ÚT er komin síðasta sagan í bókaflokknum um Sossu, Sossa sönn hetja, eftir Magneu frá Kleifum. Fyrri bækurnar hlutu athygli og nutu viðurkenninga og verðlauna. Sossubækurnar fjalla um lífsbaráttu alþýðufólks í byrjun aldarinnar. Frásagnir þeirra eru mjög raunverulegar og stundum er eins og höfundurinn hafi sjálfur lifað þá tíma og þau harðindi sem þar er sagt frá.

Sögur af sönnum hetjum

ÚT er komin síðasta sagan í bókaflokknum um Sossu, Sossa sönn hetja, eftir Magneu frá Kleifum. Fyrri bækurnar hlutu athygli og nutu viðurkenninga og verðlauna. Sossubækurnar fjalla um lífsbaráttu alþýðufólks í byrjun aldarinnar. Frásagnir þeirra eru mjög raunverulegar og stundum er eins og höfundurinn hafi sjálfur lifað þá tíma og þau harðindi sem þar er sagt frá.

"Já, ég held að þetta sé nokkuð raunsæisleg saga," segir Magnea frá Kleifum, "þó ég hafi að vísu ekki lifað þessa tíma sjálf! Sagan gerist á tímabilinu frá síðustu aldamótum og fram til 1918. Sossa er að verða fullorðin kona en er ekki eins og venjulegar stelpur þess tíma. Hún vill ekki giftast og lenda í fátækt og basli. Hún vill eitthvað annað, en veit ekki hvað! Ætli það hafi ekki gilt um margar konur á þessum tímum? Ég hugsa það! Þó ég hafi ekki lifað þessa tíma, upplifi ég það samt þannig að ég hafi lifað þá! Þetta streymir inní hugann frá undirmeðvitundinni og ég þarf ekki að lesa mér til, þetta kemur bara. Ég ræð ekki einu sinni nöfnunum á persónunum."

Eru þetta þá boð frá undirmeðvitundinni eða skyggnilýsingar kannski?

"Nei, ég er ekki skyggn! En stundum finnst mér sögurnar birtast mér eins og ég sé að horfa á gamla kvikmynd. Þá er bara að horfa og skrifa! Sossa kom til mín eftir að ég hafði verið mjög veik. Síðan birtust persónurnar ein af annarri og sagan varð til. Eins og ég sagði áðan var þetta eins og að horfa á gamla kvikmynd. Ég sá fátæktina fyrir mér, þó ég sjálf þekki ekki í raun og veru lífið sem lýst er í Sossubókunum. En ég er sannfærð um að þetta allt hefur einhvern tíma gerst, bara ekki á þessum tíma eða þessum stað."

Gerast allar Sossubækurnar á Ströndum?

"Já, þó ég sé búin að búa hérna í Eyjafirðinum í nærri fimmtíu ár, er ég og verð alltaf Strandamaður. Ég kemst aldrei út fyrir Strandasýsluna þegar ég skrifa. Sossa er lík mér. Ég átti svona sterka trú eins og hún. Trúin er mitt haldreipi í lífinu, án hennar yrði allt einskisvert! Börn í dag skortir þessa heitu trú."

Þú hefur skrifað skáldsögur fyrir fullorðna líka!

"Já, en þær voru víst ekki nútímalegar í viðhorfum! Ég var alltaf að skrifa um þennan sterka mann sem ef til vill er hvergi til nema í draumum. Ég ólst upp við sterka föðurímynd. Faðir minn var eins og klettur og ég var sennilega alltaf að skrifa um hann."

Sögurnar um Sossu hafa hlotið góðar viðtökur. Hvetur það þig ekki til áframhaldandi ritstarfa?

"Við kveðjum Sossu í þessari bók. Hún nær ekki lengra hjá mér. Í lok sögunnar kveðja aðalpersónurnar tvær Ísland, en þau koma bæði aftur heim. Það er ég viss um! Ég hef aldrei litið á mig sem skáldkonu, heldur endursegi ég bara það sem ég sé og þarf ekkert nema tíma, blað og penna. Áður fyrr voru það stolnar stundir af nætursvefninum sem fóru í þetta. Ég átti stóra fjölskyldu, svo það var nóg að sýsla. En þetta er einhver ástríða sem maður losnar ekki við! Ég er ósköp ánægð ef einhver nennir að lesa bækurnar mínar. Þetta er dálítið líkt því að senda börnin sín út í heiminn. Maður er ósköp ánægður ef þeim vegnar vel!"



Hann græddi ekki annað á því en að nú ákváðum við að gera honum einhverja glennu þegar tækifæri gæfist og það kom fyrr en varði. Hann svaf yfirleitt á bakinu og hraut hátt með opið ginið. Við náðum okkur í nokkra væna þorska og lögðum í kojuna hjá honum undir teppið, alsloruga og sleipa. Við ætluðum að drepast úr hlátri og fannst að við yrðum að gera eitthvað meira. Sóttum því smábútung sem átti að sjóða daginn eftir og var með haus og sporð, tróðum honum fast upp í opið ginið á honum um leið og hann sogaði að sér andann, hentumst síðan yfir í okkar kojur og breiddum upp yfir haus.

Fyrst heyrðist ekki neitt, svo kom heljar mikið sog og baul, skyrp og ræskingar, bölv og ragn.

Hinir strákarnir vöknuðu og ruku með andfælum fram úr, spurðu hver fjandinn gengi á, hvort drengauminginn væri nú orðinn alvitlaus eða hvað. Þegar þeir sáu hvers kyns var hlógu þeir eins og vitlausir og spurðu Kugg hvort það væri siður í henni Ameríku að sofa hjá þorskum í stað stelpna.

Úr Sossa sönn hetja

Magnea frá Kleifum