DÓMUR Hæstaréttar í kvótamálinu á eftir að verða lengi á vörum landsmanna, á því leikur enginn vafi. Hvar sem Víkverji hefur komið að undanförnu er dómurinn til umræðu manna á meðal, viðbrögð við honum, hvort sem er pólitísk eða annars konar viðbrögð.
DÓMUR Hæstaréttar í kvótamálinu á eftir að verða lengi á vörum landsmanna, á því leikur enginn vafi. Hvar sem Víkverji hefur komið að undanförnu er dómurinn til umræðu manna á meðal, viðbrögð við honum, hvort sem er pólitísk eða annars konar viðbrögð. Allir virðast hafa mjög ákveðnar skoðanir á þessu máli og sannfæring manna virðist vera fyrir því, að fiskveiðistjórnunarkerfið muni taka breytingum til hins betra, í kjölfar dómsins. Víkverji heyrði á dögunum af því, eftir að forsætisráðherra hafði gert heldur lítið úr gildi dómsins, þar sem Hæstiréttur hefði einungis verið skipaður fimm dómurum en ekki sjö, að einn hæstaréttardómarinn hefði látið þau orð falla, að þegar Hæstiréttur fjallaði um fimmtu grein laganna um stjórnun fiskveiða, þá væri dómurinn skipaður fimm dómurum, en þegar hann myndi fjalla um sjöundu grein laganna yrði hann að sjálfsögðu skipaður sjö dómurum! Hver hélt því svo fram að hæstaréttardómarar hefðu enga kímnigáfu?!

MEÐ sunnudagsblaðinu síðasta fylgdi átta síðna blaðauki tileinkaður lífi og starfi Margrétar Guðnadóttur prófessors. Víkverji hafði mikla ánægju af lestri þessa blaðauka, því það er beinlínis dýrmætt að fá innsýn inn í líf og störf þessarar manneskju, sem þrátt fyrir augljós afrek á vísindasviðinu, hefur bersýnilega aldrei verið fyrir það gefin að trana sér fram. Það er margt sem vekur athygli við lestur greinanna um Margréti: hennar eigin frásögn af uppvextinum á Vatnsleysuströnd; fátæktinni, sem þó aldrei var nefnd því nafni; það hvernig hún brýst til mennta, með dyggum stuðningi eldri systkina, sem hafa greinilega séð hvaða námsmaður bjó í fermingarstúlkunni ungu; hvernig hún lýsir Birni Sigurðssyni sem hennar besta kennara, að öðrum ólöstuðum; hvernig hún eftir afar óhefðbundinni leið komst í rannsóknastöðu við ekki ómerkari menntastofnun en Yale-háskólann; hvernig hún lýsir því að vera vísindamaður af guðs náð, en um leið einstæð tveggja barna móðir o.s.frv. Þessi blaðauki er hafsjór af fróðleik um stórmerka konu og stórskemmtilegur aflestrar.

HVAÐ er eiginlega á seyði með þetta blessaða GSM-kerfi, hugsar Víkverji einatt og iðulega. Einhvern veginn er það svo, að það sem maður var eitt sinn svo þakklátur fyrir, þessar líka óhemju tækniframfarir sem gerðu manni kleift að vera í símasambandi hvar sem er og hvenær sem er, hefur aldrei verið. Það er farið að fara í taugarnar á Víkverja að nota GSM- símann, því það gerist a.m.k. í öðru hverju símtali að sambandið rofnar, þagnir koma sem vara í einhverjar sekúndur og svo kemst stundum á samband á nýjan leik og svo framvegis. Þegar talað er í GSM-síma er helmingi algengara en ella, að annar hvor eða báðir verði að endurtaka megnið af því sem sagt hefur verið, vegna þessarar lausagöngu sambandsins. Víkverji veltir því fyrir sér hvort ekki hafi almennt dregið úr notkun GSM-símanna og hvort eitthvað verði gert til þess að bæta úr þessu.