VEIÐAR og vinnsla hjá Tanga hf. á Vopnafirði hafa gengið bærilega í haust þrátt fyrir afar leiðinlega tíð. Tangi gerir út tvö skip, nótaskipið Víkurberg og frystitogarann Bretting, en togarinn Eyvindur vopni var seldur fyrir nokkru. Skipin tvö hafa því rúmar aflaheimildir og hafa veiðarnar gengið vel, sé tekið mið af óhagstæðu veðurfari.
Gengur vel

hjá Tanga

VEIÐAR og vinnsla hjá Tanga hf. á Vopnafirði hafa gengið bærilega í haust þrátt fyrir afar leiðinlega tíð. Tangi gerir út tvö skip, nótaskipið Víkurberg og frystitogarann Bretting, en togarinn Eyvindur vopni var seldur fyrir nokkru. Skipin tvö hafa því rúmar aflaheimildir og hafa veiðarnar gengið vel, sé tekið mið af óhagstæðu veðurfari.

Brettingur er nú á karfa- og grálúðuveiðum út af Austfjörðum og er aflaverðmætið orðið um 10 milljónir króna eftir 9 daga veiði. Víkurbergið hefur verið á síld fyrir vestan land og landaði um 700 tonnum á Akranesi um helgina. Nær stöðug bræla hefur hamlað síldveiðununm, en vonast var til að einhver friður fengist í nótt, en eftir það verður brælan við völd á ný samkvæmt veðurspám.

70.000 tonn af síld og loðnu

Tangi hefur alls tekið á móti tæplega 70.000 tonnum af síld og loðnu á þessu ári og er það eilítið minna en á öllu síðasta ári. Mest munar nú um verkfall sjómanna á fyrrihluta ársins, en fyrir vikið stóð loðnuvertíð aðeins í 24 daga í stað 40 eins og venjan er. Fyrir vikið barst minna af loðnu til vinnslu, en að öðru leyti segir Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri Tanga, er móttekið hráefni meira.

Meira af síld

Í haust hefur Tangi tekið á móti um 8.200 tonnum af loðnu og síld. Móttaka síldar er nú meiri en á síðasta hausti, en minna hefur borizt að af loðnu. Nú hafa aðeins tæp þúsund tonn af síld og loðnu verið fryst hjá fyrirtækinu, en í fyrra haust voru þar fryst rúmlega 6.000 tonn. Allt árið nemur frysting þessara fisktegunda um 5.500 tonnum á móti tæplega 10.000 tonnum allt síðasta ár.

Stöðug vinna í rússafiski

Friðrik segir að nú sé ágæt afkoma af framleiðslu fiskimjöls og lýsis svo það komi ekki að sök að markaðir fyrir frysta loðnu og síld séu afar slakir. Það sé helzt að minna verði um vinnu fyrir fólk í landi. En fyrirtækið hafi haldið uppi stöðugri vinnslu á rússafiski og eigi hráefni til að halda uppi þeirri vinnslu út marzmánuð miðað við eðlilega loðnuvertíð, en gert er ráð fyrir einhverri frystingu þá.