"Ég er listamaður, ekki heimspekingur. Ég set ekki fram skoðanir. Ég skapa list. Ábyrgð listamannsins felst ekki í því að segja hvað hlutirnir þýða heldur að spyrja: "Hvað þýðir þetta?" Ofangreint er tilvitnun í bandaríska fjöllistamanninn Robert Wilson sem þekktur hefur orðið á undanförnum tveimur áratugum fyrir framsæknar leiksýningar sem
Sannleikann í öll mál

"Leikhúsið er skoðanamaskína, sem spýtir stöðugt út úr sér spegilfægðum skýringum á veruleikanum..."





"Ég er listamaður, ekki heimspekingur. Ég set ekki fram skoðanir. Ég skapa list. Ábyrgð listamannsins felst ekki í því að segja hvað hlutirnir þýða heldur að spyrja: "Hvað þýðir þetta?"

Ofangreint er tilvitnun í bandaríska fjöllistamanninn Robert Wilson sem þekktur hefur orðið á undanförnum tveimur áratugum fyrir framsæknar leiksýningar sem falla ekki beinlínis undir hefðbundnar skilgreiningar heldur eru eins konar sambland söngleikja og myndlistargjörninga, enda er Wilson myndlistarmaður að mennt og hóf feril sinn sem slíkur. Hann segir ennfremur: "Eina ástæðan fyrir sköpun verks er að ég skil það ekki. Á því augnabliki sem mér finnst ég skilja verkið er það dautt fyrir mér. Leikverk kemst ekki að niðurstöðu. Það á að vera opið í endann. Lokaorðið verður að tákna upphaf og opnar dyr, ekki lokaðar. Leikverk er ekki fyrirlestur eða kennslustund. Ég les ekki áheyrendum fyrir skoðanir mínar. Leikhús sem þvingar fram túlkanir er fagurfræðilegur fasismi. Áhorfendur skapa innihaldið." (The Theatre of Robert Wilson.)

Breska leikskáldið Howard Barker rær á svipuð mið í bók sinni Arguments for a theatre þegar hann spyr: Hver vill borga 2000 krónur fyrir það sem hann þegar veit? Það er þjófnaður." Síðar segir hann: "Hið menningarlega leikhús meðhöndlar áhorfendur eins og börn. Þeim er færður boðskapur, rétt eins og sannleikurinn sé morgunverður."

Leikhúsfræðingurinn og gagnrýnandi danska dagblaðsins Berlingske Tidende Per Theil leggur út af orðum Barkers í ritgerð er hann nefnir Kritikkens krise . Hann segir hið hefðbundna vestur-evrópska bókmenntaleikhús í uppnámi: "Það eru ekki eingöngu leiðindin yfir að vera endalaust fóðraður á sömu sannleiksmolunum, innantómum pillum sem allir vita hvernig bragðast. Uppnámið í leikhúsinu snýst um fleira, m.a. hinn stórkostlega hæfileika til að hafa hátt og endurskapa ­ alltaf eins ­ þannig að tíundi áratugur aldarinnar er fá á sig svip fortíðarinnar séðrar í baksýnisspegli leikhússins. Þetta er þó aukaatriði því uppnámið stafar enn frekar af hinni sígildu skoðun sem enn er í fulllu gildi, að list verði að skilja og innihaldið/boðskapurinn sé mikilvægasti þáttur verksins." Áhorfendur verða að geta safnast saman um innihaldið, eins og börn um jólatré, svo "...þeir geti farið heim, eftir atvikum ánægðir eða siðferðilega skeknir."

Howard Barker skilgreinir hugmynd sína um hið fullkomna leikhús með þeim orðum að: "Það er enginn boðskapur. Gagnrýnandinn verður að þjást eins og allir aðrir. Áhorfendur eru sundraðir og fara heim ­ ringlaðir og hissa." Og hér bætir gagnrýnandinn Theil því við að Barker sé ekki bara að lýsa uppnámi leikhússins með þessum orðum, "hinu póstmóderníska uppnámi" eins og Theil orðar það, heldur einnig uppnámi gagnrýninnar. "Hin húmaníska leikhúsumfjöllun sem okkur er enn tömust og fylgir sígildri uppskrift Aristótelesar reynir að spegla raunveruleikann ­ í þessu tilfelli raunveruleika sýningarinnar ­ á eins uppbyggilegan og rökréttan hátt og kostur er, og takmarkið er auðvitað að leiða lesandann til einhverrar niðurstöðu, svars, siðaboðskapar, dóms. Einhverrar lausnar."

Barker skilgreinir hið hefðbundna nútímaleikhús(!) sem "...vel smurða skoðanamaskínu, sem spýtir stöðugt út úr sér spegilfægðum skýringum á veruleikanum í stað þess að gegna hlutverki sínu sem vettvangur umhugsunar og mótsagnakenndra fullyrðinga um veruleikann." Gagnvart slíku leikhúsi stendur hinn sannleikselskandi formúluháði leikhúsgagnrýnandi á gati því gagnrýni undanfarinna áratuga hefur einfaldlega gefið sér að markmið leikhússins, leikritunar nánar tiltekið, sé einmitt að setja fram "spegilfægðar skýringar á veruleikanum". Jákvæð eða neikvæð gagnrýni hefur í þessum skilningi snúist um hvort gagnrýnandinn hefur verið tilbúinn til að fægja skýringarnar aðeins betur eða finna að því að höfundurinn hafi ekki pólerað nógu vel sjálfur.

"Langflestir bókmenntaskýrendur og gagnrýnendur eru meðaljónar. Þeir krefja því listina um upplyftingu. Þeir vilja hafa það huggulegt. Það hafa þeir iðulega vegna þess að hér eru svo margir meðaljónar í hópi rithöfunda. Danskir gagnrýnendur eru of örlátir. Það er vandinn. Og þegar svo vill til að út kemur bók sem býður engar skýringar, en sýnir lífið einfaldlega eins og það er, niðurlægjandi og tilgangslaust, þá er höfundurinn dæmdur úr leik." Þetta sagði danshöfundurinn Carsten Jensen fyrir nokkrum árum og þótti ýmsum slæmt að sitja undir.

"Ég er listamaður, ekki heimspekingur," segir Robert Wilson. "Ég geri það sem mér sýnist, eins og mér sýnist, þegar mér sýnist. Það er hin hreina sköpun. Til að hægt sé að koma listinni á framfæri þarf ótal milliliði sem helst þurfa að telja sig vita hvað þeir eru að tala um og þannig rúllar boltinn af stað. "Sýningin fjallar um... o.s.frv." Hversu mjög sem við viljum losna undan túlkunar- og skýringafarginu er hætt við að listamaðurinn standi utan hringekjunnar og skapi í einsemd sinni ef enginn skilur hann og hann neitar að halda áfram ef örlar á skilningi hjá honum sjálfum. Hvað er þá til ráða? Halda áfram að hugsa, tala, semja og skapa. Það er eina leiðin. Þó svo farið sé í hring. Hver hefur svo sem sagt að leiðin liggi alltaf lengra áfram. Hvað er áfram?

VIÐHORF Eftir Hávar Sigurjónsson