Björn Kjartansson
Elsku afi minn, nú hefur þú loksins fengið þína hinstu hvíld. Það
var erfitt að sitja hjá þér síðustu dagana og vita að ekki yrði heilsa þín eins og áður, að ekki yrðir þú hinn sami. Það var gott að fá að sitja hjá þér stund og stund og segja það sem aldrei er nógu oft sagt þegar ástvinur á í hlut. Allt það sem þú hefur verið okkur, allt sem þú hefur gert fyrir okkur í gegn um árin var kominn tími til að rifja upp og þakka fyrir. Það sem á milli okkar fór var okkar. Ég veit að nú vakir þú yfir mér og öllum í fjölskyldunni og ég vil trúa því að nú sértu orðinn heill heilsu. Alzheimer er sjúkdómur sem erfitt er að gera sér grein fyrir í fyrstu. Þegar þú fórst að finna fyrir honum fyrst varstu vanur að hlæja að vitleysunni eins og þú kallaðir það þegar þér varð á. Seinna meir voru einfaldir hlutir ekki lengur á færi þínu og síðar fórstu að hætta að þekkja okkur. Það var svo sárt að finna til þess í fyrsta sinn að þú áttaðir þig ekki á því hver væri hjá þér. Þrátt fyrir það hef ég reynt að hugga mig við að þér leið ekki illa, þú kvaldist ekki þó stundum hafirðu fundið fyrir vanmætti þínum gegn breytingunum sem voru að eiga sér stað.
Elsku afi minn, það er svo margs að minnast, svo margt að þakka. Ég er þakklát guði fyrir að hafa fengið að kveðja þig og sjá að þú þjáðist ekki. Þú sofnaðir hægt og hljótt umkringdur ástvinum.
"Þegar maður hefir tæmt sig að öllu, mun friðurinn mikli koma yfir hann. Allir hlutir koma fram í tilvistina, og menn sjá þá hverfa aftur. Eftir blóma ævinnar fer hvað eina aftur til upphafsins. Að hverfa aftur til upphafsins er friðurinn; það er að hafa náð takmarki tilvistar sinnar." (Lao-Tse.)
Elsku amma, Jóna, Sigga og pabbi, megi guð styrkja okkur öll í sorginni og gefa að minning afa lifi í hjörtum okkar.
Helga Jóhanna.