Björn Kjartansson
Elsku pabbi. Nú hefurðu fengið
hvíld frá þrautunum, eftir nokkurra ára erfiða sjúkdómsgöngu.
Ég man þegar þú komst fyrst inn í fjölskyldu okkar, þá var ég á sjöunda ári. Ég tók þér sjálfsagt ekki með opnum örmum, heldur mikilli varfærni því ég hafði eiginlega haft mömmu fyrir mig eina, þar sem ég var langyngst af okkur systkinunum. Þú skildir vel þessa varfærni mína og beiðst rólegur eftir því að ég væri tilbúin, og ætlaðist ekki til neins. Við kynntumst betur og smám saman varð til þessi væntumþykja og traust. Þú sýndir mér alltaf einstaka þolinmæði og góðmennsku og varst alltaf tilbúinn að gefa af þér, en krafðist ekki mikils af öðrum. Það hljóta að hafa verið mikil viðbrigði fyrir þig sem hafðir búið einn að koma inn í fjölskyldu með öllu sem því fylgir. Þú sagðir mér stundum frá bernsku þinni sem var erfið, þurftir að vinna sem barn og þér var oft kalt. Og það var eins og þú ynnir úr þessari lífsreynslu á þann hátt að þér var mjög umhugað um að okkur liði sem best.
Þegar tilvonandi eiginmaður minn, Grétar, fluttist inn á heimilið tókstu honum vel eins og þér var líkt. Þú studdir okkur og hvattir til náms og fylgdist af áhuga með. Eigum við margar skemmtilegar minningar frá því þegar þú og mamma komuð í heimsókn til okkar á námsárum í Kaupmannahöfn.
Þegar við eignuðumst þak yfir höfuðið varst þú alltaf til taks að hjálpa okkur, og man ég að þú komst oft beint úr Álverinu og vannst með okkur langt fram á kvöld í öllum verkum. Börnin mín hafa líka fengið að kynnast þér vel. Það var ekki svo sjaldan, ef þú áttir vaktafrí, sem þú komst til okkar þegar þau voru veik, svo að við foreldrarnir kæmumst til vinnu.
Elsku pabbi, ég held að þitt lífsgildi hafi verið, að okkur í fjölskyldunni farnaðist sem best. Ég vil þakka þér innilega fyrir samfylgdina og allt sem þú hefur gert fyrir mig.
Elsku mamma, megi styrkur Guðs vera með þér og lýsa þér í gegnum myrkur skammdegisins.
Jóna.