STJÓRNENDUM Rafmagnsveitu Reykjavíkur er það hulin ráðgáta hvers vegna kílómetra löng aðrennslispípa, sem flytur vatn að Elliðaárstöð, sprakk seint á mánudagskvöld með þeim afleiðingum að mikið vatnsflóð myndaðist á Rafstöðvarvegi og í Elliðaánum. Að sögn Gunnars Aðalsteinssonar, rekstrarstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur, gæti hugsast að jarðskjálftarnir í haust hafi veikt pípuna.
Vatn úr bilaðri aðrennslispípu frá Árbæjarlóni veldur tjóni í Elliðaárdalnum Jarðskjálfti gæti hafa

veikt lögnina

fyrri í haust

STJÓRNENDUM Rafmagnsveitu Reykjavíkur er það hulin ráðgáta hvers vegna kílómetra löng aðrennslispípa, sem flytur vatn að Elliðaárstöð, sprakk seint á mánudagskvöld með þeim afleiðingum að mikið vatnsflóð myndaðist á Rafstöðvarvegi og í Elliðaánum. Að sögn Gunnars Aðalsteinssonar, rekstrarstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur, gæti hugsast að jarðskjálftarnir í haust hafi veikt pípuna.

Pípan lét ekki undan vegna aldurs, því endingartími hennar er 50 ár, en hún hafði verið í notkun í 20 ár. Hún er 2 metrar í þvermál og er hulin hálfs metra jarðlagi. Pípan var full af vatni, þegar hún sprakk, en vanalega renna 12 rúmmetrar af vatni á sekúndu um pípuna á daginn þegar starfsemi er í rafstöðinni. Vegna fallhæðar, sem er 40 metrar, myndaðist mikill þrýstingur þegar gat kom á pípuna og stóð vatnsstrókur upp úr henni.

Myndi gisna í mikilli hreyfingu

"Við fengum sérfræðinga, sem voru við hönnun pípunnar, til að meta tjónið fyrir okkur og sömuleiðis að leita orsaka á því hví hún sprakk," sagði Haukur Pálmason aðstoðarrafmagnsstjóri. Haukur segir að ekki sé útilokað að pípan hafi laskast í jarðskjálftum í haust, en ómögulegt sé að segja nokkuð til um það fyrr en sérfræðingarnir skila niðurstöðum sínum. "Pípan er úr tré og getur þolað þó nokkra sveigju og á ekki beinlínis að vera hætt þótt hún hreyfist aðeins, en hún þolir ekki mikla hreyfingu. Hún er girt eins og tunna og myndi gisna og fara að leka í mikilli hreyfingu."

Vatnsflaumurinn gróf undan pípunni og við það seig hún og brotnaði 15­20 metrum ofan við staðinn þar sem fyrst fór að leka úr henni. Vatnsflaumurinn gróf meira en mannhæðardjúp og 10­15 metra breitt gljúfur frá pípunni niður að Elliðaánum og gróf einnig í sundur malbikaðan veg, sem liggur upp að félagsheimilinu. Flestallt sem varð fyrir flaumnum á leiðinni niður að Elliðaánum sópaðist burt, þar á meðal gróður og tré og ljósastaur losnaði upp, sem stóð við malbikaðan göngustíg. Tjónið er ekki fullmetið, en ljóst er á ummerkjum að það hleypur á milljónum.

Nokkrir mánuðir uns

viðgerð lýkur

Unnið var að bráðabirgðaviðgerðum á veginum í gær og einnig þarf að gera við háspennustrengi sem liggja samsíða pípunni. "Þetta gerðist á örfáum mínútum," sagði Gunnar Aðalsteinsson, sem var á vettvangi í gær. "Allur jarðvegur var hvítskúraður niður á klöpp og þetta kom okkur á óvart því rörið átti þrjátíu ár eftir af endingartíma sínum." Pípan er stórskemmd á 20 metra kafla við félagsheimili Rafmagnsveitunnar. Nokkrir mánuðir munu líða þangað til búið verður að gera við hana.

Elliðaárstöð verður því ekki starfandi þann tíma, en rafmagnsnotendur munu ekki finna fyrir skorti á rafmagni því Rafmagnsveitan hefur orkusamning við Landsvirkjun, sem lætur veitunni í té þau 3,2 megawött, sem er afkastageta stöðvarinnar.

Neðar í Elliðaárdalnum gætti áhrifa vatnsflaumsins þar sem vatn flæddi inn í rafstöðvarhúsið og olli minniháttar skemmdum.

Vatnið upp fyrir hjólbarða

Strætisvagn á leið 15 frá SVR, sem ók um Rafstöðvarveg rétt eftir miðnætti, bilaði þegar vatn frá pípunni flæddi inn á vél vagnsins og var ekki hætt á annað en öxuldraga hann á verkstæði. Sigurður Guðlaugsson vagnstjóri sagðist ekki hafa orðið vatnsins var fyrr en um seinan og því ekið út í flauminn. Náði vatnið upp fyrir hjólbarða vagnsins, en Sigurður náði vagninum upp á þurrt og þar drapst á vélinni. Strætisvagn á leið 14 kom til aðstoðar og flutti farþegana á áfangastað.

Morgunblaðið/Golli TÓLF rúmmetrar á sekúndu fara um afrennslispípuna frá Árbæjarlóninu niður í rafstöð. Pípan er um þúsund metra löng og um tveir metrar í þvermál. Myndin sýnir þann stað sem pípan brotnaði, en gatið sjálft kom 15 metrum neðar. Vatnið úr gatinu spýttist upp fyrir rörið og gróf undan því með fyrrgreindum afleiðingum.

LJÓST er að rofmáttur vatnsins hefur verið gríðarlegur, enda ruddi flaumurinn nánast öllu úr vegi á leið sinni til Elliðaánna. Árnar spilltust þó ekki af aur því hann hafnaði í uppþornuðum farvegi norðan við Elliðaárnar.