Kristín Gunnlaugsdóttir Oddsen
Minning um mömmu.
Nú þegar laufabrauðsgerð stendur til og sláturgerð er nýafstaðin
get ég ekki annað en hugsað til þín. Á hverju hausti þegar þú laukst við að sauma síðasta sláturkeppinn byrjaðir þú að bóka þig í laufabrauðið. Aldrei gat ég skilið þessa tilhlökkun í þér þegar sláturtíðin hófst og þú blessaðir "blessaðar vambirnar". Þau voru ófá heimilin sem höfðu á borðum slátur sem þú hafðir lagt hönd að. Ættingjar, vinir, læknar, póstmeistarar, prestar allir voru jafn ánægðir með slátrið hennar Kristínar, enda leitun að öðrum eins gæðum.
Svo byrjaði laufabrauðsvertíðin, með tilheyrandi kleinubakstri, því fyrst búið var að hita feitina fyrir laufabrauðið var lítið mál að steikja kleinur úr nokkrum kílóum. Þeir sem ekki höfðu heilsu í þvílíkan bakstur á eftir laufabrauðinu fengu bara sendan smápoka af kleinum seinna. Þeir voru margir "smápokarnir" með kleinum sem fóru frá þér hingað og þangað í desember og jafnvel allt árið um kring. Þegar aðfangadagur nálgaðist var ekki óalgengt að þú ættir engar kleinur, því þú varst alveg óvart búin að gefa þær allar, einnig soðna brauðið og flatbrauðið, sem þú varðst þó að eiga með hangikjötinu á jólunum. Já, mamma mín, þú varst alveg ótrúleg, þeim mun meira sem þú gafst öðrum, þeim mun ríkari varðst þú í hjarta þínu. Þó annríkið í bakstrinum væri mikið fyrir jólin mátti ekki sleppa prjónunum lengi, því allir urðu að fá sokka og vettlinga frá þér, jafnt stórir sem smáir. Oft varst þú að draga upp úr síðustu lykkjunni á aðfangadagsmorgun, vegna þess að áður prjónaðir vettlingar eða sokkar sem höfðu átt að fara í pakka lentu á kaldar hendur eða fætur, sem þörfnuðust þeirra í desember. Oft sagði ég við þig: "Mamma, af hverju ertu að þessu?" Og þú svaraðir: "Svona, við tölum ekki um þetta." Þegar svo hátíðin gekk í garð, allir voru orðnir fínir og maturinn til, stóðst þú með rúllurnar í hárinu og sparikjóllinn ennþá inni í skáp, þá sagðir þú að þig langaði mest til að leggja þig. Þá fékkstu kannski ekki hýrt auga frá fjölskyldunni, en þér lá ekkert á, því þú hafðir lokið þínu fyrir þessi jól.
Það er efni í heila bók allt það sem þú gerðir fyrir aðra um ævina, en oft gleymdir þú að hugsa um sjálfa þig. Þú fékkst heldur betur að kenna á sjúkdómum, þeim hefði mátt dreifa á fleiri en eina góða konu. Við skildum alls ekki hvers vegna þetta var allt á þig lagt. Mig minnir að þú hafir farið 13 sinnum í aðgerðir, fyrir utan allan þann tíma sem frá þér var tekinn í baráttuna við sálarmyrkrið, þar sem birtan komst ekki að. En um leið og ljósið fékk skinið inn greipstu prjónana og þá vissum við að þér væri að batna, en hversu lengi vissum við aldrei. Hversu lasin sem þú varst gleymdir þú aldrei þínum heittelskaða manni eða börnum og öllu því sem okkur tilheyrði. Minni þitt og yfirsýn var með ólíkindum. Alla afmælisdaga Fjallafólks og annarra vina og kunningja mundir þú og ætla ég að reyna að verða ekki eftirbátur þinn. Ljóðaminni þitt var einstakt og gastu þulið heilu ljóðabækurnar. Þegar ég var lítil hélt ég að þú værir að búa þau til jafnóðum. Mér fannst frábært hvað þú kunnir mikið af skemmtilegum orðatiltækjum, vísum og málsháttum, sem þú notaðir þegar þannig stóð á og langar mig til að halda þau í heiðri.
Í lífi þínu umvafðir þú öll þau börn sem á vegi þínum urðu, ekki aðeins þau fimm sem þú fæddir af þér, heldur áttir þú í rauninni svo miklu, miklu fleiri, sem alltaf áttu öruggt skjól hjá þér. Eftir að þú varðst amma þekktu margir faðminn hennar Stínu ömmu, ekki aðeins skyldir, heldur líka alls óskyldir. Ég þakka guði að börnin mín og barnabörnin fengu að kynnast þér og njóta þín, sérstaklega mitt elsta barn, sem þú reyndist svo vel, þar sem ég var bara barn að aldri er ég átti hana. Ég var aðeins 16 ára, en ekki var gert veður út af því hjá ykkur pabba frekar en öðru. Nei, ýmislegt var smámunir hjá ykkur pabba, sem hefði verið stórmál hjá öðrum. T.d. það að fá heilu hópana í mat og gistingu með engum fyrirvara. Það var gengið úr rúmum fyrir gestum og jafnvel sofið úti í tjaldi, ef á þurfti að halda. Alltaf varð að vera til með kaffinu og framreiddar voru heilu veislumáltíðirnar, stundum nánast úr engu. Það var eins og maturinn yxi í höndunum á þér og allir fengu nóg. Ég man svo margt og margt, sem engum hefði dottið í hug nema þér: Eitt sinn þegar þú varst mjög veik og læknir hjá þér að bíða eftir sjúkrabíl til að flytja þig á Akureyri, hafðir þú mestar áhyggjur af því að læknirinn fengi ekkert að borða, því það var matartími. Í annað sinn vaknaði ég upp um miðja nótt á Akureyri við það að þú ert að koma að utan á inniskónum og náttkjólnum með fangið fullt af þvotti nágrannakonunnar, til þess að rigndi ekki í hann. Þessar minningar sýna að hjá þér var ekkert til nema kærleikur, hjálpsemi og endalaus fórn fyrir aðra. Þér var margt til lista lagt. Þú varst snillingur að róa menn niður sem höfðu sopið of mikið, hlusta á þá sem áttu í ástarsorg og stjórna af röggsemi ef á þurfti að halda.
Þegar þú dvaldir á Geðdeildinni, varstu ekki fyrr farin að hressast en þú gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að hjálpa hinum sjúklingunum. Ég þakka fyrir að hafa verið svo lánsöm að eiga þig sem móður, fengið að kynnast þér vel og hafa getað annast þig þegar þú þarfnaðist þess og mun ég búa að þeirri reynslu alla ævi. Ég er þakklát fyrir að þú hefur fengið lausn frá veikindum þínum og megi góður guð sjá til þess að þér líði vel. Ég þakka kveðjuna frá þér og finn að þú ert með mér. Megi guð senda okkur ljós og kraft, sem gera okkur að betri manneskjum, en það var það sem þú stefndir alltaf að.
Elsku mamma, horfum í ljósið því þá birtir hjá okkur. Þín elskandi dóttir,
Oktavía.