Jólatré sótt út í skóg Grund-Nú er kominn sá tími að fólk er í óða önn að undirbúa jólahátíðina, og það sem alls ekki má vanta er jólatrén. Fyrir þessi jól, eins og undanfarin jól bjóða Skógrækt ríkisins og einstaklingar sem rækta jólatré, fólki að koma og velja sér og höggva sitt eigið tré.
Jólatré sótt

út í skóg

Grund - Nú er kominn sá tími að fólk er í óða önn að undirbúa jólahátíðina, og það sem alls ekki má vanta er jólatrén.

Fyrir þessi jól, eins og undanfarin jól bjóða Skógrækt ríkisins og einstaklingar sem rækta jólatré, fólki að koma og velja sér og höggva sitt eigið tré. Þetta eru hinar skemmtilegustu ferðir fyrir fjölskylduna, og börnin verða mun ánægðari með trén sín ef þau fá að velja þau sjálf. Oft vill þó koma upp vandamál ef börnin eru mörg í fjölskyldunni, en smekkurinn misjafn, og öll vilja sitthvort tréð. Þá er gott að vitna í gamalt máltæki ­ sá vægir sem vitið hefur meira.

Starfsfólk Marels kom í Selskóg í Skorradal fyrir nokkru að velja sér tré hjá Skógræktinni í Hvammi. Allir eru velkomnir slíkra erinda, bæði starfshópar og einstaklingar, og hægt er að taka á móti hópum sem í eru á annað hundrað, eins og hópurinn frá Samskipum sem kom um síðustu helgi. Eftir skógarhöggið er gjarnan farið heim að Hvammi til að ylja sér á heitu súkkulaði.

Tveir aðilar bjóða upp á þessa þjónustu í Skorradal. Skógrækt ríkisins, Hvammi, en skógarvörður þar er Ágúst Arnarson og hjónin í Dagverðarnesi, Kristín Guðbrandsdóttir og Jón Jakobsson.

Morgunblaðið/Davíð Pétursson