NÝJASTA Star Trek geimmyndin "Star Trek: Insurrection" var frumsýnd um helgina með miklum herlegheitum og fór strax í fyrsta sætið yfir mest sóttu myndir helgarinnar. Var hún með nánast helmingi meiri aðsókn en efsta myndin frá síðustu viku, "A Bug's Life" sem fór í annað sætið eftir að hafa trónað efst í tvær vikur.
Skordýrin víkja

fyrir Star Trek

NÝJASTA Star Trek geimmyndin "Star Trek: Insurrection" var frumsýnd um helgina með miklum herlegheitum og fór strax í fyrsta sætið yfir mest sóttu myndir helgarinnar. Var hún með nánast helmingi meiri aðsókn en efsta myndin frá síðustu viku, "A Bug's Life" sem fór í annað sætið eftir að hafa trónað efst í tvær vikur.

Önnur frumsýning helgarinnar "Jack Frost" fór í þriðja sætið en þar fer Michael Keaton með aðalhlutverkið. Óvinur ríkisins féll um eitt sæti eins og Rugrats. Endurgerð hrollvekjunnar Psycho með Anne Heche í aðalhlutverki féll um fimm sæti úr öðru niður í það sjöunda.

Star Trek var vinsælast af karlmönnum eldri en 25 ára, en einnig var mikið af áhorfendum sem talsmaður kvikmyndavers Paramount lýsti sem fólki sem þekkti ekki endilega alla sögu Star Trek- myndanna, en gæti samt skemmt sér yfir þeirri nýjustu.

Star Trek-myndirnar hafa átt gífurlegum vinsældum að fagna og sú nýjasta virðist ekki ætla að gefa hinum neitt eftir. Þó er frumsýningarhelgin ekki jafn góð og hjá síðustu tveimur Star Trek- myndunum, en á móti kemur að þær voru báðar frumsýndar um þakkargjörðarhelgi sem er ein helsta aðsóknarhelgi kvikmyndahúsanna vestanhafs.

MARK Addy og Michael Keaton leika í myndinni Jack Frost sem skaust í þriðja sæti.