SAKSÓKNARAR í máli Anwars Ibrahims, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Malasíu, lögðu í gær fram dýnu sem sönnunargagn en þeir halda því fram að Anwar hafi haft kynmök við eiginkonu fyrrverandi ritara síns á dýnunni, og að á dýnunni sé að finna sæðisbletti því til sönnunar.
Réttarhöldin yfir Anwar í Malasíu Götótt dýna afhjúpuð í réttarsal

Kuala Lumpur. Reuters.

SAKSÓKNARAR í máli Anwars Ibrahims, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Malasíu, lögðu í gær fram dýnu sem sönnunargagn en þeir halda því fram að Anwar hafi haft kynmök við eiginkonu fyrrverandi ritara síns á dýnunni, og að á dýnunni sé að finna sæðisbletti því til sönnunar. Skyggði þessi uppákoma algerlega á deilu lögmanna Anwars við dómarann í málinu vegna skriflegra yfirlýsinga tveggja manna þess efnis að lögregla hefði neytt þá til að gangast við því að hafa átt samræði við Anwar.

Dýnan var pökkuð inn í brúnan pappír þegar lögreglumenn báru hana í réttarsal og hölluðu þar upp að vegg. Hafnaði Augustine Paul, dómari í málinu, mótmælum verjenda gegn því að dýnan væri borin fram sem sönnunarggn en verjendur segja hana ótengda ákærum á hendur Anwar, sem sakaður er um spillingu og um að hafa átt samræði við karlmenn, sem er bannað með lögum í Malasíu.

Rifu starfsmenn réttarins pappírinn af dýnunni við upphaf vitnaleiðslna í gær og sagði Musa Hassan yfirlögregluforingi síðan í vitnisburði sínum að þetta væri sama dýna og lögregla hefði fjarlægt úr íbúð þar sem Anwar er sakaður um að hafa haft samræði við Shamsidar Taharin, eiginkonu fyrrverandi ritara síns. "Orthoflex Classic," sagði Musa þegar hann var spurður um gerð dýnunnar, sem var götótt og þakin brúnum skellum. Greindi Musa frá því að þrettán holur hefðu verið skornar í dýnuna svo hægt væri að rannsaka hvort þar væri að finna lífsýni, og hvort þau væru úr Anwar.

Sagði Musa að talið væri að blettirnir brúnu, sem sjáanlegir eru á dýnunni, væru sæðisblettir. Saksóknarar færðu samt engin rök fyrir þeim staðhæfingum né heldur hvernig hægt þeir tengdu blettina við Anwar.

Beitti lögregla óprúttnum aðferðum við yfirheyrslur?

Verjendur Anwars þjörmuðu nokkuð að Musa sem viðurkenndi í gær að blóðsýni, sem tekið var úr Anwar átta dögum eftir að hann var handtekinn, hefði verið notað án vitundar Anwars til að kanna hvort hann væri faðir barns Shamsidars Taharins. "Satt er það, Anwar hafði ekki gefið samþykki sitt fyrir DNA-prófi," sagði Musa, en illa gekk að rannsaka blóðið "því aukaefnum hafði verið blandað saman við það." Vitnaði Musa einnig að lögmenn Anwars hefðu hafnað óskum lögreglunnar um að fram færi nákvæm rannsókn á kynfærum og endaþarmi Anwars.

Kom til deilna milli dómara og verjenda Anwars í gær þegar einn verjenda Anwars gerði tilraun til að lesa upp úr skriflegri yfirlýsingu Munawars Anees, fyrrverandi ræðuskrifara Anwars, þar sem hann heldur því fram að lögregla hafi neytt hann til að gangast við því að hafa átt samræði með Anwar gegn vilja sínum.

Sögðu verjendur Anwars að yfirlýsingar Munawars og Sukmas Dermawans, stjúpa Anwars, í þessa veru sýndu að þeir hefðu verið "píndir til að búa til sannanir gegn Anwar". Dómarinn í málinu úrskurðaði hins vegar að yfirlýsingar mannanna væru málinu óviðkomandi og því væri ekki hægt að leggja þær fram á þessu stigi.

Reuters

LÖGREGLUMENN bera dýnuna, sem saksóknarar lögðu fram í máli Anwars Ibrahims, inn í réttarsalinn.