EINS og mörgum lesendum Morgunblaðsins er kunnugt ætlar Frjálslyndi flokkurinn að halda sitt fyrsta landsþing í síðari hluta janúar næstkomandi. Á þinginu verða stefnumál hins nýja flokks rædd og afgreidd.
Við boðum breytingar!
Frjálslyndi flokkurinn
telur lögu tímabært að snúa í jákvæða sókn í heilbrigðismálum, segir Gunnar Ingi Gunnarsson , í síðustu grein sinni af fjórum.
EINS og mörgum lesendum Morgunblaðsins er kunnugt ætlar Frjálslyndi flokkurinn að halda sitt fyrsta landsþing í síðari hluta janúar næstkomandi. Á þinginu verða stefnumál hins nýja flokks rædd og afgreidd. Morgunblaðið hefur verið svo vinsamlegt að gefa kost á nokkurri kynningu á helstu málaflokkunum og í þessari grein er ætlunin að fjalla um:IV Um nýjungar og þróunarverkefni í heilbrigðismálum
Áratugum saman var íslenska heilbrigðisþjónustan látin þróast afskiptalaust í einhvers konar þverpólitískum friði, þar sem allur kostnaðarauki var greiddur friðsamlega úr sístækkandi ríkiskistu. Aukning þjóðartekna ár eftir ár faldi stöðugan útgjaldaauka þjónustunnar og stjórnmálamenn horfðu löngum hálsi á kerfið verða stærra og dýrara með ári hverju. Um tíma virtust allar kúrfur hafa þannig halla, að allt stefndi í það að lokum, að stór hluti þjóðarinnar starfaði á stofnunum kerfisins, en hinir væru þar vistmenn.
Svo skall á hin afstæða kreppa og hagfótur þjóðarinnar tók að visna. Þá fyrst áttuðu menn sig á því, að útgjaldakúrfur heilbrigðis- kerfisins gátu ekki stefnt til himins endalaust og menn settust yfir kerfið og reyndu að koma böndum á útgjöldin. Frá þeim tíma og enn sem komið er hafa flestar aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst borið keim af alls konar skyndibrögðum við vandamálum, sem þegar voru orðin að veruleika - í dæmigerðri nauðvörn.
Lítið hefur borið á framsæknum og jákvæðum sóknarleikjum, þar sem vörn hefur verið snúið í sókn, samanber alþjóðlega viðurkenndan stíl í erfiðri stöðu. Frjálslyndi flokkurinn telur það löngu tímabært, að neikvæðri vörninni verði snúið í jákvæða sókn á öllum sviðum íslenskra heilbrigðismála. Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru alþjóðlega viðurkennd, þar sem þau eru á annað borð þekkt. Þessi gæði byggjast fyrst og fremst á háu menntunarstigi og mikilli færni íslenskra heilbrigðisstétta. Þarna er til staðar mikill mannauður og þennan mannauð verða Íslendingar að nýta betur í allra þágu. Við höfum alls ekki efni á öðru. En hvernig förum við að því?
Frjálslyndi flokkurinn vill láta skoða það í alvöru, hvort ekki séu forsendur fyrir því að fjárfesta sérstaklega í áðurnefndum mannauði með það að markmiði, að hefja skipulagðan útflutning á íslenskri heilbrigðisþjónustu í hagnaðarskyni, en þó ekki síður með hagsmuni íslenskra neytenda í huga.
Með fyrrnefnt markmið í huga vill Frjálslyndi flokkurinn láta kanna alla möguleika á markaðssetningu hjartaaðgerða erlendis.
Á því sviði hafa íslenskir læknar og þeirra samstarfsfólk vakið sérstaka athygli fyrir frábæran árangur, þrátt fyrir takmarkandi fjárskort og aðstöðuleysi. Að lokinni vandaðri hagkvæmnisathugun vill Frjálslyndi flokkurinn láta skoða það, hvort ekki sé ráðlegt að stofna sjálfstæða rekstrareiningu, sem gæti þess vegna verið sameign ríkis og einkaaðila, er tæki að sér að framkvæma allar hjartaaðgerðir á íslenskum sjúklingum, samkvæmt skilmerkilegum þjónustusamningi við heilbrigðisráðuneytið. Með þessu móti ætti að vera unnt að ná eftirfarandi markmiðum:
Að fullnægja ávallt aðgerðarlistum íslenskra hjartasjúklinga.
Að afla gjaldeyristekna með íslenskri heilbrigðisþjónustu.
Að skapa verðug verkefni og vinnuskilyrði fyrir allt það íslenska heilbrigðisstarfsfólk, sem hefur þegar menntað sig og þjálfað á þessu sviði.
Að skapa skilyrði fyrir leiðandi rannsóknar- og þróunarvinnu á sviði hjartaaðgerða og tilheyrandi endurhæfingu.
Þessu verkefni vill Frjálslyndi flokkurinn koma á laggirnar við fyrsta tækifæri. Flokkurinn vill síðar meir láta reynsluna af því verða ákvarðandi um það, hvort og þá hvernig skuli staðið að frekari landvinningum með svipuðum hætti á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.
Höfundur er læknir. Gunnar Ingi Gunnarsson