Björn Kjartansson
Loksins fékk elskulegur afi okkar
langþráða hvíld og erum við sannfærð um að nú líði honum vel. Það er gott að ylja sér við góðar minningar um yndislegan afa og margar þeirra eru einmitt tengdar jólunum sem brátt ganga í garð. Þær eru ófáar stundirnar sem fjölskyldan hefur eytt hjá ömmu og afa og voru þær hver annarri skemmtilegri. Við sáum brosið sjaldan hverfa af afa, hvort sem var í samtölum við fjölskyldumeðlimi eða í spilum sem eru iðulega höfð við hönd á jólum.
Það eru ótalmargar minningar sem streyma fram á kveðjustund sem þessari. Þá eru það oft hlutir sem virtust smávægilegir þegar þeir áttu sér stað en hlýja okkur nú. Okkur fannst sérstaklega gaman að fara með afa í bíltúr. Honum fannst mjög mikilvægt að fylgjast vel með öllu sem var að gerast í kringum sig og vakti það oft óttablandna kátínu meðal okkar. Við vorum einnig mjög montin af honum afa þegar hann sagði okkur frá ferð sinni til gömlu Sovétríkjanna, enda voru þeir ekki margir, allavega ekki sem við þekktum, sem höfðu komið til þessa merka lands.
Elsku amma. Þú hefur staðið þig eins og hetja á þessum erfiðu stundum. Hugur þinn var og er alltaf hjá afa. Við vonum að guð hjálpi þér og okkur öllum að takast á við þann missi sem við höfum orðið fyrir. Blessuð sé minningin um hann afa.
Sóley, Björn og Elísabet.