Björn Kjartansson Elsku afi, nú þegar þú ert farinn frá okkur koma upp í hugann ótal minningar, bæði gamlar og nýjar, þegar við minnumst þín. Við munum eftir því að alltaf þegar við krakkarnir komum til þín og ömmu í heimsókn voruð þið tilbúin að spila og leika við okkur endalaust. Þú kenndir okkur hin ýmsu spil og fræddir okkur um löndin í landabréfabókinni þinni. Við höfum alltaf verið með ykkur ömmu á aðfangadagskvöld en núna verður þú ekki hjá okkur, elsku afi. Hjá þér hafði máltækið "sælla er að gefa en þiggja" raunverulega merkingu, því höfum við alltaf fundið fyrir og fengið að njóta þess. Við höfum öll átt ógleymanlegar stundir með þér. Ein af mínum ógleymanlegustu stundum var þegar þú varst að passa mig í nokkra daga yfir sumar, og á hverjum degi fórstu með mig í Laugardalslaugina og gafst mér aukamiða í rennibrautina sem þá var nýopnuð.

Elsku afi, þú munt alltaf lifa í minningum okkar sem við munum ávallt varðveita.

Elsku amma, þú hugsaðir alltaf svo vel um afa í veikindunum. Við biðjum Guð um að styrkja þig í sorginni og vonum að það sé styrkur fyrir þig að vita að núna er afi kominn á betri stað þar sem honum líður vel.

Ljúfur ómur loftið klýfur

lyftir sál um himingeim.

Þýtt á vængjum söngsins svífur

sálin glöð í friðarheim.

Sóley, Sigurveig og Leifur.