Á FYRSTU þremur starfsmánuðum Kvótaþings hefur verð á leiguframsali aflamarks hækkað í nánast öllum fiskitegundum ef það er borið saman við leiguverð á fyrstu þremur mánuðum síðasta fiskveiðiárs. Eina undantekningin er leiguverð á úthafsrækju,
Aflamark almennt hækkað í verði með tilkomu Kvótaþings
Leiguverð á þorskkvótahækkað um tæp 19%
Frá því að Kvótaþing tók til starfa 1. september sl. hefur verð á leigukvóta hækkað til muna í öllum tegundum nema rækju, samanborið við þrjá fyrstu mánuði síðasta fiskveiðiárs, öfugt við það sem búist hafði verið við. Þá hafa viðskipti með aflamark dregist nokkuð saman með tilkomu þingsins. Helgi Mar Árnason kynnti sér orsakir þessa.
Á FYRSTU þremur starfsmánuðum Kvótaþings hefur verð á leiguframsali aflamarks hækkað í nánast öllum fiskitegundum ef það er borið saman við leiguverð á fyrstu þremur mánuðum síðasta fiskveiðiárs. Eina undantekningin er leiguverð á úthafsrækju, en þar sjá menn fram á að ná ekki úthlutuðum veiðiheimildum.
Í samanburði á viðskiptum og færslum aflamarks er tekið mið af flutningi milli skipa sem ekki voru gerð út innan sömu útgerðar á fyrstu þrem mánuðum síðasta fiskveiðiárs. Jöfn skipti eru einnig undanskilin. Hinsvegar er miðað við viðskipti sem orðið hafa á Kvótaþingi á sama tímabili yfirstandandi fiskveiðiárs.
Samanburðurinn leiðir einnig í ljós að verulega hefur dregið úr færslum á aflamarki í öllu tegundum. Hér verður þó að taka tillit til ýmissa þátta. Leigukvótamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum frá síðasta ári með tilkomu Kvótaþings. Hin svokölluðu tonn á móti tonni-viðskipti voru mjög algeng áður en Kvótaþing tók til starfa en eru ekki lengur heimil samkvæmt nýjum lögum sem gildi tóku um síðustu fiskveiðiáramót. Þá var aflamark flutt óhindrað á milli skipa og dæmi um að sami kvótinn væri færður margsinnis á milli fjölda skipa. Sem dæmi má nefna að á síðasta ári var stórum hluta síldarkvótans skipt fyrir aðrar tegundir. Öflug síldarvinnslufyrirtæki voru þannig að fá til sín talsvert af síldarkvóta í skiptum fyrir aðrar tegundir og flytja á sín eigin skip og í framhaldinu yfir á önnur skip sem öfluðu þá vinnslunum hráefnis í staðinn.
Þá voru geymslur eða færslur aflamarks á milli fiskveiðiára mun algengari um síðustu fiskveiðiáramót en um áramótin 1997-8, en samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögum er heimilt að flytja eða geyma allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, úthafsrækju, humars og síldar, frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Mestur var þessi flutningur í úthafsrækju þar sem um síðustu fiskveiðiáramót voru flutt samtals um 14.700 tonn á milli áranna, í samanburði við um 4.300 tonn um fiskveiðiáramótin 1997-8. Þá voru geymd um 1.300 tonn af þorski um síðustu fiskveiðiáramót en aðeins um 360 um áramótin þar á undan.
Fjölmargar útgerðir hafa auk þess gert miklar breytingar á kvótasamsetningu sinni, eða "lagað til" hjá sér vegna takmörkunar á framsali aflamarks, eða 50%-reglunnar svokölluðu. Í því felst einkum að aflamark er flutt innan útgerðar á þau skip sem líklegust eru til að veiða aflann svo ekki komi til skerðinga.
Kvótaþing hefur dregið úr síldveiðum
Áhrifa Kvótaþings hefur hvað helst gætt í viðskiptum með síldarkvótann. Í upphafi síldarvertíðarinnar á síðasta ári ríkti talsverð bjartsýni á veiðarnar, enda náðist að veiða kvótann á vertíðinni 1996. Eftirspurn eftir síldarkvóta var því nokkur í upphafi síðustu vertíðar. Nú hefur dæmið hinsvegar snúist við og framboðið mun meira en eftirspurnin. Talsvert féll niður af síldarkvótanum vegna aflabrests á síðasta ári, þrátt fyrir að geymsluréttur hafi verið nýttur til fulls. Mörg fyrirtæki eiga því nú talsverðan síldarkvóta en geta ekki flutt hann yfir á önnur skip utan útgerðarinnar til að láta veiða hann fyrir sig nema í jöfnum skiptum fyrir aðrar tegundir. Þeir sem Morgunblaðið hefur rætt við fullyrða að ef viðskipti með aflamark í síld væru undanskilin Kvótaþingi væri síldaraflinn á vertíðinni orðinn mun meiri.
Spenna leiðir til hærra verðs
En af hverju hefur verð á aflamarki hækkað eins og raun ber vitni eftir tilkomu Kvótaþings? Björn Jónsson, fulltrúi hjá LÍÚ, segir það einkum vegna þess að nú megi ekki skipta tonn á móti tonni. "Þegar allir þurfa að fara í gegnum Kvótaþing myndast spenna. Menn gátu á einfaldan hátt orðið sér úti um aflamark ef útlit var fyrir að þeir færu annars framyfir. Nú hefur verið tekið fyrir slíkt og menn þvingaðir til að fara í gegnum Kvótaþing. Menn vilja tryggja sér aflamark í tíma til að lenda ekki í vandræðum seinna og þá neyðast þeir til að greiða uppsett verð. Þetta á sérstaklega við í aukategundum," segir Björn.
Varla marktæk reynsla
Guðjón Ármann Einarsson, framkvæmdastjóri skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar í Reykjavík, segir að enn sé varla hægt að tala um marktæka reynslu af Kvótaþingi og því hæpið að draga af henni ályktanir. Ljóst sé að mjög lítið magn hafi farið um þingið á fyrstu mánuðunum og verð þess vegna hækkað í öllum tegundum nema rækju. "Einnig verður að horfa til þess að verð á fiskmörkuðum hefur verið mjög hátt í allt haust. Það helgast að vissu leyti af því að þar hefur sömuleiðis verið lítið framboð en ekki síður af því að afurðaverð hefur verið mjög hátt á nánast öllum sjávarafurðum."
Guðjón segir þessa þróun ekki koma á óvart í ljósi þess hve lítið magn hafi farið um þingið. Vissulega hafi margir gert sér vonir um að verð á leigukvóta lækkaði með tilkomu Kvótaþings, en á meðan ekki komi meira magn inn á þingið virðist tilhneigingin vera sú að verð skrúfist upp. "Það verður fróðlegt að sjá hvað þeir sem mestu heimildirnar eiga, og sjá fram á að ná þeim ekki, gera þegar lengra líður á fiskveiðiárið. Þá fyrst reynir á nytsemi þessa fyrirkomulags," segir Guðjón.