekkku, sem hefur nýtt jörðina til slægna, að þakka að miklu og fögru Skjaldartraðartúnin eru ekki komin í óyndislega niðurníslu og karga.

Sæbjörn Valdimarsson vitnar í nýútkomna ferðahandbók, sem ég því miður hef ekki orðið mér úti um. Í henni segir hann að búið sé að umrita kaflann um Hellna. En er nokkuð undarlegt við það að breyta þurfi ýmsu og færa til betri vegar? Nýjustu upplýsingar hljóta að eiga koma fram í þessari nýju handbók. Annað væri óeðlilegt. Ég er reyndar stórlega farinn að efast um heilindi SV í umræðum hans um málefni Hellna. Mig uggir, að eitthvað annað hangi þar á spýtunni. Hvers vegna talar SV sífellt um einhverja aðila eða óráðvanda menn? Hann hlýtur að hafa ákveðna aðila í huga og væri þá sæmandi af Sæbirni að nefna þá fullum nöfnum svo þeir gætu svarað fyrir sig. Ég er viss um að útgefendur Ferðahandbókarinnar myndu fúslega vísa á heimildarmann (menn) þeirra upplýsinga sem fram koma í bókinni. Á meðan Sæbjörn Valdimarsson nefnir ekki nöfn hrekkjusvínanna lít ég svo á að hann sé í hlutverki Don Quijote að berjast við hinar ósigrandi vindmyllur.

Að lokum óska ég svara við eftirfarandi: 1. Hverjar eru rangfærslur mínar í greininni? 2. Hver er misskilningur minn? 3. Hver er skætingur minn í garð SV í fyrri grein minni? Og svo óska ég þessum frænda mínum alls velfarnaðar.

Höfundur er fv. grunnskólakennari á Hellissandi.

Kristinn Kristjánsson